- Advertisement -

Stórskyttan og lífríki borðtuskunnar

Minn gamli ritstjóri Össur Skarphéðinsson skrifaði fína grein:

„Kristrún, sem sannarlega má kalla stórskyttu Samfylkingarinnar, heldur áfram að skora! Frá því hún varð forsætisráðherra hefur fylgið aukist um næstum þriðjung. Á meðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn varla hreyfst, rétt mjakast upp um eitt prósent – þó laus við Bjarna og undir splunkunýrri forystu.

Ástæðan fyrir fylginu er ekki síst að Kristrún er augljós leiðtogi sem talar skýrt – og lætur verkin tala. Fólki finnst hún röggsöm enda hefur ríkisstjórn hennar rutt út stórmálum á stuttum tíma. Miklu skiptir líka að í mjög erfiðu og snúnu máli sem varðaði afsögn barnamálaráðherrans varð henni hvergi fótaskortur. Fólk virti einfaldlega hreinskilni forsætisráðherrans.

Sjálfur Mogginn getur ekki dulið virðingu sína. Þegar ný forysta flokksins réðst persónulega á Kristrúnu útaf máli barnamálaráðherrans skaut Davíð Oddsson skildi fyrir hana í Reykjavíkurbréfi. Sá maður hefur óþol fyrir miklu rugli, einkum frá eigin fólki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Jafnvel Spursmál Moggans birtu einlæga ástarjátningu í barnslega krúttlegum pistli. Þar upplýsti nafnlaus höfundur dolfallna lesendur um að Kristrún væri slíkum hælileikum búin að hún gæti leikið allar stöður á vellinum! Hástigi náði þessi lýsing þegar höfundur líkti henni við einn ástsælasta handboltamarkvörð Íslandssögunnar, Björgvin Pál.

Af Sjálfstæðisflokknum eru eru hins vegar öllu dauflegri fréttir. Hann virðist strax kominn í blóðlausa biðstöðu eftir næsta landsfundi, Áslaug Arna og hennar lið bíður átekta meðan Guðlaugur Þór er á hinum vængnum með hulduherinn á vaktinni, verndarengla Guðrúnar Hafsteinsdóttur.

Ófrægingarherferð formanns þingflokksins gegn Kristrúnu er svo skólabókardæmi um hvernig stjórnmálaflokkur á ekki að vinna. Í færslu frá síðasta sunnudegi sakar Hildar Sverrisdóttur hana efnislega um að hafa logið að þinginu. Fáheyrðar persónulegar árásir af þessu tagi skilja einungis eftir óbragð hjá fólki. Þær auka hvorki virðingu né fylgi við Sjálfstæðisflokkinn.

Að sama skapi virðist þingflokkurinn stjórnlaus – enda formaður hans upptekin við annað. Hann skandalíserar með reglulegu millibili, ýmist með gölnu málþófi um plasttappa eða hótunum um að opinbera skrá skrímsladeildar flokksins um „beinagrindur“ þingmanna annarra flokka.

Sjálfstæðisflokkurinn sem ég átti í höggi við í meira en þrjá áratugi sló fast – en aldrei undir belti. Andspænis þessum vinnubrögðum kemur gömul smásaga eftir Þórarinn Eldjárn ósjálfrátt upp í hugann – um lífríki borðtuskunnar.

Á meðan heldur Kristrún áfram að skora.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: