- Advertisement -

Þurfum að tala saman, um lífeyrissjóðina

Mitt mat er að slík fjárfesting samræmist ekki hlutverki sjóðsins.

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambandsins, skrifar:

„Neyðin kennir naktri konu að spinna“ er stundum haft á orði. Það er eflaust rétt að neyðin sé öflugur aflvaki athafna. Ég er þó ekki eins sannfærður um að hún sé jafn öflugur aflvaki framfara. Að minnsta kosti held ég að íslenska leiðin, sem felur í sér að læðast kringum erfiðleika eins og köttur kringum heitan graut og gera ekkert fyrr en í óefni er komið, standi íslensku samfélagi fyrir þrifum.

Ég sit í stjórn stærsta lífeyrissjóðs á íslandi. Er þar fulltrúi kennara. Fyrst og fremst er ég þó fulltrúi allra þeirra fjölmörgu sem eiga þar lífeyri sinn. Síðustu vikur hef ég, eins og félagar mínir í stjórn sjóðsins, legið undir feldi og hugleitt hvort sjóðurinn ætti að taka þátt í að bjarga Icelandair. Mitt mat er að slík fjárfesting samræmist ekki hlutverki sjóðsins. Ég ber virðingu fyrir því þótt aðrir komist að annarri niðurstöðu, sérstaklega þar sem um neyðaraðgerð er að ræða með víða samfélagslega skírskotun og margháttaðar afleiðingar – m.a. á afkomu sjóðfélaga.

Er viðbúið að þeim holum fjölgi mjög í kerfinu sem t.d. fátækt fólk  er líklegt að falla í.

Þetta mál er hið nýjasta í langri röð mála sem skapa óvissu um hlutverk íslenskra lífeyrissjóða. Á meðan ekki er tekist á við óvissuna og grundvallarspurningum svarað megum við búast við auknum vandræðum og fleiri flóknum málum.

Þess vegna þurfum við að tala saman.

Stundum er talað um að á Íslandi sé þriggja stoða lífeyriskerfi. Almannatryggingar eru fyrsta stoðin. Samtryggingarsjóðir lífeyrissjóðanna eru önnur stoðin og séreignarsparnaður sú þriðja. Engin sátt er um það hvert hlutfallslegt vægi hverrar stoðar á að vera eða hvert samspil þeirra eigi að vera til framtíðar. Sumir fulltrúar stjórnvalda virðast telja að markmiðið sé að kerfið verði að fullu sjálfbært með sparnaði í lífeyrissjóðum og bönkum og stefna á að höggva þannig nánast burt fyrstu stoðina. Sum stéttarfélög hafa ennfremur sótt það mjög hart (og fengu m.a.s. inn í Lífskjarasamningana) að vægi þriðju stoðarinnar sé aukið á kostnað samtryggingar.

Fari svo að hið opinbera dragi markvisst úr vægi almannatrygginga á sama tíma og dregið er úr vægi samtryggingar er viðbúið að þeim holum fjölgi mjög í kerfinu sem t.d. fátækt fólk  er líklegt að falla í. Slíkt kerfi væri ekki nema fölur skuggi af því lífeyriskerfi sem hér var lagt af stað með í upphafi og þjónaði best þeim sem kannski þyrftu minnst á því að halda.

Við þurfum að tala um þetta.

Getur það verið skynsamlegt að hagsmunir sjóðanna séu samansúrraðir við nánast öll félög í Kauphöllinni?

Þá er því algerlega ósvarað hvernig það megi vera gott fyrir lítið samfélag að stunda gríðarlega sjóðsöfnun sem leiðir til þess að lífeyrissjóðir séu nánast tilneyddir til að koma peningum „í vinnu“ á hverju einasta sviði samfélagsins. Getur það verið skynsamlegt að hagsmunir sjóðanna séu samansúrraðir við nánast öll félög í Kauphöllinni – og að þeir hafi fjárhagslega hagsmuni af því að þau fyrirtæki sem eru í rekstri verði ekki fyrir skakkaföllum eins og t.d. vegna aukinnar samkeppni? Er hægt að ávaxta svona mikið fé innanlands (jafnvel þótt hluta þess sé veitt í húsnæði eins og talsmenn séreignarstefnu telja skynsamlegt)? Hvaða aðrir valkostir eru til og hvaða áhrif hafa þeir, t.d. á gengi krónunnar eða húsnæðisverð?

Þetta þurfum við að ræða.

Loks er algerlega ljóst að lífeyrissjóðirnir vinna út frá kröfum um verulega mikla ávöxtun. Á sama tíma hafa vextir farið lækkandi í heiminum. Meðan krafan um ávöxtun er há hér á landi þrátt fyrir að vextir haldi áfram að lækka í heiminum hafa lífeyrissjóðir aðeins val um tvennt: Að taka sífellt meiri áhættu í fjárfestingum (sbr. Icelandair) – eða að halda uppi hærri vöxtum á Íslandi en annarsstaðar.

Þetta eru allt grundvallarspurningar og það er ekki auðvelt að vera með umboð sitt og hlutverk sem stjórnarmaður í lífeyrissjóði á hreinu þegar sjálfur grundvöllur kerfisins er togaður til og frá í deilum sem snúast um það hver hefur mest afl til að knýja fram vilja sinn. Grundvöllur lífeyrissjóðakerfisins er orðinn óskýr, þversagnarkenndur og sumpart stórhættulegur.

Þess vegna þurfum við að tala saman. Koma þarf hlutverki lífeyrissjóðanna á hreint. Við núverandi ástand verður ekki unað.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: