- Advertisement -

Villandi og hallærislegt!

Oddný Harðardóttir skrifar: Höfundum veiðigjaldafrumvarpsins nýja finnst ástæða til að víkja sérstaklega að jafnréttismálum og kynskiptum vinnumarkaði til að rökstyðja að ekki eigi að vega hagnað af fiskvinnslu við ákvörðun veiðigjalds.

Úr greinargerð frumvarpsins: „Störf í landvinnslu hafa jafnan verið að meirihluta á hendi kvenna. Þá má geta þess að konur hafa á síðustu árum verið mun sýnilegri í sjávarútvegi en áður. Nefna má að með frumvarpi þessu er ekki lagt til að vinnsla á sjávarafla verði hluti af reiknistofni veiðigjalds sem mundi fremur, samkvæmt þessu, koma við störf kvenna en karla.“

Hér koma fréttir fyrir sjávarútvegsráðherra og höfunda frumvarpsins: Fiskvinnsla borgar ekki veiðigjöld og hefur aldrei gert! Hækkun eða lækkun veiðigjalda hefur engin áhrif á rekstur fiskvinnslu. Eingöngu veitt magn af fiski hefur áhrif á framboð á fiski til fiskvinnslunnar og á fiskverð því að verðmyndun á veiddum fiski er frjáls. Réttlát veiðigjöld hafa ekki áhrif á hve margir fiskar eru dregnir úr sjó og því ekki á fiskverðið til fiskvinnslu heldur.

Sjávarútvegsráðherra lagði áherslu á það í kynningum á frumvarpinu, að það væru veiðarnar sem ættu að greiða veiðigjöldin ekki vinnslan. Þetta er villandi framsetning því vinnslan hefur aldrei greitt veiðigjöld. Hins vegar hefur hagnaður fiskvinnslunnar verið veginn inn í ákvörðun veiðigjaldsins. Það var gert m.a. til að mynda ekki hvata fyrir útgerðarfyrirtækin til að færa hagnaðinn frekar yfir á vinnsluna og hafa þannig áhrif á að veiðigjöldin lækki. Í nýju veiðigjaldafrumvarpi er horfið frá þessu og þá verður þessi hvati raunverulegur og þrýstingur gæti myndast frá öllum útgerðum að þær sem hafi tækifæri til færi hagnaðinn í auknum mæli á vinnsluna og því fylgir um leið lægri veiðigjöld og lægri laun til sjómanna.

Það er ótrúlega hallærislegt að beita kynjarökum með þessum villandi hætti til að réttlæta útreikning á veiðigjaldi. Svona gera bara karlar sem vilja með öllum ráðum verja ríka sérhagsmuni.

Greinin er tekin af Facebooksíðu Oddnýjar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: