Við megum vera þreytt – en við eigum líka skilið að vera reið.
Jasmina Vajzovic.
Jasmina Vajzovic skrifaði þessa fínu grein:
Einn en manneskja í tugi manna hópi sem finnst allt er „þessum útlendingum, sem eru glæpamenn“ að kenna að allt fer miður í þessu landi. Því íslensku penningar eru fyrir Íslendinga „okkar fólk“ en ekki fyrir „þau“.
Það eru tímar þar sem ég stoppa og horfi á þjóðfélagið í kringum mig– og það eina sem maður finnur er þreyta. Ekki líkamleg þreyta, heldur sú tegund sem sest í bein og merg, sem dregur úr trausti og tekur frá manni trúna á réttlæti. Ég er þar. Þreytt á orðræðunni. Þreytt á því að horfa á sífellt fleiri telja sér trú um að meginástæðan fyrir veikleikum samfélagsins sé „við“. Við sem fluttum hingað til að vinna, lifa, gefa börnum okkar betra líf og lifa í sátt og samlyndi við samfélagið. Við sem völdum ekki (og ráðum engum um) kerfin, stjórnmálin, né forgangsröðunina. Við sem tökum ekki þátt í valdakerfinu þar sem ákvarðar eru teknar um hvernig skattpeningarnir eru notaðir — en greiðum þá samt.
– vinnum, greiðum skatta, sendum börnin okkar í skóla og tökum þátt í samfélaginu.
Það virðist orðið sjálfsagt að benda á innflytjendur og flóttafólk þegar eitthvað fer úrskeiðis: þegar húsnæðiskerfið er í molum, þegar heilbrigðiskerfið er ofhlaðið, þegar menntakerfið nær ekki utan um alla nemendur, eða þegar velferðarkerfið stíflast. Og svo koma staðalmyndirnar — að við séum byrði, að við séum að taka meira en við gefum, að við viljum ekki aðlagast. En tölurnar segja annað. Flest okkar — og þegar ég segi flest, þá tala ég um yfirgnæfandi meirihluta, — vinnum, greiðum skatta, sendum börnin okkar í skóla og tökum þátt í samfélaginu.
Þrátt fyrir það sitjum við oft eftir. Þeir sem kenna okkur um allskyns vanda hafa oft meiri aðgang að umræðunni, fjölmiðlum og völdum. Við hins vegar — sérstaklega konur, flóttafólk, þeir sem tala ekki reiprennandi íslensku — höfum síður rödd í opinberri umræðu. Við þurfum að vera „þakklát“, hlýðin og róleg. Allt annað er túlkað sem vanþakklæti eða jafnvel árás.
En spyrjum: Hvernig getur hópur sem hefur ekki völd verið ábyrgur fyrir kerfisbundinni misráðningu fjármuna, fátækt, húsnæðisskorti, stéttaskiptingu og vantrausti á kerfin? Það er óheiðarlegt að beina spjótunum að þeim sem standa veikast og hafa lítið svigrúm til mótspyrnu.
Þessi orðræða — að leita sökudólga í minnihlutahópum — er ekki ný. Hún hefur fylgt mannkyninu í gegnum aldirnar og alltaf með sömu afleiðingum: ójöfnuður, útilokun, hatursorðræða og síðar jafnvel aðgerðir sem byggjast á ótta fremur en staðreyndum. Þegar samfélag leitar í það mynstur, er það vísbending um að grunnstoðir þess eru að gliðna. Því miður virðist íslenskt samfélag nálgast þann stað. Við sjáum það á umræðu um hælisleitendur, flóttafólk, um aðlögun og um það hvernig margir leyfa sér birta ásakanir á hendur hópa sem geta ekki svara fyrir sig.
En við verðum að snúa spurningunni við: Hvað vill Ísland vera? Land sem byggir á manngildi, réttlæti, jöfnuði og tækifærum — eða land þar sem útlendingahatur og tortryggni verður samnefnari fyrir allar félagslegar áskoranir?
Ég er ekki hér til að biðjast afsökunar á tilvist minni. Ég hef lagt mitt af mörkum og geri það enn — rétt eins og flestir aðrir sem flutt hafa hingað. Ég geri meira, örlítið, eða töluvert meira en meðal innfæddur Íslendingur ef þjóðerni á skipta máli. Ég er ekki vandamálið. Og ekki “hinir” innflytjendur heldur. Það er kominn tími til að við segjum það upphátt: innflytjendur eru hluti lausnarinnar, ekki rót vandans!
- Staðreyndir tala sínu máli
- Fjöldi innflytjendaÍ byrjun árs 2024 voru innflytjendur 18,6% af heildarbúfjölda á Íslandi, samkvæmt Hagstofu Íslands – og hækkar hlutfallið ár frá ári. Það er staðreynd að atvinnulíf og opinber þjónusta standi ekki undir sér án þessa hóps.
- Þátttaka á vinnumarkaði
- Samkvæmt Vinnumálastofnun voru um 86% innflytjenda á aldrinum 20–64 ára í vinnu, sem er hærra en meðaltal íslenskra ríkisborgara í sama aldurshópi. Við vinnum, stundum lengri vinnutíma á viku en innfæddir, og oft í störfum sem halda grunnstoðum samfélagsins gangandi: umönnun, ræstingum, byggingariðnaði, matvælaframleiðslu.
- Skattgreiðslur og efnahagslegt framlag
- Rannsóknir sýna að innflytjendur greiða í heildina meira í skatta en þeir fá til baka í beinni þjónustu. Skýrsla OECD frá 2020 staðfestir þetta – bæði almennt og í íslensku samhengi. Þeir leggja til samfélagsins en njóta ekki alltaf sömu þjónustu vegna tungumálahindrana, kerfislegra hindrana eða útilokunar.
- Menntun og aðlögun
- Mýtan um að innflytjendur vilji ekki aðlagast er einfaldlega röng. Hundruð einstaklinga stunda íslenskunám, námskeið um samfélagið og taka virkan þátt í lífi hér. En þegar kerfin bjóða ekki upp á raunhæfan stuðning (t.d. fáar íslenskunámsleiðir sem henta fólki í fullu starfi), hver ber þá ábyrgð?
Við höfum ekki völd – en við höfum rödd.
Það er auðveld lausn að benda á sýnilegan hóp, útlendingana, sem „vandamál“. Það er mun erfiðara að horfast í augu við að vandi heilbrigðiskerfis, húsnæðis og velferðarþjónustu á Íslandi sprettur af áratugalöngum vanrækslum, skorti á fjárfestingu, lélegri langtímahugsun og pólitískum mismununum – ekki fjölgun innflytjenda.
Við, innflytjendur og flóttafólk, stjórnum ekki fjárveitingum til heilbrigðisráðuneytisins. Við ákveðum ekki hvernig úthlutun íbúða í félagslega kerfinu fer fram. Við ráðum ekki hvernig framhaldsskólar taka á móti fjölbreyttum nemendahópum. Við setjum ekki lög um hælisleitendur eða vinnutíma í leikskólum. Eða einhverju öðru í samfélaginu ef það á að skipta.
En samt virðist það vera við sem berum ábyrgðina. Hvernig getur sá hópur sem stendur valdlaus verið gerður ábyrgur fyrir því hvernig völd eru misnotuð?
Ef íslenskt samfélag vill vaxa sem réttlátt, fjölbreytt og sjálfbært samfélag, þá þarf það að horfast í augu við sannleikann: að innflytjendur og flóttafólk eru ekki byrði, heldur auðlind – mennsk og efnahagsleg. Við erum ekki „hinir“ sem á að laga eða tempra. Við erum fólkið sem heldur hjólinu gangandi, dag eftir dag, oft án viðurkenningar og án sínar eigin raddar.
Það er kominn tími til að hætta þessu. Hætta að nota hópinn sem skotmark. Hætta að beina spjótum að þeim sem gera ekki svarað fyrir sig né hafa vald til þess að gera neitt. Við megum vera þreytt – en við eigum líka skilið að vera reið.
Við höfum ekki völd – en við höfum rödd.
Og ég mun allavegana nota hana.
- Ég krefst þess að umræðan verði sanngjörn.
- Ég krefst þess að þau sem hafa völd hætti að búa til ímyndaða ógn af mér og okkur.
- Ég krefst þess að samfélagið sjái okkur fyrir það sem við erum: fólk sem býr hér, vinnur hér, elskar að búa hér og á framtíð hér.
Takk fyrir lesturinn. Ykkar Jasmina.