- Advertisement -

Þingmenn Vg stráfelldir – ekki vantraust segir Katrín

Dagfari Hringbrautar skrifar:

Þingmenn Vinstri grænna hafa farið illa út úr vinsældakosningum sem hafa farið fram innan flokksins í einstökum kjördæmum að undanförnu. Sitjandi þingmenn sem hafa sóst eftir að leiða lista hafa allir tapað. Kjósendur í þeirra eigin kjördæmum hafa hafnað þeim og sent þá út í kuldann. Þetta ástand hefur vakið margar spurningar og veldur miklum titringi í flokksforystunni.

Ráðherrar flokksins, þær Katrín og Svandís, virðast standa í þeirri meiningu að flokksmenn þeirra og kjósendur almennt gleðjist og standi með þeim ef þær birtast bara nógu oft í viðtölum við ríkissjónvarpið og eins í viðtalsþáttum. Þær gera sér ekki ljóst að þjóðin er komin með meira en nóg af stjórnarháttum Vinstri grænna og því er kallað eftir breytingum á öllu sem unnt er að breyta. Einnig er ólgandi reiði út í vinnubrögð heilbrigðisráðherrans vegna sóttvarnamála og sleifarlags í ýmsum efnum sem tengjast veiruvandanum sem nú hefur staðið yfir í meira en heilt ár.

Smám saman hefur kvarnast út þingliði Vinstri grænna. Þingmenn Vinstri grænna voru ellefu í byrjun kjörtímabils. Svo gengu þau Rósa Björk og Andrés úr flokknum vegna skoðanaágreinings. Þá voru eftir níu. Svo komu eðlilegar og mjög tímabærar yfirlýsingar frá Steingrími J. og Ara Trausta um að þeir ætluðu að hætta vegna aldurs. Þá voru eftir sjö.

Kolbeinn Óttarsson Proppé ákvað að sækjast eftir fyrsta sæti flokksins í Suðurkjördæmi því hann telur sig vera heppilegt ráðherraefni komist flokkurinn aftur í ríkisstjórn og því vildi hann leiða lista. Hann hafnaði í fjórða sæti eftir að þrjár galvaskar og misvel þekktar konur nánast rassskelltu hann í prófkjöri flokksins í kjördæminu. Eftir mikinn grát og gnístran tanna ákvað Kolbeinn að skríða heim til Reykjavíkur í gamla kjördæmið og reyna að fljóta inn á Katrínu eins og síðast. Sjáum hverju harmagráturinn kann að skila. Ekki fór heldur vel fyrir Bjargey Ólsen í Norðausturkjördæmi. Hún situr nú á þingi og taldi sig réttkjörna til að taka við að Steingrími J. þegar hann hættir nú. Það gekk ekki eftir. Óli Halldórsson, bæjarfulltrúi á Húsavík, náði efsta sætinu og mun leiða listann. Ólafur Gunnarsson, þingmaður og læknir í Kópavogi, sóttist eftir oddvitasæti Vinstri grænna í Kraganum og hefði verið vel að því kominn. En honum var einnig hafnað.

Loks tapaði Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem leitt hefur lista flokksins í Norðvestur kjördæmi. Bjarni Jónsson í Skagafirði náði af henni fyrsta sætinu. Hún kom þá í viðtöl í fjölmiðlum og vændi keppinauta sína um óheiðarleg vinnubrögð í prófkjörinu. Þoldi illa að tapa. En vildu flokksmenn ekki bara hreinsa til í þingliði flokksins?  Er það ekki lýðræði? Er það ekki einfaldlega að gerast hjá Vinstri grænum?

Og þá voru eftir þrír. Þessir þrír þingmenn eru Katrín formaður, Svandís og Steinunn Árnadóttir, allar í Reykjavíkurkjördæmum. Fljótlega kemur á daginn hvort sömu örlög bíða þeirra og hinna sem vísað hefur verið út í kuldann.

Þegar fjölmiðlar spyrja Katrínu Jakobsdóttur um þessa þróun og hvort henni þyki ekki uggvænlegt að fólk ýmist flýi þingflokkinn eða sé hafnað af flokksmönnum, þá neitar hún því að um vantraust sé að ræða.

Ætli hún meti þessar afgerandi niðurstöður sem tærar traustsyfirlýsingar við hina föllnu þingmenn Vinstri grænna og forystu flokksins í heild?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: