- Advertisement -

Urðum vitni að hverjum svikunum á fætur öðrum

Hver tók ábyrgð á þeim bænum?

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir talaði skýrt þegar hún talaði um stjórnmál dagsins á Alþingi. Hér eru tveir kaflar úr ræðu hennar og svo er hægt að hlusta á ræðuna hér að neðan.

Sjálf hef ég lengi hlustað eftir þessum nýja tón sem slá átti með myndun þessarar ríkisstjórnar, tón sátta, ábyrgðar, heiðarleika, tón sem tekur gagnrýni fagnandi og vinnur stöðugt að eflingu trausts með gagnsæjum og vönduðum vinnubrögðum. Þess í stað heyri ég sama gamla tóninn, sama tóninn og hljómað hefur í íslenskum stjórnmálum um áraraðir. Sá tónn er falskur, herra forseti, þótt fagurgalinn heyrist inn á milli. Sá tónn felst í að viðurkenna aldrei mistök, axla aldrei ábyrgð á gjörðum sínum. Hann felst í að endurskrifa söguna eftir eigin hentisemi, sama í hversu hróplegu ósamræmi sú saga er við sannleikann. Sá tónn felst í því að beita þöggunartilburðum með því að finna blóraböggla og skjóta sendiboðann. Tónninn sem sendur er er skýr. Það er verra að benda á vandamálin en að skapa þau. Það er vont að tala um neyðarástand í heilbrigðisþjónustunni, segir heilbrigðisráðherra. Það er ósanngjarnt að tala um vanhæfi sjávarútvegsráðherra, segir forsætisráðherra. Það er bara pólitík að tala um vanhæfi sjávarútvegsráðherra, segir sjávarútvegsráðherra.

Eftir hrun varð almenningur síðan vitni að hverjum svikunum á fætur öðrum, ekki bara þeim sem áttu sér stað í aðdraganda hrunsins heldur líka sviknum loforðum stjórnmálamanna gagnvart borgurunum allt fram að deginum í dag. Í þeim efnum má nefna svik á endurteknum loforðum um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það má nefna svik á lögfestingu nýrrar stjórnarskrár sem samþykkt var með góðum meiri hluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu og það má nefna svik sem lýstu sér í því að margir þeirra sem kostuðu almenning lífeyrissparnaðinn sinn, styrk innviðanna í samfélaginu, vinnuna sína og launin höfðu flúið með gróðann í skattaskjól og skildu almenning eftir með reikninginn. Sú flétta varð okkur öllum ljós þegar Panama-skjölin urðu opinber. Þau skjöl leiddu einnig í ljós að þrír ráðherrar þáverandi ríkisstjórnar áttu eignir í skattaskjóli. Hver tók ábyrgð á þeim bænum? Kannski forsætisráðherrann sem hrökklaðist úr starfi en sætti að öðru leyti engum afleiðingum þess hagsmunaárekstrar sem hann leyndi þjóðina?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: