- Advertisement -

Þar sem Ísland skrapar botninn

Við ættum að taka öllum hugmyndum um að ganga á græn svæði með miklum fyrirvara og vonandi verður svar hæstvirts ráðherra upplýsandi um stöðu þessara mála í Reykjavík.

Diljá Mist Einarsdóttir.

Diljá Mist Einarsdóttir Sjálfstæðisflokki sagði á Alþingi:

Í úttekt OECD um húsnæðismarkaðinn á Íslandi kom fram að aðgengi Íslendinga að grænum svæðum í þéttbýli væri minnst allra OECD-ríkja. Þannig væru aðeins tæplega 3,5% þéttbýlissvæða hérlendis skilgreind sem græn svæði en meðaltal OECD-landanna er um 17%. Þetta eru sláandi tölur og full ástæða til að staldra við. Sem þingmaður Reykvíkinga hef ég nú lagt fram fyrirspurn til hæstvirts umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um græn svæði í Reykjavík, hvernig aðgengi Reykvíkinga sé í alþjóðlegum samanburði og hvort þau eigi undir högg að sækja í núverandi skipulagi Reykjavíkur, m.a. vegna stefnu um svokallaða þéttingu byggðar.

Þessi fyrirspurn er reyndar líka vel við hæfi úr mínum ranni, því að við Sjálfstæðismenn höfum alltaf lagt áherslu á aðgengi borgarbúa að grænum svæðum. Græna byltingin er hugtak sem væntanlega ekki allir tengja við kosningaloforð Sjálfstæðismanna sem hrundið var í framkvæmd. Ég hef talið mig lánsama að alast upp í hverfi í Reykjavík þar sem er stutt í náttúruna og í Reykjavík eru fjölmörg stórkostleg græn svæði: Fossvogsdalurinn, Elliðaárdalurinn og Laugardalurinn, svo eitthvað sé nefnt. Þessi svæði auka lífsgæði okkar og við verðum að standa vörð um þau. Maður hefur því miður fengið það á tilfinninguna að meiri hlutanum í Reykjavík sé ekki eins annt um það hlutverk.

Virðulegi forseti. Við ættum að taka öllum hugmyndum um að ganga á græn svæði með miklum fyrirvara og vonandi verður svar hæstvirts ráðherra upplýsandi um stöðu þessara mála í Reykjavík.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: