- Advertisement -

Steingrímur Njálsson og svo Samherji

Í áraraðir sætti ég ömurlegum hótunum Steingríms Njálssonar. Aðrir hafa líka hótað mér. Allt var þetta hvimleitt. Nánast óþolandi. En þetta fylgir því að skrifa aðgangsharðar fréttir. Og stundum óvinsælar. Um tíma átti ég Evrópumet í málssóknum frá hinum og þessum. Vann öll málin nema eitt.

Þegar Bjarni Benediktsson nánast öskraði að mér að hann ætlaði aldrei að tala við mig framar. Allt vegna þess ég að lækaði færslu á Facebook. Sú hótun Bjarna, ef hótun skal kalla, fékk mig til að hætta með umræðuþætti um íslensk stjórnmál. (Sjá neðst í greininni).

Gott og vel. Ég þurfti að búa við ógeðfelldar hótanir árum saman. Það var greinilega samt bara barnaleikur samanborið við það sem nú tíðkast.

„Í gögnunum sem Kjarninn hefur undir höndum er meðal annars að finna Excel-skjal þar sem hluti starfsmanna RÚV, Stundarinnar og Kjarnans eru skráðir og ætluð tengsl þeirra á milli greind. Þá er mynd sem tekin er af  samfélagsmiðli þar sem hópur fjölmiðlafólks sem starfar á mismunandi miðlum situr saman á sumarkvöldi að finna í gögnunum ásamt greiningu á fólkinu og hvernig megi tortryggja tengsl þess. Á mörgum stöðum í gögnunum má sjá stjórnendur og starfsmenn eða ráðgjafa Samherja, sem hafa það hlutverk að grafa undan nafngreindum fjölmiðlamönnum, efast um andlegt ástand þeirra, tala með niðrandi hætti um þau. Þeir sem þarna ræða saman rýna ítrekað í orð, greinar og samfélagsmiðlahegðun blaðamanna í þeim tilgangi að finna á þeim höggstað sem nýtast á til að draga úr trúverðugleika eða búa til efa um hæfi til að fjalla um Samherja,“ segir í einni af fréttum Kjarnans.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er aðeins lítill hluti þessa alls. Blaða- og fréttamenn nútímans búa ekki við að einn og einn hóti þeim. Til er orðin deild innan Samherja sem vinnur að því að rægja fólkið og eyðileggja mannorð fjölmiðlafólks. Þetta er geggjað.

Enn sefur stjórnmálafólkið.

-sme

Færslan sem Bjarni varð hvað reiðastur yfir:

„Engey er víða. Áður en neyðarlögin voru sett hringdi Sturla Pálsson, hagfræðingur í Seðlabankanum, í konu sína, Helgu Jónsdóttir, eins og fram kom í Kastljósi, og upplýsti um yfirvofandi aðgerðir bankans. Helga er dóttir Guðrúnar Sveinsdóttur, systur þeirra Einars og Benedikts Sveinssonar, stórtækra fjárfesta. Benedikt er faðir Bjarna, sem nú er fjármálaráðherra. Hann og Helga eru systkinabörn. Áður en neyðarlögin voru sett fengu Engeyingar því viðvörun og svigrúm til að bjarga sínu. Algjörir snillingar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: