- Advertisement -

Kosti allt að 100 þúsund á dag

- ef ekki verður farið að lögum um að jafna hlut kynjanna í stjórnum fyrirtækja. Dagsektir verði frá tíu til hundrað þúsund krónur.

Lilja Rafney fer fyrir frumvarpinu.

Lilja Rafney fer fyrir nokkrum þingmönnum sem vilja að fyrirtækjum verði refsað með sektum jafni þau ekki hlut kynjanna í stjórnum fyrirtækja.

„Með frumvarpi þessu er lagt til að það varði dagsektum ef ekki er farið að ákvæðum laga um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga.“ Sektirnar verði frá tíu til hundrað þúsund á dag og þær geti tekið mið af fjárhagsstöðu fyrirtækjanna.

Vísað er til reynslu Norðmanna: „Í Noregi voru samþykkt lög um kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga árið 2003. Þar var kveðið á um að hlutur hvors kyns í stjórn skuli vera að lágmarki 40%. Eftir innleiðingu norsku laganna hækkaði hlutur kvenna í stjórnum hlutafélaga úr 6% árið 2002 í 40% árið 2011. Hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja í Noregi hækkaði úr fjórðungi stjórnarmanna árið 2004 í 36% árið 2006 og náði 42% árið 2009.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og svo hingað heim. Í greinargerðinni segir t.d.:

„Þrátt fyrir að Ísland hafi fylgt nokkuð fast á eftir fordæmi Noregs með lagasetningu um kynjakvóta í stjórnum félaga hefur ekki náðst sami árangur á Íslandi. Gefinn var rúmur aðlögunartími fyrir gildistöku ákvæða um hlutfall kynja í stjórnum en hlutfallið hefur ekki jafnast og ákvæðum hefur í reynd ekki verið fylgt. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru konur 26,1% stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá í lok árs 2017. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 launþega náði hámarki 33,2 % árið 2014 en hefur farið lækkandi síðan. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 launþega stendur í stað á milli ára. Íslensk lög um þetta eru byggð á þeim norsku en ekki er þar að finna sambærileg viðurlagaákvæði. Flutningsmenn telja tímabært að skýrt verði kveðið á um það í lögum að leggja skuli dagsektir á þau félög sem ekki fara að ákvæðum um hlutföll kynja í stjórnum svo að markmið þeirra nái fram að ganga.“

Auk Lilju Rafneyjar skrifa upp á frumvarpið þau Halla Signý Kristjánsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Inga Sæland, Halldóra Mogensen, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Bryndís Haraldsdóttir.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: