- Advertisement -

Vilja leyfa klám

„Klám, sum elska það, önnur hata það og mörg hafa jafnvel enga skoðun á því. En hvað er klám? Í almennum hegningarlögum er klám ekki skilgreint en í dómi Hæstaréttar frá árinu 2000 er það skilgreint sem efni sem sýnir fólk af tveimur kynjum í samförum við gagnstætt kyn og eigið kyn, um leggöng og endaþarm, við munnmök, sjálfsfróun og aðrar kynlífsathafnir, m.a. með notkun gervilima. Klám hefur löngum verið skilgreint út frá áhrifum þess. Þeir dómar sem fallið hafa hér á landi eru þó eilítið misvísandi í þeim efnum þó að þróunin hafi verið í þá átt að telja að mörkin á milli t.d. erótíkur og kláms þau að hið síðarnefnda sé jafnan ætlað til kynferðislegrar örvunar. Framan af er þó ljóst að það var ekki skilgreiningaratriði við beitingu þessa ákvæðis íslenskra hegningarlaga þar sem fólk hefur verið dæmt fyrir birtingu og dreifingu kláms vegna kynferðislegra mynda sem óumdeilt var að hefðu engan örvunartilgang heldur voru einfaldlega hápólitískar,“ sagði Anna Arndís Kristínardóttir Gunnarsdóttir Pírati.

Hún og Björn Leví Gunnarsson hafa lagt fram lagafrumvarp um að klám teljist ekki lengur glæpur.

„Það er eitt að fólk sé á móti klámi eða hafi áhyggjur af neikvæðum afleiðingum þess. Sú sem hér stendur er raunar þeirra á meðal. Klámbannið leysir hins vegar ekki þau vandamál og var heldur ekki sett til þess að leysa þau vandamál. Hvort sem við höfum áhyggjur af því að fullorðið fólk horfi á klám með neikvæðum afleiðingum eða unglingar horfi á klám með neikvæðum afleiðingum leysir klámbannið engin slík vandamál. Það bjargar ekki einu einasta barni frá neikvæðum afleiðingum kláms. Það bjargar ekki einu einasta fórnarlambi mansals sem er neytt til þess að taka þátt í því að búa til klám eða dreifa því gegn vilja sínum. Það er ekki það sem löggjafinn gerir í dag. Bann við klámi í íslenskum hegningarlögum var ekki sett af femínistum til að tryggja rétt fólks í kynlífsiðnaði heldur var það sett af karlmönnum á 19. öld. Bannið felur ekki í sér að fórnarlömbum mansals, sem eru neydd til að taka þátt í því að búa til klám, sé á einhvern hátt bjargað úr þeim aðstæðum. Það eru ekki áhrif þessa banns. Áhrif bannsins eru þau að fórnarlömbum er refsað.

Ég vil bara árétta að í þessu felst ekki að klám sé meinlaust. Ég trúi því ekki að það sé meinlaust. Ég held að það sé raunveruleg hætta sem stafar af því óheyrilega aðgengi sem unglingar og börn hafa að klámi í dag. Ég tel að við eigum að bregðast við því og við eigum að gera það af alvöru. Klámbannið bjargar þessu ekki, breytir því ekki og hefur engin áhrif til bóta hvað þessar áhyggjur varðar. Það er á okkar ábyrgð að hanna löggjöf sem gerir þó það besta sem við getum til þess að vernda réttindi og hagsmuni fórnarlamba, þolenda. Þó að markmið þeirra sem hlynnt eru banni af þessu tagi nú til dags séu í mörgum tilfellum göfug verðum við að horfa á þau út frá raunverulegum afleiðingum laganna. Við verðum að taka það til alvarlegrar athugunar ef lögin okkar eru þannig að fólk sem býr við kúgun, fórnarlömb mansals og aðrir þolendur ofbeldis, veigrar sér við að hafa samband við yfirvöld, vinna með yfirvöldum eða leita til þeirra af ótta við neikvæðar afleiðingar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta bann er ekki að bjarga börnunum. Því síður er ákvæðið sett eða túlkað með hagsmuni þolenda kynferðisofbeldis eða kúgunar í huga og hefur einfaldlega ekkert með það að gera. Bannið er sett og hefur verið viðhaldið á grundvelli úreltra viðhorfa um að það sé löggjafans að setja fólki siðareglur.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: