- Advertisement -

Verður verðbólguskot

Ólafur Arnarsson skrifaði:

Ólafur Arnarson.

Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni, að í Ásgeiri Jónssyni búum við að einum af bestu seðlabankastjórum í heimi. Fram til þessa sýnist mér hann hafa gert allt rétt til að bregðast við þeirri miklu efnahagsvá sem Covid-19 hefur í för með sér.

Ég verð hins vegar að lýsa vonbrigðum mínum með afstöðu hans til vísitölubindingar neytendalána. Hans afstaða er sú, að ekki sé hætta á verðhækkunum og að aðgerðir Seðlabankans og ríkisvaldsins í að dæla súrefni inn í hagkerfið skapi ekki hættu á verðbólguskoti. Vextir séu nú með lægsta móti og kostnaður af lántöku hafi aldrei verið lægri. Því eigi ekki að hrófla við vísitölutengingu lána.

Þetta er ekki bölspá heldur einungis raunhæft mat byggt á áratuga reynslu.

Ekki efast ég um að það sé rétt mat hjá seðlabankastjóra að á komandi vikum, mánuðum, þó vonandi ekki misserum, muni slaki á eftirspurnarhlið hagkerfisins vega upp á móti gengislækkun krónunnar og koma í veg fyrir verðhækkanir. Þar spilar líka inn í að þrátt fyrir allar aðgerðir bankans og ríkisstjórnar blasir við að hér verður umtalsvert atvinnuleysi.

Því fer hins vegar fjarri að seðlabankastjóri eða aðrir geti með góðu móti áttað sig á því hvaða áhrif gríðarleg innspýting í hagkerfið nú muni hafa á verðlag þegar úr fer að rætast, sem vonandi verður frekar fyrr en seinna.

Gleymum því ekki að 2020 er árið sem íslenska hagkerfið átti að ná, í fyrsta sinn, mjúkri lendingu eftir góðærisskeið, Ísland átti að vinna Eurovision og Liverpúl að verða enskur meistari – allt saman fordæmalaust í elstu manna minni. Ekkert af þessu gerist út af hryllilegum afleiðingum Covid-19. Þessi skæði vírus breytti mjúkri efnahagslendingu í sannkallaða brotlendingu og stjórnvöld og seðlabanki eiga heiður skilinn fyrir að bregðast myndarlega við. Líklega þurfa samt stjórnvöld að spýta enn í lófana.

Nú blasir við, þvert á það sem seðlabankastjóri heldur fram, að verðlag fer af stað, þó ekki verði það allra næstu daga. Viðsnúningurinn í hagkerfinu verður að líkindum V-laga sem þýðir að eftirspurnin fer hratt upp um leið og úr rætist. Þá fer verðbólgan í gang. Þetta er ekki bölspá heldur einungis raunhæft mat byggt á áratuga reynslu.

Því er óráðlegt að skilja heimili og fyrirtæki, sem enn eru með meirihluta sinna skuldbindinga í verðtryggðum lánum, eftir og láta eins og íslenska þjóðarskútan sigli lygnan sjó. Það gerir hún ekki og afleiðingarnar geta orðið skelfilegar fyrir bæði fyrirtæki og heimili.

Gríðarlega mikilvægt er því að tryggja nú þegar, að fari verðbólga yfir tiltekin mörk muni vísitölutengingu lána vera kippt úr sambandi. Verði það ekki gert er hætt við að stórhuga aðgerðir seðlabanka og ríkisstjórnar nú fari fyrir lítið þegar upp er staðið.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: