- Advertisement -

Störfum hjá fjölmiðlum hefur fækkað verulega eða um 1.362 frá árinu 2013

Jóhann Páll Jóhannsson.

„Störfum í fjölmiðlum fækkaði úr 2.238 í árslok 2013 í 876 árið 2020. Það segja tölur Hagstofunnar. Það eru alveg sláandi tölur. Ég trúði því eiginlega ekki fyrst þegar ég sá þetta,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu á Alþingi.

„Þetta eru tölur sem lýsa í rauninni algjöru niðurbroti einnar af grunnstoðum lýðræðis og upplýstrar umræðu á Íslandi, og ég held að hæstvirtur menningarráðherra átti sig alveg á því hvað þetta er alvarlegt, átti sig alveg á mikilvægi þess að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla, eins og hún fór hér yfir, og er ágætt að horfa til Danmerkur í þeim efnum. En vandinn er bara sá að hæstvirtur ráðherra er í stjórnarsamstarfi við flokk og fólk sem hefur beitt sér af alefli gegn því að hér verði komið upp sanngjörnu styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla. Þannig er það bara,“ sagði Jóhann Páll.

„Við sáum þennan núning á síðasta kjörtímabili og þegar það fékkst loksins í gegn hér á Alþingi að samþykkja endurgreiðslur á rekstrarkostnaði til fjölmiðla var búið að búa þannig um hnútana að mikill meiri hluti styrkjanna rennur til þriggja stærstu einkafjölmiðla á Íslandi, m.a. til fjölmiðlastarfsemi sem rekin er með gríðarlegu tapi en er niðurgreidd af sérhagsmunaöflum og á köflum misbeitt mjög harkalega í þágu fjársterkra hópa í samfélaginu. Og hver er staðan núna? Jú, styrkjakerfið rennur út á þessu ári og hjá einkareknum fjölmiðlum ríkir algjör óvissa um framhaldið. Fyrirsjáanleikinn er enginn. Það er varla stafkrók um þetta að finna í fjármálaáætlun, ekkert konkret. Ríkisstjórnin verður að gera miklu betur.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: