- Advertisement -

Trump er einstaklingur í yfirstærð

Guðmundur Andri Thorsson alþingismaður skrifaði:

Trump er JR í Dallas. Biden er ein af þessum grandvöru leiðindaskjóðum þar, sem enginn man hvað hétu. Trump höfðar ekki til fólks vegna mannkosta sinna heldur vegna bresta sinna. Þeir gera hann að einstaklingi, en Biden virkar honum við hlið eins og fulltrúi hins réttsýna sérfræðingaveldis sem skapar óöryggi hjá og tilfinningu um valdaleysi.
Trump er einstaklingur í yfirstærð og brestir hans eru um leið yfirgengilegir, einfaldir og auðskildir; hann er næstum eins og skrípamyndartýpa, já eða goðin í hinum heiðna sið, Þór og Óðinn og það lið. Hann er í yfirdímensjón og ríkir þar með yfir hverri þeirri frásögn sem hann kemur nærri, og gerir alla aðra að statistum, og allt annað aukaatriði, þar á meðal sjálfa söguna. Sagan um sigur Bidens verður sagan um fall Trumps. Og gæti dregist á langinn …

Trump er neikvæðnin holdi klædd. Hann er táknmynd mótþróaröskunarinnar. Þess sem hlustar á skammtakenninguna útskýrða og segir svo: „Nei-hei, það finnst mér ekki.“ Þess sem telur sig hafa forsendur til að fella dóma um hvaðeina og taka ákvarðanir á við hvern annan af því óbilandi sjálfstrausti sem vanþekkingin ein getur gefið manni.
Hann er einfarinn, uppreisnarseggurinn. Þessi týpa hefur ríkt í Hollywood-myndum; sýnir þar snarræði og brjóstvit – og grimmd – í baráttu við gjörspillt „Kerfið“ í líki stjórnmálamanna eða lögreglu eða hers eða kirkju eða annars rammgirts valdakerfis. Hann gefur hinum valdalausu, hinum smáðu og þeim sem hafa horn í síðu „elítunnar“ tilfinningu fyrir því að hann sé málsvari þeirra.

Sjálfsupphafning hans er hömlulaus, sérdrægnin algjör, ósannsöglin slík að naumast er hægt að segja að honum ratist satt orð á munn – og aldrei viljandi. Hann er fullkomlega á valdi hvata sinna, sjálfsást, andúð og tortryggni. Hatur hans er brennandi, heiftin hömlulaus. Þetta sjá allir. En hann er svo tær gallagripur að fólk lætur heillast: hvað skyldi hann eiginlega segja/gera næst? Fólk verður háð því að fylgjast með uppátækjum hans og tiltektum, einsog Sjónvarpsseríu: Hann er sem sagt JR í Dallas. Eða vondikall í Jamesbond – en Bond var því miður að deyja á dögunum … Og JR var vakinn upp frá dauðum í Dallas ef ég man rétt …

Fólk bindur trúnað við þetta appelsínugula goðmagn af þrákelkni sem maður skilur ekki alveg. Tvær af helstu menningarþjóðum Evrópu bundu líka trúss sitt við Hitler og Mússolini á síðustu öld. Valdatíð þeirra lauk og eftir á skildi hinn almenni stuðningsmaður ekki alveg á valdi hvaða gerninga hann hafði verið. Trump er af sama sauðahúsi, og þegar hann er farinn mun fólk horfa forviða hvert framan í annað og spyrja: Hvað var nú þetta?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: