- Advertisement -

Stórútgerðin, Gunnars majónes og Dagur B.

Svo senda þau nokkra brauðmola til blaðamanna, og nytsamlegra sakleysingja, til að reka hatursfullan áróður og ofsækja hamslaust hvern þann sem kynni að detta í hug að rukka þá fyrir gjöfina…

Gauti B. Eggertsson.

Gauti B. Eggertssson skrifaði fína grein á Facebook. Greinin er sæmilega löng en þannig að ekki kemur til greina að Miðjan stytti hana eða eigi við hana á annan hátt.

Ég sé í fréttum að útgerðin er að kaupa sér Gunnar majónes. Ísland er að verða land nokkurra ólíarka, sem fengu verðmæti hafsins gefna á silfurfati, og nota svo auðlindarentuna til að kaupa upp restina af eignum landsins, þar með talið fyrirtæki sem vandséð að þeir hafi nokkra þekkingu til að reka. En gjöf hafsins er svo stór að þeir vita ekkert hvað þeir eiga að gera við allan þennan pening. Á meðan sveltur heilbrigðisþjónustan og menntamál. Einn skógarleiðangur þeirra var að verða bankamenn, það var auðvitað algerlega óljóst hvernig reynsla af rekstri sjávarútvegs myndi nýtast í því umhverfi, við vitum hvernig það endaði. Nú majónes og allt milli himins og jarðar er smám saman farið að þjappast á þessar fáu hendur. Og takið eftir því, að þótt þeir hafi tapað stjarnfræðilegum upphæðum í hruninu, hafa þeir vart haggast, svo mikið er innflæðið frá hafinu, sem þeir hafa aðgang að sér að kostnaðarlausu. Svo senda þau nokkra brauðmola til blaðamanna, og nytsamlegra sakleysingja, til að reka hatursfullan áróður og ofsækja hamslaust hvern þann sem kynni að detta í hug að rukka þá fyrir gjöfina, sem enn er að gefa, og vera til þess líklegur að gera það. Á meðan almenningur sér ekki stóru myndina, og fellur í fang áróðursmaskínu þeirra er við litlu góðu að búast.

Ég mun dæma þessa ríkisstjórn, fyrst og fremst, eftir því hvernig hún fer með stærstu auðlind Íslands. Bæði Samfylking og Viðreisn hafa haft þá stefnu að kvóta skuli selja á opnum markaði og svo sé frjálst framsal. Ég hygg að báðir flokkar hafi talað fyrir afskriftarleið, þar sem afskrifað er mjög hófleg prósent af kvótahöfum sem er svo boðinn upp á opnum markaði. Á frjálsum markaði kemur svo í ljós í gegnum verð kvóta, hversu stór rentan er í raun og veru. Það er engin ástæða til að reyna að meta hana með öðrum hætti, en sú er raunin ef að reyna á að ná rentunni með skattlagningu. Nú er tækifæri þessa flokka til þess að standa við stóru orðin gegn stærstu og best fjármögnuðu áróðursmaskínu Íslands. Munu þeir standast þá prófraun? Ég er ekkert sérlega bjartsýnn. Í því felst nefnilega að taka pólitíska ákvörðum er skerðir mjög hagsmuni fjársterkra aðila.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…útgerðir eru reknar með svo gríðarlegum hagnaði ár eftir ár…

Nú kann einhver að segja að það sé óskaplega ósanngjarnt að vera að afskrifa kvóta til þeirra sem hann keyptu af öðrum útgerðum. Þau rök eru afar veik. Allt frá því kvótakerfið var sett fram var stærstur hluti þjóðarinnar því mótfallinn, og allan þennan tíma hafa margir stjórnmálaflokkar haft það á stefnuskrá sinni að breyta kerfinu. Sá sem kvóta hefur keypt, er því algerlega ljóst að um mikla áhættufjárfestingu er að ræða (sem að vísu er búin að margfalt búin að borga sig upp í langflestum tilfellum). Þetta er ástæðan fyrir því að margar útgerðir eru reknar með svo gríðarlegum hagnaði ár eftir ár, þeir keyptu kvóta á mjög lágu verði, sem endurspeglaði óvissuna. Til halda fengnum, hafa útgerðarmenn sett peninga, sem í þeirra efnahagsreikningi er klink, inní stjórnmálaflokka í stórum mæli og um 300 milljónir á ári í Morgunblaðið til að reka harðan áróður um að gjöf hafsins sé þeirra og aðeins þeirra.

Því miður heyrist mér á sumum forystumönnum Samfylkingarinnar að þetta snúist bara um að hækka „veiðigjalds skatt“. Ég held að þetta sé röng nálgun. Vandinn er að það fyrsta sem næsta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Miðflokks gerir er að fella hann niður. Við sáum það vera fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar þegar síðasta vinstristjórn féll.

Þess vegna held ég að það sé óheppilegt að hugsa um þetta sem skatt, sem er einfalt að breyta, en hugsa frekar um þetta líkt og hefur verið stefna Samfylkingar og Viðreisnar í fjölda ára, og ég held að sé enn, sem er kerfisbreyting sem erfiðara er að hnika þegar á er komið. Afskrift og útboð er sáraeinfalt, og miklu erfiðara við að hnika þegar almenningur sér hversu einfalt það er, og hversu miklu þetta getur skift fyrir fjársvelt heilbrigðiskerfi og menntakerfi.

PS. Það leikur á því í mínum huga enginn vafi að sú mikla hatursherferð sem hefur verið gegn Degi bróður mínum á sér rætur, fyrst og fremst, í hræðslu útgerðarinnar að hann myndi breyta sér fyrir stefnu Samfylkingarinnar um langa hríð og hrinda í framkvæmd stefnu sem feli í sér að þjóðin fái réttlátan skerf af þessari stærstu auðlind þjóðarinnar, líkt og Norðmenn af olíunni. Þess vegna eru þessar endalausu ekki-fréttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: