- Advertisement -

Gunnar Smári skrifar:

Hér er tónn frá landsbyggðinni sem minnir um margt á kveikjuna að mótmælum gulu vestanna í Frakklandi.

Úr Vikublaðinu:

Hvar á að byrja ? Enn eitt útspil vinstri öfgavæðingar ríkisstjórnarinnar á að ganga í gegn um áramótin. Kolefnisskattur sem mun hækka eldsneytisverð enn einu sinni og það ekkert smáræði eða allt að tæpum 12 krónum. Græni „hvati“ forsætisráðherra sem átti að hvetja alla að hlaupa út og fá sér rafmagnsbíl fyrir nokkrum árum virðist ekki hafa gefið nóg í vasa ríkisstjórnar. Og nú á að refsa almúganum enn einu sinni vegna þess að ráðamönnum fannst sniðugt að taka þátt í „sáttmála“ sem hljóðar upp á himinháar sektir ef við stöndum ekki við hann. Sem nú hefur sýnt sig að er raunin.

Parísarsáttmálinn er ekkert annað en lélegur brandari.  Ætli partur af sáttmálanum sé að selja upprunaábyrgðir til evrópuríkja svo þau geti blekkt sína íbúa um að verið sé að nota „græna“ orku frá Íslandi ?  Svo mökum við aurnum þeirra yfir okkur og staðfestum inn í kerfið fyrir alþjóða augu að við notumst við kjarnorku og jarðefnaeldsneyti við framleiðslu rafmagns hér á vor ylhýra landi.

Það er með ólíkindum að ætla enn og aftur að troða ofan í okkur enn einum forræðishyggjuskattinum sem jaðrar við hryðjuverk og gerir þeim okkur sem búa á landsbyggðinni enn erfiðara að eiga þar heima. Svo ég tali nú ekki um öll fyrirtækin sem þangað tengjast eða eru þar starfrækt.

Ég og fjölskylda mín rekum um 550 kinda sauðfjárbú á norðausturhorninu. Þar eru dráttarvélar.  Ég er verktaki skólaaksturs í Öxarfirði og þarf til þess verks rútu.  Til þess að komast á milli þurfum við yfir vetrartímann að eiga breyttan jeppa. Partur af þessari „jeppaleið“ er á aðalskólaleið.  Algjörlega útilokað er að verða sér úti um rafmagns- dráttarvél, -rútu eða –jeppa. Þar utan eigum við fjögur börn og tvö af þeim í framhaldsskóla á Akureyri með tilheyrandi akstri og kostnaði.

Við rekum litla ferðaþjónustu við Ásbyrgi sem við höfum reynt að byggja upp frá grunni með lítið á milli handanna en höfum okurvexti bankanna og háa greiðslubyrði okkur til halds og trausts þar.

Þar sem við búum á köldu svæði neyðumst við til að kynda húsin okkar með rafmagni. Rafmagnsreikningurinn hjá mér hljóðar upp á um 55.000 krónur á mánuði (með niðurgreiðslu). Ferðaþjónustuhúsin fengu nýja heimtaug í sumar og þar með missi ég niðurgreiðsluna á þeim og fæ að borga rafmagnið upp í topp þegar sú tenging dettur inn. Jeiii !!! Það er fyrir utan nýja mælakassann sem var settur upp fyrir heimtaugina. Leigan á honum er um 20.000 krónur á mánuði. Bara þetta eitt og sér vekur upp spurnir hjá mér um samkeppnislög frá ýmsum hliðum.

Ferðaþjónustujörðin okkar stendur á barmi Ásbyrgis með þjóðgarðinn hinumegin við girðinguna. Öll uppbygging á jörðinni er að mestu undir hæl þjóðgarðsins.  Þegar ég tók við jörðinni af fyrrum eiganda hennar, hrikti í stoðum Umhverfisráðuneytisins fyrir sunnan því plön þeirra hljómuðu öðruvísi. Ríkið ætlaði sér jörðina, fella hana undir þjóðgarðinn og leggja enn eina jörðina í eyði. Allt fyrir hagsmuni náttúrunnar. Yfir annari jörð á austurbarmi Jökulsárgljúfurs vokir náttúruverndargammurinn og vill ólmur læsa klónum sínum í, til að leggja í eyði.

Þegar vinstri græn Svandís Svavarsdóttir var umhverfisráðherra var reynt að telja öllum Keldhverfingum trú um að best væri fyrir alla að friða allt land norðan þjóðvegar 85 (eftir endilönu hverfinu) Mest allt gróið nytjaland og jarðir í eigu bænda. Það tókst ekki í hennar tíð.

Í dag er rekið dómsmál í boði Bjarna Ben og vinstri stjórnar í nafni Landgræðslunnar að þessu sinni, þar sem reynt er að taka umtalað land með dómi.  Partur af okkar landi er þar á meðal. Það hefur verið yfirlýstur vilji stjórnvalda um langa tíð að Vatnajökulsþjóðgarður nái frá sjó til sjávar. Miðað við framganginn þá virðast þau ætla sér það, sama hvað.

Því spyr maður sig ítrekað orðið hvort undirliggjandi stefna öfga grænna sé í raun að eyða byggð út á landsbyggðinni. Þrengja svo að fólki með endalausum sköttum að það gefst upp og flyst í borgina svo allir geti skoppað um malbikaðar göturnar þar á hlaupahjólum og rafmagnsbílum.  Það er voða fallegur draumur. Landið að mestu allt friðland og við búum öll í sátt og samlyndi á einu horni landsins.

Að refsa okkur „almúganum“ endalaust með sköttum ofan á skatta vegna heimskulegra ákvarðana stjórnvalda, kallar á þá heitu ósk að senda vinstri öfgamenn til baka í tímavél, aftur til miðalda þar sem þeir réttilega eiga heima. Og í skjóli þeirra strýkur þæga framsóknarkisan sér af gömlum vana, utan í sköflungum þeirra í von um að meiga vera „memm“.

Staðreyndin er sú að hér á landi hefur ekki verið virkur landsbyggðaflokkur síðan fyrir hrun. Engin sterk rödd er lengur til staðar sem hefur þor til að benda á betri og skilvirkari lausnir en nú er gert.

-Ágústa Ágústsdóttir, sauðfjárbóndi, ferðaþjónustueigandi, verktaki, móðir, heimiliseigandi og landsbyggðarbúi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: