- Advertisement -

Náðu að hrekja Tryggva úr embætti

Þór Saari skrifar:

Nú hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur undir forystu Steingríms J. Sigfússonar og Bjarna Benediktssonar loksins tekist að hrekja Umboðsmann Alþingis úr starfi eftir margra ára baráttu nokkurra ríkisstjórna.

Það var augljóst strax þegar ég var á Alþingi 2009-2013 að pólitísku yfirstéttinni var illa við Tryggva Gunnarsson, enda er hann líklega vandaðasti og samviskusamasti embættismaðurinn í allri stjórnsýslunni. Strax þá var augljóst að það var í gangi sveltistefna gagnvart þessu gríðarlega mikilvæga embætti og allar hugmyndir hans um frumkvæðisathuganir, sem eru algjört grundvallaratriði í starfsemi embættisins, voru stöðvaðar samstundis af þáverandi ríkisstjórnarmeirihluta.

Það sama á sér stað hægt og bítandi með Ríkisendurskoðun.

Pólitíska yfirstéttin, a.k.a. Fjórflokkurinn, vill einfaldlega ekki að óháður aðili vogi sér að hafa uppi sjálfstæðar athugasemdir, að ekki sé talað um gagnrýni, á störf sín þegar kemur að réttindum og hagsmunum almennings í landinu. Þetta er ömurleg niðurstaða en þó fyllilega í anda þessarar ríkisstjórnar ofríkis og fyrirlitningar þegar kemur að almannahag.

Það sama á sér stað hægt og bítandi með Ríkisendurskoðun sem einnig heyrir undir forsætisnefnd Alþingis (já S.J.S. aftur) og hefur aldrei fengið þá fjármögnun sem til þarf svo embættið geti rækt hlutverk sitt.

Gleymum heldur ekki niðurskurði Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben. á framlögum til Sérstaks saksóknara þegar rannsóknir hans á Hrunmálum voru farnar að höggva full nærri yfirstéttinni. Það er allt á sömu bókina lært þegar kemur að Alþingi og Fjórflokknum (sem nú telur að vísu sex), allt skal gert til að efla völd pólitískrar og efnahagslegrar yfirstéttar landsins á kostnað réttinda fólks og almannahags. Í fréttinni segir meðal annars:

„Hann hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir að verja ekki nógu miklu fjármagni til embættisins og sagt fjárskortinn gera það að verkum að embættið gæti ekki sinnt frumkvæðismálum.

Ekki væri trúverðugt að embætti umboðsmanns aðhefðist ekki eftir ábendingar. „Það er betra að vera hreinskilinn og segja að ekki sé hægt að sinna þessu,“ sagði Tryggvi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: