- Advertisement -

Það á enginn að vera heimilislaus!

Til stendur að loka tímabundnu úrræði fyrir heimilislausar konur sem hefur verið opið sl. mánuði vegna Covid. Reynslan af þessu úrræði hefur verið afar góð og virðist hafa haft í för með sér aukin lífsgæði fyrir þær konur sem þangað leita.

Í yfirlýsingu sem þessar konur sendu á fjölmiðla í dag, kemur fram á nú þegar COVID-19 smitum hefur fækkað á Íslandi á að loka

úrræðinu og henda þeim aftur á götuna. 

Stjórn Geðhjálpar fjallaði um málið í dag, og tók heilshugar undir áskorun þessara heimilislausu kvenna og hvetur fólk til að lesa hana. 

Stjórn Landssamtakanna Geðhjálpar skorar á borgaryfirvöld, önnur sveitarfélög og ríkið að hvika hvergi og leggja aukinn þunga á uppbyggingu úrræða og þjónustu við þá hópa sem samfélagið hefur allt of lengi mismunað vegna fordóma og skilningsleysis. Það er stefna Reykjavíkurborgar að leggja skuli á hilluna úreltar hugmyndir í tengslum við heimilislaust fólk og taka þess í stað upp fordómalausari nálgun. Of lengi hefur það viðgengist í samfélaginu að mismuna fólki sem talið er „öðruvísi“ og fellur ekki að fyrirfram gefnum hugmyndum um það sem talið er „eðlilegt“. 

Stefna Reykjavíkurborgar byggir á „húsnæði fyrst“ nálguninni en kjarni hennar gengur út á að forsenda bættra lífsgæða og bata einstaklings sé að hafa þak yfir höfuðið. Sú stefna sem núverandi heilbrigðisráðherra hefur boðað með skaðaminnkandi úrræðum fellur vel að þessari nýju nálgun. 

Stjórn Geðhjálpar skorar á sveitarfélög landsins og ríkisvaldið að tryggja rekstur úrræðisins eða sambærilegra úrræða til frambúðar og taka upp samtal um samræmda stefnu á landsvísu í málefnum heimilislausra. Meginmarkmiðið ætti að vera að enginn ætti að þurfa að vera heimilislaus á Íslandi. Með því verður samfélag okkar betra.

Sjá nánar á obi.is.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: