- Advertisement -

Stjórnmál á sunnudegi: Ríkisstjórnin vill viðhalda biðröðum hjá hjálparstofnunum

Það er óverjandi að nota fé úr almannasjóðum til að viðhalda eða auka ójöfnuð í samfélaginu.

Stjórnmál á sunnudegi: Gunnar Smári skrifar:

Íslendingar eru rík þjóð af auðlindum, innviðum og sjóðum. Af þeim sökum getum við mætt kórónakreppunni af fullu afli. Allt tal um að öryrkjar og launafólk verði að taka á sig höggið er píp, við getum farið í gegnum þetta án þess að almenningur, heimilin í landinu verði fyrir neinu höggi. Ef við viljum. En því miður sitjum við uppi með ríkisstjórn sem metur það svo að ekki eigi að verja heimilin heldur eigendur fyrirtækjanna, að engu eigi að verja til heimilanna nema rétt nægu til að forða ríkisstjórninni frá uppreisn.

Aðgerðirnar sem kynntar voru í gær voru þess eðlis, smá sporslur sem hent var í öryrkja, börn og atvinnulaust fólk svo ráðherrarnir gætu haldið því fram að aðgerðir þeirra sneru að þessum hópum. Þessar sporslur voru innan um aðgerðir til hjálpar fyrirtækjum um tugi milljarða króna, faldar þar svo kynna mætti sem hæstu heildartölu í von um að almenningur tryði að stórar upphæðir væru að fara til heimilanna.

Vincent Tan, malasískur businessmaður, hefur fengið 840 m.kr. ríkisábyrgð frá ríkisstjórninni, maður sem aldrei hefur komið til Íslands og ekkert lagt til samfélagsins.

Krafa almennings á að vera að holan sem kreppan skilur eftir verði fyllt með framlögum til heimilanna og einkum þeirra sem eiga minnst og þurfa að lifa af lægstu tekjunum. Það er eina siðlega aðgerðin þegar fé er veitt úr almannasjóðum. Það er óverjandi að nota fé úr almannasjóðum til að viðhalda eða auka ójöfnuð í samfélaginu, eins og ríkisstjórnin hefur gert hingað til.

Tökum dæmi: Vincent Tan, malasískur businessmaður, hefur fengið 840 m.kr. ríkisábyrgð frá ríkisstjórninni, maður sem aldrei hefur komið til Íslands og ekkert lagt til samfélagsins. Hann notaði peninginn til að teikna hótel á hafnarbakkanum í Reykjavík yfir á borgarland til að búa til þrýsting til að fá það land undir hótel sitt. Framlag ríkisstjórnarinnar til þessa manns vegna kreppunnar er meira en til þrjátíu þúsund heimila á leigumarkaði, svo dæmi sé tekið.

Leigjendur sem misst hafa vinnuna og hrapað svo í tekjum að þeir eiga ekki bæði fyrir leigunni og mat hafa ekki fengið neitt frá ríkisstjórninni. Þeir standa í biðröð eftir mat fyrir utan hjálparstofnanir. Ríkisstjórnin vill ekki styðja þá til að lifa með reisn heldur heldur blaðamannafundi (sem eru ekki blaðamannafundir því engar spurningar eru leyfðar) til að tilkynna að hún ætli að styðja hjálparstofnanir til að viðhalda niðurlægingu leigjendanna.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: