- Advertisement -

Kalla fram harða lendingu í efnahagsmálum

Sigurjón M. Egilsson:

Atvinnurekendur, launþegar og ráðherrar gera ekki nóg að mati Seðlabankans sem aftur á móti fær þann dóm frá hinum að bankinn geri alltof mikið.

Leiðari sem ég skrifaði í Blaðið sáluga 13. júlí 2006. Ég hefði allt eins getað skrifað þetta núna. Meira ruglið að vera enn í þessari vondu stöðu.

VIÐ OG HINIR

Vísitalan hækkar, skuldirnar hækka og við skuldugir erum verr settir en áður, en hvað með þá sem við skuldum, þá sem eiga skuldirnar? Ætli staða þeirra versni um leið og staða okkar hinna? Getur verið að peningarnir sem við skuldum séu fengnir úr öðru umhverfi, umhverfi þar sem ekki er verðtrygging og vextirnir þar slái ekki nein met, kannski eru þetta bara venjulegir vextir, vextir einsog flestir í útlöndum borga? Ég held það.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hver veltir lengur fyrir sér hvað bensínið kostar hverju sinni? Hver man hvað bensínið kostaði í gær? Fáir, ef nokkur. Sama er að segja um vextina. Almenningur er hættur að vita hvað yfirdráttarlánin kosta, hvað þetta kostar og hvað hitt kostar. Kannski hefur góðæri síðustu ára veikt varnirnar, við erum góðu vön og skrefin til baka geta verið þyngri en svo að við kærum okkur um stíga þau. Höldum þess í stað áfram að borga fyrir þægindin, fyrir óþarfan, fyrir nauðsynjarnar án þess að fylgjast svo grannt með hvert verðið er. Þannig er það oftast. Vissulega er ástæða til að hlusta þegar búist er við að staða okkur versni, verðbólga aukist, höfuðstóll lánanna hækki, tryggingarnar að baki lánanna, það er heimilin, lækki og þess vegna er hætt á að skuldirnar verði jafnvel hærri en eignirnar. Það verður vond staða, staða sem við viljum ekki að verði. Þess vegna lögðum við trú okkar og von á að þeir sem hafa tekist á að vísa veginn, þeir sem hafa sóst eftir að leiða okkur áfram gerðu sitt til að hagur okkar allra yrði eins góður og kostur var á.

Ríkisstjórn, fulltrúar launafólks og atvinnurekenda komust að samkomulagi, samningum verður ekki sagt upp. Við stundum af feginleik. Þá kom aðalbankastjóri Seðlabankans og fyrrum efnahagsmálaráðherra þjóðarinnar og sagði samkomulagið svo sem ágætt, skref í rétta átt, en ekki nóg, ekki nóg. Nokkrum dögum síðar tilkynnir þessi sami maður hækkun stýrivaxta, meiri hækkun en aðrir höfðu reiknað með. Enn eitt metið var fallið, hvergi hærri vextir. Þá sögðu þeir sem áður höfðu gert samkomulag að Seðlabankastjórinn væri með ákvörðun sinni að kalla fram harða lendingu í efnahagsmálum. Sem væntanlega er vond fyrir okkur. Hvaða menn eru þetta? Atvinnurekendur, launþegar og ráðherrar gera ekki nóg að mati Seðlabankans sem aftur á móti fær þann dóm frá hinum að bankinn geri alltof mikið. Við hin getum fátt, lokum gluggunum og vonum að allt fari vel, þrátt fyrir að engum virðist treystandi, hvorki veðri né vitringum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: