- Advertisement -

Líf átti að segja af sér

Gunnar Smári Egilsson.

Að öllu ulli slepptu þá er skrítið að Líf Magneudóttir sé í borgarstjórn, að hún hafi ekki sagt af sér á kosninganótt þegar kom í ljós að Vg fékk aðeins 4,6% atkvæða. Það eru eðlilegviðbrögð stjórnmálafólks við stórkostlegum ósigri í kosningum.

Og ekki vegna þess að fólk eigi að refsa sjálfu sér heldur ber frambjóðendum sem tapa stórt að yfirgefa hópinn svo annað fólk geti byggt flokkinn upp fyrir næstu átök. Það hefði til dæmis verið hreinlegast að allir oddvitar Samfylkingarinnar í öllum kjördæmum hefðu sagt af sér á kosninganótt 2013, eftir að flokkurinn féll niður í 12,9% atkvæða. Það var ekki gert og meira og minna sama fólk bauð sig fram 2016 og uppskar 5,9%, tókst næstum því að fella flokkinn, arftaka Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista, út af þingi.

Í borgarstjórnarkosningunum 2014 fékk Vg 8,3% atkvæða en samkvæmt könnunum hafði fylgið vaxið upp í 20,8% í maí í fyrra (Gallup) og mældist í 17,8% í ágúst fyrir réttu ári (Fréttablaðið). 4,6% atkvæða hefði ekki skilað Vg borgarfulltrúa í fimmtán manna borgarstjórn, Líf slapp inn á fjölgun borgarfulltrúa. Slík útreið ætti alltaf að leiða til afsagnar og aldrei til þess að oddviti sem uppsker slíkan ósigur gangi inn í meirihlutasamstarf, svo til það sama og flokkurinn var í áður og leiddi til ósigursins.
Það er hættulegt stjórnmálamönnum að reyna að hanga inni rúnir trausti og fylgi. Það getur brotist út í öfgakenndum varnartilburðum, skrítinni sjálfsréttlætingu og að andstæðingar virðast birtast í hverju horni.

-gse


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: