- Advertisement -

SDG: Við höfum aukið jöfnuð

Stjórnmál  „Við viljum halda áfram að rétta hlut fólks með millitekjur og lægri tekjur, og það er ósatt sem haldið er fram, og ég hef heyrt í þinginu, að misskipting hafi aukist á Íslandi á undanförnum tveimur árum. Þvert á móti hefur tekjubilið, það er munurinn á þeim með hæstu launin og þeirra sem eru með lægri laun, líklega aldrei verið minni. Jöfnuður hefur aukist til mikilla muna í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ekki hvað síst vegna þess að þær breytingar sem við höfum ráðist í skattkerfinu og öðru hafa miðað að því að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem eru með millitekjur og lægri tekjur,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í viðtali við Reykjaví síðdegis á Bylgjunni.

Meðal þess sem er rætt um sem innlegg til lausnar kjaradeilna er rætt um skattabreytingar.

„Það er eitt af því sem er til skoðunar. Það er erfitt í þeirri umræðu að það er mikill munur á hvað ólíkum félögum innan verkalýðshreyfingarinnar hugnast. Sumir vilja aukinn jöfnuð. Aðrir tala um að menntun sinna félagsmanna sé ekki nægilega metin til launa og vilja jafnvel að það dragi í sundur. Það sem við höfum helst verið að opna á, eru leiðir til að halda áfram að draga úr launamun á Íslandi. Halda áfram að auka kaupmátt allra hópa en ekki hvað síst milli- og lágtekjuhópanna. Við verðum að hafa það hafa hugfast og setja hlutina í samhengi að á tveimur árum, þeim tveimur árum sem þessi ríkisstjórn hefur verið við völd, hefur kaupmáttur á Íslandi aukist um átta prósent, sem ég held að hljóti að vera met á svo skömmum tíma. Þeirri kaupmáttaraukningu hefur ekki verið misskipt. Hún hefur ekki síður komið til hjá fólki með lægri eða millitekjur. Það er reyndar rétt að ákveðnir hópar kunna að hafa orðið útundan og ekki fengið samskonar hækkanir og aðrir og það þarf að huga sérstaklega að því. En, á þessu tímabili hefur kaupmáttur aukist óvenju mikið og jöfnuður hefur aukist líka. Við megum ekki kasta þessum árangri á glæ með því að kynda undir verðbólgubálinu eina ferðina enn.“

Sigmundur Davíð segir aðkoma ríkisins að kjarasamningum muni miðast við að náðum árangri verði ekki stefnt í voða. „Stjórnvöld eru ekki beinn aðili að þessu,“ sagði ráðherrann. „Meðan sú staða er uppi að launþegahreyfingin kemur sér ekki saman hvar áherslurnar eiga að liggja er erfitt fyrir ríkið að troða sér inn í viðræður sem það á ekki beina aðild að. Við höfum samt fundað reglulega með þessum aðilum til að minna á að við erum opin fyrir öllum þeim leiðum sem mega verða til þess að ná sátt á vinnumarkaði og auka ráðstöfunartekjur og kaupmátt almennings í landinu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: