- Advertisement -

500 sinnum ómögulegt í Reykjavík

„Boðað er átak í að bæta aðgengi að strætóstoppistöðvum fyrir fatlað fólk,“ segir í bókun  Kolbrúnar Baldursdóttur, frá fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. „Staðan er slæm á meira en 500 stöðum,“ segir Kolbrún.

Samþykkt var að ráðast í úrbætur.

„Nú leggjum við til að verkefnunum verði forgangsraðað til að hægt sé að ráðast sem fyrst í þær úrbætur sem brýnast eru. Strætó á að vera aðgengilegur öllum,“ segir meirihlutinn.

„Mikilvægt er að gera úrbætur í aðgengismálum strætóstoppistöðva í borginni, enda eru þau víða óviðunandi,“ bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Þá ítreka fulltrúar Sjálfstæðisflokks tillögu sína um upphitaða stíga, en heitir snjóbræðslustígar myndu stórbæta aðgengi að gangstígum í hálku og vetrarveðri, og þar með stórbæta aðgengi að strætóstoppistöðvum borgarinnar. Er þess óskað að tillagan verði skoðuð við úrbótavinnu í aðgengismálum. Einnig skal hafa í huga að koma fyrir hjólabogum þar sem hægt er.“

„Þegar keyrt er um Reykjavík má víða sjá mjög dapurt ástand á strætóstoppistöðvum. Víða er að finna eldgömul skýli á meðan á öðrum stöðum er útlitið mjög „fancy“. Á sumum stöðum er bara einungis einn staur sem stendur á malarbing út í móa,“ segir í bókun Vigdísar Hauksdóttur.

„Nú er það nýjasta að koma strætóstoppistöðvum út á miðjar götur eins og í Geirsgötu og á hringtorgum eins og á Hagatorgi,“ sagði Vigdís.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: