- Advertisement -

Ungt jafnaðarfólk vill Bjarna burt

„Ungt jafnaðarfólk kallar eftir skipun rannsóknarnefndar Alþingis og afsögn fjármálaráðherra.“

„Miðstjórn UJ (Ungs jafnaðarfólks) sendi rétt í þessu frá sér ályktun þar sem verklag fjármálaráðherra í kringum annan fasa sölunnar á Íslandsbanka er gagnrýnt harðlega. Kallað er eftir skipun rannsóknarnefndar Alþingis og afsögn fjármálaráðherra,“ segir í tilkynningu sem var að berast:

Ungt jafnaðarfólk fordæmir vanhæfni, ábyrgðar- og skeytingarleysi ráðherra við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Skýrsla Ríkisendurskoðunar felur í sér þungan áfellisdóm yfir verklagi fjármála- og efnahagsráðherra og staðfestir grun og tilfinningu þjóðarinnar frá því í vor. Meginreglum laga sem gilda um sölumeðferð eigna ríkisins í fjármálafyrirtækjum um gagnsæi, hagkvæmni og jafnræði var ekki fylgt. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, seldi banka í ríkiseign á undirverði til fjárfesta sem fengu tækifæri á skammtíma gróða á kostnað almennings.

Í lögum nr. 155/2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er ábyrgð ráðherra beinlínis skrifuð inn. Eftir að tilboð liggja fyrir skilar Bankasýsla ríkisins rökstuddu mati á þeim til ráðherra. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna skal ráðherra síðan taka ákvörðun um hvort tilboð eru samþykkt eða ekki. Þrátt fyrir þessar skýru skyldur sem hvíla á ráðherra við sölumeðferðina virðist fjármálaráðherra hafa stýrt sölunni með bundið fyrir augun. Í skýrslunni kemur fram á bls. 60: 
„Rökstutt mat Bankasýslunnar til ráðherra innihélt engan rökstuðning fyrir ákvörðun lokaverðs eða hvernig ákvörðun um það hafði áhrif á samsetningu kaupendahópsins.“ 

Ráðherra tók sem sagt ákvörðun um sölu á tugmilljarða verðmætum í eigu ríkisins án þess að fá rökstuðning fyrir ákvörðun lokaverðs frá Bankasýslunni. Bjarna Benediktssyni mistókst að tryggja gagnsæi, hæsta verð og jafnræði við söluna á Íslandsbanka. Ungt jafnaðarfólk telur þetta skýrt dæmi um vanhæfni af hálfu ráðherra.

Ungt jafnaðarfólk tekur undir kröfur stjórnarandstöðunnar og kallar eftir því að skipuð verði rannsóknarnefnd Alþingis sem falið yrði að velta við hverjum steini í söluferlinu, frá upphafi til enda. Rannsóknarnefnd skipuð af Alþingi hefur víðtækar rannsóknarheimildir sem Ríkisendurskoðun hefur ekki, meðal annars til að skylda fólk í skýrslutöku og krefja aðila og einstaklinga um gögn.

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur þetta söluferli, sem fjármálaráðherra ber ábyrgð á, skaðað hagsmuni ríkissjóðs. Ferlið hefur jafnframt grafið undan trausti til stjórnvalda og til fjármálakerfisins sem var laskað fyrir. 

Ríkisstjórnin skuldar þjóðinni að rannsaka alla þætti málsins, ekki aðeins þá sem varða framkvæmd sölunnar heldur einnig lagalega og pólitíska ábyrgð ráðherra. Þar dugar ekki að hlífa einstaka ráðherrum eins og ríkisstjórnin hefur gert. Fjármálaráðherra situr í hlýju skjóli stjórnarliða – ráðherra og þingmanna Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem þráast við að verja ráðherra sem ber augljósa lagalega og pólitíska ábyrgð á ferlinu. Sjái fjármálaráðherra ekki sóma sinn í að segja af sér skorar Ungt jafnaðarfólk á ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að axla ábyrgð á gjörðum fjármálaráðherra með því að skipa nýjan ráðherra í hans stað.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: