- Advertisement -

Ofbeit ferðamanna

Logi Einarsson:
Það er ótrúlega mikið meira kolefnisspor sem það tekur að þurfa að lenda í Keflavík, keyra til Reykjavíkur og fljúga svo til Akureyrar heldur en að geta flogið beint.

„Mér finnst það ótrúlega mikil vonbrigði að við sjáum ekki framsýnni og metnaðarfyllri tillögur til handa flugvellinum á Akureyri. Það er beinlínis talað um það í samgönguáætluninni að opna eigi fleiri gáttir inn í landið,“ sagði Logi Einarsson í umræðu um samgönguáætlun.

„Eitt af markmiðunum er að dreifa farþegum betur og eitt af markmiðunum er að opna fleiri gáttir inn í landið en það er ekkert verið að gera til að uppfylla það og það eru sár vonbrigði. Við horfum upp á það með fjölgun ferðamanna úr nokkur hundruð þúsund í nokkrar milljónir á nokkrum árum að á afmörkuðu litlu svæði á landinu er stunduð ofbeit. Það er hreinlega orðið hættulegt gagnvart náttúrunni hvernig ágangur á marga staði hér suðvestan lands er á meðan það eru vannýtt tækifæri úti um allt land. Þetta er beinlínis heimskulegt. Það sýnir sig í könnunum að 60% af þeim farþegum sem lenda á Akureyri eru að koma í annað skiptið, þannig að fólk vill sjá stærri hluta af landinu,“ sagði Logi.

„Það er skynsamleg leið að fjölga gáttunum og gera það almennilega vegna þess að við þurfum líka að hafa möguleika til að vaxa og dafna á þessum svæðum. Með því að verja ekki peningum til uppbyggingar Akureyrarflugvallar, ekki meira en 78 milljónum á fimm árum á meðan að heildarframlög til flugvalla eru um 36 milljarðar á fimm árum á öllu landinu, er beinlínis verið að taka bjargirnar af þessu fólki sem vill auðvitað fá að styrkja sig og byggja sig upp, fyrir utan það svo að möguleikarnir til að koma sér beint til útlanda er ekki bara spurning um lífsgæði heldur felst líka í því umhverfisvernd, hæstv. ráðherra. Það er ótrúlega mikið meira kolefnisspor sem það tekur að þurfa að lenda í Keflavík, keyra til Reykjavíkur og fljúga svo til Akureyrar heldur en að geta flogið beint. Þetta eru hlutir sem verður að hafa í huga.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Í stjórnarsáttmálanum er á fjölmörgum stöðum talað um bæði byggðaþróun og byggðamál og mér finnst það nokkuð skítt að Akureyrarflugvöllur, sem hefur kannski 40.000–50.000 manna upptökusvæði, sem er u.þ.b. það sama og Færeyjar hafa, njóti ekki meiri sanngirni,“ sagði Logi Einarsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: