- Advertisement -

Þegar hvalveiðimenn vaða uppi með rangfærslur og bull á RÚV

Ole Anton Bieltvedt:

Strax, af þessari ástæðu, þessu broti, hefði mátt og átt að stöðva veiðar. Um þetta virðist fréttamaður lítið vita, enda leiddi Kristján það vitaskuld algjörlega hjá sér.

Kristján Loftsson forstjóri Hvals og Bergsteinn Sigurðsson stjórnandi Kastljóss.

Í Kastljósi 19.09. ræddi Bergsteinn Sigurðsson, fréttamaður, við Kristján Loftsson um hvalveiðar, sér í lagi um það, að MAST hefði stöðvað veiðar Hvals 8 tímabundið.

Mér hefur oft fundizt Bergsteinn ágætur í Kastljósi, en í þetta skipti átti það ekki við. Hann virtist illa undirbúinn og þekkingarsnauður á efnið í slíkum mæli, að hann varð að hengja sig á Kristján og hans málflutning með sínar eigin spurningar og athugasemdir, í stað þess að mæta til leiks með skynsamlegar og krefjandi spurningar, byggðra á góðri fyrirfram skoðun og greiningu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…hefði mátt og átt að stöðva veiðar.

Við lá, að manni findist, að Bergsteinn væri þarna að ganga erinda hvalveiðiklíkunnar, fremur en að reyna að kryfja og skýra málið fyrir áhorfendum, þó ég vilji ekki, í reynd, ætla honum slíkt..

Mættu yfirmenn á RÚV gjarnan skoða og meta þáttinn.

7. grein nýrar reglugerðar 895/2023

Þessi reglugerð var sett af matvælaráðherra 31.08.23 til að reyna að tryggja, að langreyðar væru drepnar á mannúðlegan hátt (þó að Fagráð um velferð dýra og margir aðrir, undirritaður meðtalinn, hafi marg bent á, að ómögulegt væri, að tryggja samstundi-dráp á því risadýri, sem langreyðurin er, með þeirri skutulbyssu og tækni, sem unnið er með).

Skv. 7. grein skal skjóta á svokallað „marksvæði“ hvalsins, en það er svo sýnt á teikningu, sem fylgir reglugerðinni. Spannar það eingöngu yfir hjarta- og lugnasvæði dýrsins.

Hvar var umrætt dýr skotið?

Í stað þess að fylgja þessum skýru fyrirmælum um skot á marksvæði, var blessað dýrið skotið í höfuðið, þar sem skutull boraðist inn í hold og vefi, festist þar, utan á hauskúpu, án þess að skutull springi og dræpi dýrið.

Strax, af þessari ástæðu, þessu broti, hefði mátt og átt að stöðva veiðar. Um þetta virðist fréttamaður lítið vita, enda leiddi Kristján það vitaskuld algjörlega hjá sér.

Á hverju byggðist veiðistöðvunin?

Í þessari sömu grein segir: „Þegar dýr drepst ekki tafarlaust, ber án tafar að framkvæma endurskot“.

Var ekki verið að draga dýrið að skipinu, þegar spilið festist?

Það var ekki gert, heldur var blessað dýrið látið berjast um, fast á höfði á skutli og kaðli, þar sem stálkló skutuls reif og tætti hold og vefi dýrsins, í heilar 30 mínútur. Þetta var ástæðan fyrir tímabundnu banninu.

Skýring Kristjáns og undirtektir fréttamanns

Kristján vildi útskýra það, að seinna skotið hefði dregizt svona lengi, með því, að spilið í bátnum, sem notað er til að draga dýrin inn, hefði bilað, festst. Hefði skotfæri verið of langt.

Vildi hann koma sök á starfsmann Fiskistofu, sem hefði sýnt villandi mynd af þessu, með því að beita súmi á myndkeiðið, til og frá, sem hefði sýnt skemmri fjarlægð í dýrið, en var.

Jafn illt og það er, skildi fréttamaður ekki málið betur en svo, að hann sýndi þessi súm, fram og til baka,  eins og þetta súmatriði væri höfuðmálið.

Hafi fjarlægðin í dýrið, með fast spil, verið of löng fyrir endurskot, var það væntanlega vísbending um, að upphafsskotið hafi þá líka verið framkvæmt úr of löngu færi. Var ekki verið að draga dýrið að skipinu, þegar spilið festist?

Er bilun grunntækja og skipsbúnaðar gild afsökun?

Höfuðmálið hér er þó þetta: Hvalveiðiskipin eru 70 ára gömul. Einhver hluti búnaðar jafn gamall og annar hluti eitthvað yngri. Í marga áratugi hefur lítil þróun átt sér stað í tækjabúnað til veiða á stórhveli, þar sem engin þjóð stundar þær, nema Íslendingar.

Er þessi búnaður því mest lúinn og úreltur. Sprengiskutullinn, sem Hvalur notar fyrir langreyðaveiðar, Hvalgranat-99, var þróaður í Noregi til hrefnuveiða, sem er tífallt minna dýr en langreyður.

Allt er þetta á ábyrgð Hvals, og andstætt því, sem Kristján fullyrti…

Ljóst er, að það er skylda Hvals að tryggja nauðsynlegt viðhald og notkunargæði síns hvalveiðibúnaðar, þannig, að hann standist við hin ýmsu og breytilegu skilyrði.

Það að kenna gömlum og kannske slitnum og úreltum búnaði um, stenzt engan veginn. Hefði spilið verið í nothæfu og traustu lagi, eða handvömm starfsmanna ekki komið til, hefði það ekki festst.

Ábyrgð Hvals skýlaus

Allt er þetta á ábyrgð Hvals, og andstætt því, sem Kristján fullyrti og fréttamaður jánkaði, að það ætti að vera í lagi og fullgild afsökun, ef grunnbúnaður við starfsemi, akstur eða annað bilaði.

Sagði Kristján, að, ef bíll bilaði og ylli árekstri, væri af og frá, að bilstjóri væri settur í ævilangt aksturbann, þetta væri það sama, og enn jánkaði fráttamaður. Líka talinu um „ævilangt“.

Bílar, flugvélar, önnur farartæki, líka bátar og skip, lyftur og margvísleg önnur tækni þurfa að vera trygg og í öruggi lagi, til að notkun standist og sé leyfileg. Er opinbert eftirlit, skoðanir, í gangi með margt, en auðvitað ber eigandi/notandi samt lokaábyrgð á öryggi og gæðum sinna tækja.

Slitni lyftuvír, ber eigandi ábyrgð á slysi, detti hjól undan rútu, sama saga, enda gerist slíkt ekki, ef eftirlit og viðhald er fullnægjandi. Þegar hoppukastali slitnaði upp á Akureyri, voru forsvarsmenn dæmdir ábyrgir.

Dráp með rafmagni

Aftur fullyrti Kristján, að illt væri, að honum leyfðist ekki að drepa langreyðar með rafmagni. Slíkt væri einfalt og rakið. Hjarta og heili biluðu á svipstundu. Hér erum við að tala um 60.000 kg dýr langt úti í hafi, tuga metra frá skipi.

…ofbeldi gangnvart öllum hinum Altlantshafsþjóðunum.

Sum ríki Bandaríkjanna leyfa enn, að glæpamenn séu aflífaðir í rafmagnsstól. Vandinn hefur bara verið sá, að að erfitt hefur reynzt að gera stóla, sem tryggja samstundis-dauða. Margir, sem hafa lent í þessari hræðilegu aftökuaðferð, hafa engst og kvalist mínútum saman, kannske 100 kg menn, sitjandi innan í rafmagnskerfinu sjálfu.

Það mætti halda, að Kristján væri ekki með sjálfum sér í þessum langreyða rafmagnsdrápshugleiðingum sínum. Sumir hefðu talað um sturlaðar hugmyndir.

Eru langreyðar auðlind?

Enn kom Kristján með þessa gömlu tuggu, að langreyðar væru auðlind Íslendinga, sem nýta bæri.

Í fyrst lagi, er það spurning, hvort villt spendýr, háþróaðar vitsmunaverur, sem lifa í sínu eigin vistkerfi, þar sem allt tengist og vinnur saman, er yfir höfuð okkar eign, mannanna. Og, ef svo væri, hver hafi þá gefið okkur þessar lífverur, þetta lífríki, hvenær og hvernig?

Eiga þessi háþróðuðu dýr, hinir friðsælu risar úthafanna, ekki rétt á sínu eigin frjálsa lífi, sinni eigin velferð, laus við yfirgang, græðgi og grimmd manna?

Í annan stað, ef hvalirnir eiga að skilgreinast sem auðlind manna, sem margir fyrir mér grunnhyggnir menn hér vilja gera, þá lifa þeir um gjörvalla Atlantsála, frá norðri til suðurs, en við þessi höf búa 35-40 þjóðir.

Ef hvalirnir væru auðlind, þá væru langreyðarnar sameign allra þessara þjóða, en svo vill til, að þær vilja allar, nema ein, Íslendingar, að hvalirnir séu friðaðir.

Hvalveiðar Íslendinga eru því ekki aðeins yfirgangur við dýrin og níð á þeim, heldur líka yfgangur og ofbeldi gangnvart öllum hinum Altlantshafsþjóðunum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: