Það hlýtur því að hafa einhverjar afleiðingar verði niðurstaðan sú að dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að þessi skattlagning standist ekki lög og í ljós kemur að öll baráttan og lætin í kringum þetta mál var til einskis.
Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði eftirfarandi grein:
Hverjar verða afleiðingarnar ef dómstólar telja álagningu nýju veiðigjaldanna ekki standast?
Gefum okkur að ríkisstjórnarmeirihlutanum takist að fá veiðigjaldafrumvarp sitt samþykkt sem lög frá Alþingi.
Alþingismenn hafa sannarlega verið varaðir við…
Verði það niðurstaðan má slá því föstu að einhverjar útgerðir láti a.m.k. á það reyna fyrir dómstólum hvort útreikningur á álögðu veiðigjaldi samkvæmt frumvarpinu og grundvöllur þess útreiknings standist lög.
Þar á ég við hvort það standist að miða álagningu skatts út frá öðru en skattandlaginu sjálfu, þ.e. að reikna álagðan skatt, sem byggir á nýtingu auðlindar við Ísland, út frá verðmæti sem fæst við nýtingu annarrar auðlindar í öðru landi, þ.e. í Noregi.
Sjálfum finnst mér alls ekki augljóst að dómstólar myndu fallast á að slíkar aðferðir við álagningu skatta hér á landi teldust lögmætar.
Þótt dómstólar hafi talið löggjafann hafa talsvert svigrúm þegar kemur að skattlagningu, þá er það svigrúm ekki án takmarkana. Það sést t.d. vel í dómsforsendum í auðlegðarskattsmálinu svokallaða og í máli Vinnslustöðvarinnar vegna veðigjaldsins, en bæði þessi mál má rekja til verka síðustu vinstristjórnar.
Alþingismenn hafa sannarlega verið varaðir við þessum möguleika í umsögnum um frumvarpið.
Hafandi sjálfur býsna mikla reynslu, bæði af lagasetningu og málarekstri fyrir dómstólum, liði mér a.m.k. ekki vel ef ég stæði að skattlagningu eins og þessari þar sem grundvöllur fyrir lögmæti skattheimtunnar væri ekki traustari en þetta.
Spurningin er þá þessi:
Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera komist dómstólar að þeirri niðurstöðu að sú aðferð við útreikning og álagningu skatts sem frumvarpið mælir fyrir um standist ekki lög?
Hjá því verður ekki komist að spyrja þessarar spurningar enda hefur frumvarpið af ýmsum ástæðum sætt harðri gagnrýni, einkum af landsbyggðinni. Á móti hefur ríkisstjórnin lagt allt undir til þess að ná því í gegnum þingið og látið önnur mál og mikilvægari, eins og menntamálin og húsnæðismálin, mæta afgangi.
Það hlýtur því að hafa einhverjar afleiðingar verði niðurstaðan sú að dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að þessi skattlagning standist ekki lög og í ljós kemur að öll baráttan og lætin í kringum þetta mál var til einskis.
En hverjar verða þá afleiðingarnar?
- – Mun ríkisstjórnin segja af sér og boða til kosninga?
- – Verður ráðherrann sem fer fyrir málinu látinn sæta ábyrgð?
- – Eða ætlar ríkisstjórnin að byrja upp á nýtt?
Síðastnefndi möguleikinn kemur augljóslega ekki til greina. Ríkisstjórnin getur ekki byrjað upp á nýtt og látið eins og ekkert hafi í skorist.
Eftir standa þá hinir tveir, nema hér verði bent á aðra kosti sem í boði verða við slíkar aðstæður.
Ég er reyndar ekki í vafa um að á slíka kosti bent því í hvert skipti sem ég opna munninn á þessum vettvangi mæta helstu varðhundar ríkisstjórnarinnar og taka til harðra varna fyrir sitt fólk.
Ég vona að þeir breyti ekki út af vananum og stigi fram og útskýri fyrir mér hvað ríkisstjórnin getur tekið til bragðs ef þetta verður niðurstaðan.