- Advertisement -

Hið opinbera stígi fram þar sem einkaaðilar halda að sér höndum

Oddný Harðardóttir þingflokksformaður.
Mynd: Samfylkingin/Hari.

Samfylkingin hefur sent frá sér tillögur vegna efnahagssamdráttarins vegna kórónukreppunnar.

„Samfylkingin vill ráðast í markvissar aðgerðir til að fjölga störfum, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera, stíga fastar til jarðar í loftslagsmálum og beita ríkisvaldinu af krafti til að fjárfesta í grænni uppbyggingu og renna fjölbreyttari stoðum undir útflutning og verðmætasköpun á Íslandi,“ segir meðal annars í tillögum Samfylkingarinnar.

„Samfylkingin vill fylgja fordæmi annarra Norðurlanda og koma á fót grænum fjárfestingarsjóði með fjárhagslegt bolmagn til að leiða umhverfisvæna umbyltingu atvinnulífs á Íslandi. Þá þarf að endurskoða aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og efla stjórnsýslu loftslagsmála til muna þannig að Ísland sé ekki eftirbátur annarra Norðurlanda. Á meðal loftslagsaðgerða sem Samfylkingin setur í forgang meðan Ísland er að brjótast út úr kórónakreppunni er stórefling almenningssamgangna, átak í skógrækt, garðyrkju og grænni matvælaframleiðslu, uppbygging iðngarða, fjölgun rafhleðslustöðva og styrking á dreifi- og flutningskerfum rafmagns til að standa undir auknu álagi vegna orkuskipta og rafvæðingar samgangna á láði og legi.

Aðgerðirnar eru fjármagnaðar með skuldsetningu til skemmri tíma.

Efnahagsáætlun Samfylkingarinnar byggir á því að hið opinbera stígi fram, nú þegar einkaaðilar halda að sér höndum, og ráðist af krafti gegn atvinnuleysi og óvissu. Gróflega má áætla að ábyrga leiðin myndi fjölga störfum um fimm til sjö þúsund strax á næsta ári. Ef fjárlagafrumvarp, ríkisfjármálaaðgerðir og efnahagsforsendur ríkisstjórnarinnar stæðu að öðru leyti óhaggaðar myndu aðgerðirnar sem Samfylkingin leggur til auka fjárlagahalla ársins 2021 úr 8,6 prósentum upp í 11,2 prósent en skuldir íslenska ríkisins yrðu áfram lágar í alþjóðlegum samanburði.

Í fjárlögum og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar birtist engin skýr áætlun um hvernig koma megi hagvexti aftur í gang, draga úr atvinnuleysi og slá á þá miklu óvissu sem nú heldur aftur af fjárfestingum og verðmætasköpun. Ábyrga leiðin er ódýrari en leið ríkisstjórnarinnar vegna þess að fjöldaatvinnuleysi er sóun sem við höfum ekki efni á og algjör óvissa fyrir fólk og fyrirtæki er gríðarlega kostnaðarsöm. Nú þegar vextir hafa lækkað hratt, fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs er lítill og framleiðsluslaki í hagkerfinu ætti ríkið að stíga inn með miklu myndarlegri hætti til að halda uppi eftirspurn og skapa atvinnu. Aðgerðirnar eru fjármagnaðar með skuldsetningu til skemmri tíma, en til lengri tíma litið þarf að koma á jafnvægi með sanngjarnri og skynsamlegri skattheimtu og aukinni framleiðni í fjölbreyttara hagkerfi þar sem þjóðin fær réttmætan arð af auðlindum sínum.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: