- Advertisement -

Er áttundi oddvitinn frá Davíð

- Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sækist eftir endurkjöri.

„Það er auðvitað ekki komið að þessu, en eins og staðan er núna hefur ekkert breyst hjá mér,“ sagði Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, þegar hann er spurður, í Viðskiptablaðinu í dag, hvort hann muni sækjast eftir endurkjöri.

„Ég segi bara að ég er valkostur í þessu og hef ekkert kvikað með það. Það er hins vegar búið að skipta ansi oft um oddvita í borginni, Davíð Oddsson hætti árið 1991 og ég held ég fari rétt með að ég sé áttundi oddvitinn síðan, ég er kominn yfir meðallíftíma oddvitans sem er 3,2 ár. Svo verða bara Sjálfstæðismenn í borginni að ákveða hvort þeir vilja mig áfram sem oddvita eða hvort þeir vilja einhvern annan, það verður samkvæmisleikur í blaðadálkum og víðar þangað til ákvörðun verður tekin.“

Halldór segir ennfremur að Reykvíkingar séu farnir að sjá í gegnum Dag B. Eggertsson borgarstjóra.

„Ég hef upplifað það sérstaklega sterkt síðasta árið að ólíklegasta fólk er að snúa sér að mér og segist ætla að kjósa okkur, þótt það hafi aldrei áður kosið Sjálfstæðisflokkinn. Það blæs mér byr í brjóst vegna þess að maður heyrir á umræðunni að fólk er orðið þreytt á ástandinu í borginni, en Dagur er slyngur stjórnmálamaður. Hann á örugglega eftir að spila út ágætis ársreikningi árið 2017 og nýta sér ýmis tækifæri í ár og fram að kosningum, en ég held að Reykvíkingar séu aðeins farnir að sjá í gegnum hann.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: