- Advertisement -

Sögupersóna: Forsetinn í hjólastólnum

Bandaríkjamenn eru flestum þjóðum áhugasamari um að kanna skoðanir og viðhorf fólks til ólíklegustu málefna. Í tiltölulega nýlegri könnun var fólk þar vestra spurt hvern það teldi besta forseta Bandaríkjanna frá upphafi. Flestir nefndu þrjá menn, George Washington, Abraham Lincoln og Franklin Delano Roosevelt og kom sú niðurstaða víst fáum á óvart.

Franklin Delano Roosevelt var hinn eini þessara þriggja manna, sem gegndi embættinu á 20. öld og hann er eini Bandaríkjaforsetinn sem kosinn hefur verið oftar en tvisvar. Hann fæddist árið 1882, var af efnaðri fjölskyldu og fjarskyldur ættingi Theodore Roosevelt, sem var forseti á árunum 1901-1909. Árið 1905 kvæntist hann náfrænku forsetans, Eleanor Roosevelt, en hún átti eftir að verða meira áberandi og taka meiri þátt í störfum manns sins en algengt var um forsetafrúr á þeim tíma.

Franklin Delano Roosevelt, eða FDR, eins og hann var oft nefndur vestanhafs, þótti ungur efnilegur stjórnmálamaður. Hann var kjörinn í öldungadeild fylkisþingsins í New York-fylki árið 1910, en árið 1921 fékk hann lömunarveiki og lamaðist fyrir neðan mitti og varð þá að hætta stjórnmálastörfum um hríð. Eftir það var hann bundinn við hjólastól, þótt hann fengi að vísu nokkurn mátt í fæturna aftur.

En Roosevelt lét ekki lömunina hefta sig lengi. Hann var kosinn ríkisstjóri í New York-fylki árið 1928 og árið 1932 var hann útnefndur forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins. Þá var heimskreppan í hámarki og hagur fjölmargra Bandaríkjamanna verri en nokkru sinni. Í kosningabaráttunni boðaði Roosevelt nýja stefnu, sem hann nefndi New Deal, og byggðist á meiri þátttöku alríkisins í efnahags- og atvinnumálum en áður hafði þekkst í Bandaríkjunum. Hann vann öruggan sigur á þáverandi forseta, Herbert Hoover, og gegndi forsetaembættinu til dauðadags árið 1945.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í forsetaembætti lét Roosevelt ekki sitja við orðin tóm. Hann hóf þegar í stað efnahagsumbætur og færði Bandaríkin mun nær velferðarríkjum Evrópu en áður hafði verið. Hann notfærði sér einnig útvarpið til að hafa samband við landa sína og hlaut miklar vinsældir fyrir. Í utanríkismálum leit hann á sig sem „alþjóðasinna“ og reyndi að auka þátttöku Bandaríkjamanna í alþjóðamálum en þar hafði hann ekki alltaf erindi sem erfiði, þar sem margir áhrifamiklir menn litu svo á að Bandaríkin ættu að fylgja einangrunarstefnu og forðast að blanda sér í deilur annarra ríkja. Í þessum efnum tókst Roosevelt þó að koma ýmsum málum í þann farveg sem hann sjálfur vildi og í nóvember 1933 viðurkenndi hann t.d. Sovétríkin, án þess að bera þá ákvörðun undir þingið.

Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út haustið 1939 tók Roosevelt strax afstöðu með Bretum og bandamönnum þeirra og eftir að Japanir réðust á Pearl Harbour í desember 1941 og Hitler sagði Bandaríkjamönnum stríð á hendur hófst þátttaka þeirra í styrjöldinni. Þá varð Roosevelt einn af leiðtogum Bandamanna og studdi þá afstöðu að baráttan gegn Þýskalandi nasismans skyldi hafa forgang fram yfir stríðið á Kyrrahafi. Þá sendu Bandaríkjamenn mikið af vopnum og vistum til bæði Breta og Sovétmanna, auk þess sem þeir sendu fjölmennt herlið til Evrópu og tóku fullan þátt í innrásinni á meginlandið. Roosevelt var talsmaður þess að samstarf Bandamanna héldi áfram eftir lok heimsstyrjaldarinnar. Hann var góður vinur Winstons Churchills, forsætisráðherra Breta, og honum var oft legið á hálsi fyrir að treysta Stalín um of. Þrátt fyrir að heilsa hans væri tekin að bila á stríðsárunum sótti hann fundi leiðtoga bandamanna í Casablanca, Quebec, Kairó, Teheran og á Jalta á Krímskaga, en á hinum síðasta var hann afar máttfarinn og öllum var ljóst, að hann ætti ekki langt ólifað.

Franklin D. Roosevelt var ákafur stuðningsmaður stofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem ættu að gæta friðar og koma í veg fyrir fleiri heimsstyrjaldir. Á þeim vettvangi stóð Eleanor, eiginkona hans, þétt við hlið hans og tók virkan þátt í starfi hinna nýju samtaka. Hún var fulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum eftir lát manns síns og formaður mannréttindanefndar stofnunarinnar. Átti hún m.a. mikinn þátt í samningu mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna árið 1948.

Franklin Delano Roosevelt var endurkjörinn forseti árið 1936 og vann þá stærri sigur en nokkur forseti hafði áður gert. Hann fékk meirihluta kjörmanna í öllum fylkjum nema tveimur, Vermont og Maine. Þegar forsetakosningar stóðu fyrir dyrum árið 1940 samþykkti Bandaríkjaþing að vegna hins viðsjárverða ástands í heiminum væri ráðlegt að heimila forsetanum að bjóða sig fram að nýju. Roosevelt vann öruggan sigur í kosningunum og aftur 1944. Þá var hann hins vegar farinn að heilsu og lést 12. apríl 1945.

Jón Þ. Þór skrifaði. Greinin birtist áður í Mannlífi árið 2008.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: