- Advertisement -

Veiðigjöld hafa aldrei skilað réttmætum arði til þjóðarinnar

Ef fyrirtækið hefur t.d. freistast til að kaupa dýra bifreið undir forstjórann þá sér þess stað í verri afkomu.

Bolli Héðinsson hagfræðingur er meðal þeirra sem sent hafa inn umsagnir  vegna frumvarpsins um lækkun veiðigjalda. Bolli segir í upphafi umsagnarinnar.

„Frumvarp þetta er sett fram til að berja í bresti kerfis sem hefur aldrei þjónað þeim tilgangi að skila réttmætum hluta auðlindaarðsins til eiganda fiskimiðanna, þjóðarinnar allrar. Hér hefur verið búið út ógegnsætt flókið kerfi sem þarfnast stöðugra viðbóta og nýrra útfærslna þó margsinnis hafi verið bent á aðrar leiðir sem þjónað geta sama tilgangi mun betur.“

Fyrst þarf að skoða bókhald útgerða

Stjórnarsinnar hafa keppst við að bera litlar og meðalstórar útgerðir fyrir sig, að staða þeirra sé sérstaklega erfið. Bolli Héðinsson kemur inn á þetta í sinni umsögn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ef kostnaður lítilla og meðalstórra útgerða hefur aukist þá þarf að opna bókhald þeirra, til að kanna af hvaða völdum það er, áður en komið er til móts við þau með einum eða öðrum hætti af hálfu hins opinbera. Í litlum og meðalstórum fyrirtækjum getur óhófleg launahækkun til forstjóra og stjórnenda vegið þungt í afkomu fyrirtækisins. Einnig ef fyrirtækið hefur t.d. freistast til að kaupa dýra bifreið undir forstjórann þá sér þess stað í verri afkomu. Því aðeins að fyrirtækin verði reiðubún að sýna ársreikninga sína ættu þau að fá notið nokkurra ívilnana því það er varla tilgangur veiðgjaldafrumvarpsins að auðvelda einstökum fyrirtækjum að auka á óhóf í rekstri þeirra.“

Hagnaður langt umfram það sem er eðlilegt

Byggðasjónamið er einnig brúkað málinu til framdráttar. Bolli bendir á að þau sjónarmið hafi margar hliðar.

„Við jafn mikilvæga ákvörðun og hér er stefnt að þá hlýtur fyrst og fremst að verða að horfa til afkomu sjávarútvegsins sem atvinnugreinar. Um leið og farið er að blanda byggðasjónarmiðum inn í umræðuna þá er ekki lengur verið að horfa á sjávarútveginn sem atvinnugrein heldur er honum ætlað annað hlutverk út frá byggðasjónarmiði. Þegar það er gert þá færist gjaldtaka í sjávarútvegi niður í lægsta samnefnara svo þeim sem lakast standa verði bjargað. En það þýðir jafnframt að þar sem reksturinn gengur vel, að þar verður til hagnaður langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Hér er alls ekki gert lítið úr byggðasjónarmiðum sem eiga fyllsta rétt á sér. Þegar þurfa þykir mætti t.d. styrkja fyrirtæki í hinum brothættu byggðum með beinum fjárframlögum í stað þess að miða alla gjaldtöku í greininni við rekstur þeirra fyrirtækja sem lakast standa. Þannig gæti gjaldtakan samkvæmt veiðigjaldafrumvarpinu runnið að drjúgum hluta til að styðja við fyrirtæki sem illa væri komið fyrir og yrði það gert samkvæmt fyrirfram mótaðri byggðastefnu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: