- Advertisement -

Karl Ágúst og Jón Steinar

- Karl Ágúst Úlfsson skrifar opið bréf til Jóns Steinars Gunnlaugssonar.

Jón Steinar Gunnlaugsson. Þessi færsla er sérstaklega ætluð þér og þó að við séum ekki vinir á Facebook á ég von á að við eigum nógu marga sameiginlega vini til þess að þessi skrif mín nái augum þínum með einum eða öðrum hætti.

Strax í upphafi ætla ég að rifja það upp að þó að við höfum ekki oft hist í gegnum tíðina hafðir þú samt afskipti af máli sem snerti fjölskyldu mína fyrir allnokkrum árum. Við vorum ekki samferða í pólitík á þeim tíma og ég hafði ýmsar skoðanir á þér sem lögfræðingi, en þrátt fyrir það gat ég ekki annað en dáðst að framgöngu þinni í því máli – þar stóðstu svo sannarlega með lítilmagnanum gegn óréttlátu og stöðnuðu kerfi. Og ég öðlaðist álit á þér sem réttsýnum mannivini. Síðan þá hef ég líka alltaf látið þig njóta vafans þegar pólitískir andstæðingar þínir hafa viljað níða af þér skóinn og kalla þig taglhnýting eða brauðhest Sjálfstæðisflokksins. Þegar ég sá og heyrði ummæli þín um mál skjólstæðings þíns, Róberts Árna Hreiðarssonar Downey barnaníðings, verð ég samt að viðurkenna að á mig runnu tvær grímur.

Þá rifjaðist nefnilega upp fyrir mér að um svipað leyti og ég ákvað að gefa þér allan heimsins séns sem manneskju og lögfræðingi sá ég í viðtali við þig að þú ættir hóp af börnum. Ég held þú hafir talað um 6 – kannski 7 – og nú bið ég þig endilega að leiðrétta mig ef ég fer ekki með rétt mál. Í öllu falli þykist ég vita að þú eigir stóran barnahóp. Og sem faðir ætla ég að fá að segja þetta við þig:

Ég vona svo sannarlega að ekkert af börnunum þínum hafi orðið fyrir ofbeldi. Vonandi var ekkert þeirra barið til óbóta af sér eldri, stærri eða öflugri einstaklingi. Vonandi þurftir þú aldei að vitja um barnið þitt á bráðmóttöku eftir grimmilega líkamsárás. Og vonandi var ekkert af börnunum þínum beitt kynferðislegu ofbeldi á meðan það var á barnsaldri – og ekki síðar heldur. Vegna þess að ef svo hefði verið þyrfti það eflaust enn þann dag í dag að burðast með afleiðingar þess ofbeldis – örin á sálinni gróa ekki jafnáþreifanlega og þau sem líkamlegt ofbeldi leiðir af sér.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef þú ert jafnheppinn og ég vona (og það vona ég svo sannarlega) þá vil ég að þú vitir að svo heppnir eru ekki allir foreldrar – því miður. En það veistu auðvitað.

Og nú ætla ég að biðja þig að setja þig í spor foreldris sem er ekki jafnheppið og þú: Ímyndaðu þér að eitthvert af börnunum þínum hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Geturðu það? Geturðu ímyndað þér sársaukann þegar slíkur glæpur kemur fram í dagsljósið? Barnið, sem þú einu sinni hélst á í fanginu, svo varnarlaust og algjörlega undir vernd þinni komið, einhver réðist á það, beitti aflsmunar og nauðgaði því. Geturðu séð það fyrir þér, Jón Steinar? Ég veit að það er erfitt þegar maður hefur notið þeirrar gæfu í lífinu að vera laus við áfall af þessu tagi. Og nú er ég ekki að biðja þig um að setja þig í spor fórnarlambsins, Jón Steinar. Guð forði þér frá því að þurfa þess. Sá sársauki er, held ég, mun stærri en þú getur ímyndað þér.

Og vitaskuld á fólk misauðvelt með að setja sig í spor annarra. En ef þú getur nú sett þig í þessi spor – spor okkar foreldra sem höfum þurft að standa frammi fyrir glæpum af þessu tagi – segðu mér þá eitt:

Hvað þætti þér um lögmann sem segði að við ættum bara að láta blessaðan manninn í friði, þó svo að hann hefði aldrei játað brot sín og þætti ekkert athugavert við það sem hann gerði á sínum tíma?

Hvað fyndist þér um að umræddur glæpamaður ætti samkvæmt úrskurði dómstóla að njóta fullrar virðingar og meira að segja virðingarstöðu í samfélaginu eftir að hafa brotið á barninu þínu, án þess að hafa nokkurn tíma viðurkennt að nokkuð væri saknæmt við það?

Hvað fyndist þér um lögmann sem vildi bara fá að spila golf í friði í stað þess að svara spurningum fjölmiðla um afar umdeilanlega niðurstöðu sakamáls sem varðar alvarlegar siðferðisspurningar í samfélagi okkar?

Og að lokum: Værir þú sem faðir algjörlega til í að fyrirgefa allt ofbeldi gagnvart börnunum þínum ef lagaumhverfi Íslands segði svo fyrir að það væri bara í góðu lagi? Nei, fyrirgefðu, auðvitað hlaut maðurinn dóm, þannig að ég orðaði þetta líklega ekki rétt:

Værirðu tilbúinn til að fyrirgefa manni sem hefði beitt börnin þín kynferðislegu ofbeldi, en aldrei gengist við því, aldrei iðrast þess, en einungis sóst eftir fyrri virðingarsöðu sinni í samfélaginu og fengið lagatæknilega viðurkenningu á að glæpir hans væru fyrirgefnir af íslenskum dómstólum og stjórnkerfi?

Og nú, Jón Steinar, vil ég að þú svarir mér. Ég vil að þú svarir mér eins og faðir svarar öðrum föður – og ekki láta eins og þú sért ekki þarna, því eins og Mikki refur sagði forðum: „Ég sé þig vel.“ #höfumhátt

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: