- Advertisement -

Þarf að endurvinna frumvarp ráðherrans

Ari Trausti Guðmundsson, Vinstri grænum, er ekki laus efasemda um ágæti þess að leggja af Nýsköpunarmiðstöð. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunar vill að Nýsköpunarmiðstöð verði lög af um komandi áramót.

„Við erum ekki að flytja verkefnin án fjármagns þannig að það muni bitna á verkefnum sem þegar eru á öðrum stað í stjórnkerfinu. Það er ekki til önnur greining en sú að við horfum á fjármagnið sem fer nú þegar til Nýsköpunarmiðstöðvar. Með flutningi verkefna, og auðvitað líka nýjum verkefnum sem verður að koma á fót, verða eftir 300 millj. kr. sem fara síðan til baka inn í ríkissjóð,“ sagði Þórdís Kolbrún í einni ræðu sinni.

Umtalsverður hluti núverandi verkefna Nýsköpunarmiðstöðvar verður komið til einkafyrirtækja.

„Ég vil benda á að þar er eitt og annað sem vekur spurningar, m.a. ef einkaaðilar eiga að sinna ráðgjöf til frumkvöðla sem eru að taka fyrstu skref, þá er spurning hvort verð hjá einkaaðilunum fæli ekki þessa frumkvöðla frá því að taka fyrstu skrefin,“ sagði stjórnarþingmaðurinn Ari Trausti.

Væri ekki hægt að skýra það betur?

„Nýsköpunarmiðstöð hefur fengið allt að 1.000 fyrirspurnir um frumkvöðlaverkefni, við skulum orða það þannig, á hverju ári. Það hefur oft verið minna en nálgast þessa tölu, allt að 1.000. Það bendir til þess að það sé nauðsyn að hafa bakhjarl fyrir fyrstu skref sem er mjög ódýr eða ókeypis. Það er það sem ég er að reyna að segja. Mér finnst ríkið geta tryggt það og spyr einfaldlega: Er það ekki svo? Er einhver mótsögn í því að ákveðinn hluti þessarar ráðgjafar verði áfram í höndum ríkisins? Ég tel ekki svo vera.“

Ari Trausti: „Þá vil ég líka benda á það að mér finnst ekki skýrt hvað verður um skipulag frumkvöðlaaðstoðar um landið allt. Þetta er jú mikilvæg byggða- og atvinnustefna eins og við vitum. Ég get varpað fram spurningum eins og hver verði tengsl við þekkingarsetur, sem eru til um allt land. Væri ekki hægt að skýra það betur, búa fyrir fram til tillögu að skipulagi um hvernig samhæfingu og aðstoð við frumkvöðla um allt land verður háttað?“

Ari Trausti er sýnilega ekki sáttur en boðar samt ekki viðspyrnu, aðra en þessa:

„Þegar allt kemur til alls eru tvær leiðir núna fram undan. Það er að endurvinna þetta frumvarp í ráðuneytinu að einhverju leyti með nægilegu samráði eða að þingnefnd, háttvirt atvinnuveganefnd, leggi í verulega mikla vinnu í það að skýra ýmislegt í þessu frumvarpi. En hvor leið sem farin verður finnst mér það verða að leiða fyrirsjáanlega — ég nefni orðið fyrirsjáanlega — til þess að tæknirannsóknir og nýsköpun á Íslandi eflist mjög því að við höfum mikla þörf fyrir það í íslensku samfélagi núna, hvort sem við tölum um fyrir eða eftir Covid. Það finnst mér vera verkefni okkar í þinginu að tryggja.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: