- Advertisement -

Ásmundur Einar á í samtölum um allt

Snæbjörn Brynjarsson Pírati spurði félagsmálaráðherrann, Ásmund Einar Daðason, um þær hörmungar sem eru að gerast á vinnumarkaði, helst gegn erlendum starfsmönnum. Svör ráðherrans eru hvert öðru líkt. Hann talar við marga og margir tala við hann.

„Eins og komið hefur fram í málinu og kom fram í máli hjá háttvirtum þingmanni erum við í samtali, m.a. við verkalýðshreyfinguna og við aðila vinnumarkaðar, báðum megin, um að gera breytingar í þessa veru.“

Og ráðherrann á í fleiri samtölum.

„Þarna koma fleiri aðilar að; þarna kemur lögreglan að, þarna kemur atvinnuvegaráðuneytið, þarna kemur fjármálaráðuneytið og fleiri aðilar að. Hluti af þeirri vinnu er að ræða hvort ekki sé ástæða til þess að skerpa á löggjöf meira en gert hefur verið vegna þess að við samþykktum lög síðasta sumar sem sneru að starfsmannaleigum og keðjuábyrgð. Hluti af þessu er líka að ræða hvort ekki sé ástæða til þess að grípa til harðari viðurlaga við brotum sem þessum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er ekkert smáræði. Kannski má kalla þetta fjölsamræður. Jæja, áfram með orð ráðherrans.

„Verkalýðshreyfingin hefur ákveðnar hugmyndir og ég held að með samtali þarna á milli séum við að ræða til hvaða aðgerða eigi að grípa og með hvaða hætti.“

Og hvers er að vænta?

„Við þurfum að vera meðvituð um með hvaða hætti við ætlum að gera það, hvaða aðgerðir við ætlum að ráðast í. Það er þess vegna sem þessi vinna var sett af stað fyrir nokkrum vikum. Meiningin er að út úr því komi tillögur sem leitt geta til breytinga á lögum.“

Snæbjörn orðaði ástandið með ágætum:

„Þess vegna velti ég því upp hvort við ættum ekki að setja í refsilöggjöfina harðari viðurlög þegar stolið er af fólki. Það er náttúrlega þjófnaður þegar kjarasamningar eru ekki virtir og fólk fær ekki þau laun sem við höfum samið um handa þeim. Þurfum við ekki að taka harðar á því? Verkalýðshreyfingin hefur m.a. kallað eftir því að við grípum inn í það á einhvern hátt, að hún hafi einhver tæki og tól önnur en að tuða í fólki um að greiða laun. Það verður svo oft eina niðurstaðan að fólk fær einhvern hluta af því sem það á inni og síðan ekkert meir.“

Og hann spurði ráðherrann einfaldrar spurninga.

„Hvað segir hans eigin réttlætiskennd? Þarf harðari refsingar?“

„Ég er algjörlega sammála háttvirtum þingmanni að það þarf harðari viðurlög þegar menn gerast ítrekað brotlegir.“

Jæja, þar höfum við það, en samtölin öll koma fyrst. Síðan kemur kannski að aðgerðum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: