- Advertisement -

Viðsnúningur lögreglunnar er vonbrigði

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir:

„Um ákall formanns Félags lögreglumanna í Reykjavík um afsögn mína hef ég þetta að segja:

Það eru vonbrigði að sjá þennan viðsnúning í málflutningi lögreglunnar á einum sólarhring. Ég var ánægð að sjá Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjón fordæma þessi merki í gær, harma þessa uppákomu og lofa því að tekið yrði á þessum málum innan lögreglunnar. Því er mjög sorglegt að kollegi hans grafi undan þeim málflutningi með því að gera lítið úr alvarleika þessara merkja og mikilvægi þess að taka á málum sem þessum af festu.

Svo það sé kristalskírt gaf ég aldrei „til kynna að íslenskir lögreglumenn séu kynþáttahatarar í heild sinni“ og ég hafna þessum málflutningi Arinbjörns Snorrasonar alfarið, enda grófur útúrsnúningur á orðum mínum.

Hið rétta er að miðað við viðbrögð lögreglukonunnar sjálfrar, sem sagði:

Að hún vissi ekki að þessi tákn stæðu fyrir kynþáttahatur

Að hún hefði borið þessi merki í nokkur ár

Að margir lögreglumenn bæru þessi merki

Þá komst ég í ræðu minni í gær að eftirfarandi niðurstöðu: 

“[…] annaðhvort skorti mikilvæga fræðslu innan lögreglunnar um rasísk og ofbeldisfull merki eins og Vínlandsfánann og „Punisher“, eða refsaramerkið, nú eða það sem verra væri, að rasismi og ofbeldisfull menning fái að grassera innan lögreglunnar. Hvort tveggja er óásættanleg staða. Ég mun því óska eftir því að allsherjar- og menntamálanefnd taki þetta mál fyrir á fundi og ræði við fulltrúa lögreglunnar um rasisma innan lögreglunnar og aðferðir til að sporna við honum.”

Umræðan síðasta sólarhringinn hefur opnað á mikilvægt tækifæri til að ræða störf lögreglunnar. Heilindi hennar verða að vera yfir allan vafa hafinn og opin og hreinskiptin umræða um mögulegan rasisma og/eða fordóma innan lögreglunnar og viðbrögð við honum eru ekki síst lögreglunni til hagsbóta. Enda hefur lögreglan meðal annars það mikilvæga hlutverk að afla trausts meðal viðkvæmra hópa sem eiga á hættu að verða fyrir hatursglæpum.

Ég vitna í orð Eyrúnar Eyþórsdóttur, lektors í lögreglufræðum sem sagði í samtali við Fréttablaðið að  hún óttist „að ljósmynd sem sýni lögreglumann bera merkingar með tengingar við öfgahópa og kynþáttahyggju geti alið á ótta meðal minnihlutahópa og grafið undan trausti þeirra gagnvart lögreglu. Mikilvægt sé að gæta þess að svipuð mál komi ekki upp aftur.“

Að gera lítið úr alvarleika svona merkja og segja að þau hljóti að standa fyrir gott málefni jafngildir því að neita að viðurkenna alvarleika málsins og er ekki líklegt til að koma í veg fyrir að svona mál komi upp aftur.

Í hnotskurn horfir þetta mál við mér þannig að lögreglan skuldi almenningi efnislega útskýringu á því fyrir hvað Vínlandsfánninn með Punishermerkingunni táknar og af hverju hann er á búningum lögreglu á íslandi. Þetta mál snýst ekki um „við gegn þeim,“ þetta snýst um að lögreglan sé órjúfanlegur hluti af samfélagi okkar allra, líka þeirra sem svona merkingum hefur verið beint gegn. Nú er ekki tíminn til að pakka í vörn heldur fara af auðmýkt inn í opið og heiðarlegt samtal við almenning um mögulegan rasisma og/eða fordóma innan lögreglunnar og viðbrögð við honum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: