- Advertisement -

Að næra andann í hjartanu“

Menning Spjall við Daða Guðbjörnsson um næstu sýningu hans Landslag, sjólag og sólin

Við Daði hittumst til að spjalla um nýja sýningu hans í Galleríi Fold sem mun opna 10. maí n.k. Sjálfur segist hann fyrir löngu hafa misst töluna á fjölda sýninga sem hann hefur haldið. Þær hafa verið margar í gegnum tíðina, stórar og litlar, samsýningar sem einkasýningar.

Síðasta stóra sýning Daða og sennilega sú stærsta var á Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum í árslok 2011. Þar sýndi hann mörg gríðarstór málverk og segir að sér hafi létt mjög þegar hann var búinn að vinna verkin á þá sýningu enda hafi tekið mjög á að vinna öll þessi stóru verk.

Verkin á nýju sýningunni sem ber nafnið Landslag, sjólag og sólin eru þó sum í stærri kantinum þótt önnur séu smá en öll eru þau unnin í olíu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

“Ég var rosalega feginn að vera búinn með þessa stóru sýningu og þá fer maður að gera öðruvísi verk. Það sem var að koma inn á þeirri sýningu var landslagið; þetta fjall, hafið og svo sólin. Þrír aðalkraftar í náttúrunni og mönnunum; fasta efnið eins og fjallið, svo er það sjórinn sem er alltaf á hreyfingu, það er þar sem lífið kviknar. Og svo er það sólin sem er orkugjafinn á bak við þetta allt, þannig að þetta er sýning um þessi frumelement.”

Daði hefur lagt stund á Sahajayoga sem er hugleiðsluyoga, síðustu ár og segir það hafa töluverð áhrif, bæði á vinnulagið og verkin sjálf.

“Sem listamaður þarf maður ekkert að koma með vísindalega niðurstöðu heldur getur maður bara skotið út í loftið og vonað að maður hitti eitthvað. Ég geri í því að vinna ekki mjög markvisst þannig að hægt sé að lesa úr myndunum einhverja merkingu því ég vil heldur að hægt sé að lesa úr þeim tilfinningar.

Hver einasta orkustöð í þessum indversku fræðum er í raun með efni, lit, hljóð og það er eitthvað frumefni á bak við þær. Fjallið er þá jörðin, sjórinn er magasvæðið og uppúr og maður villist þar,” bætir hann við glettinn, “og sólin er fyrir hugsunina. Að því leyti tengist þetta einhverju sem ég þekki úr þessum andlegu fræðum mínum en mér finnst það ekki vera aðalatriðið fyrir þá sem eru að skoða verkin mín.

Ég vil ekki setja þetta fram eins og þetta sé eitthvert kerfi sem veiti svör í andlega heiminum heldur er það þannig að það er listin sem nærir tilfiinningarnar og nærir andann sem er í hjartanu á manni. Til þessa að vekja andann þá þarftu listina. Listirnar gegna því tiltekna hlutverki. Við þurfum að fá eitthvað að borða og notum ákveðna aðferð við það, við þurfum að halda okkur hreinum og snyrtilegum og höfum ákveðna aðferð við það, umgangast fólk og höfum líka á því sérstakt lag. Svo kemur að þessu sem er í raun mikilvægast fyrir manninn en hann gerir sér ekki alltaf grein fyrir því sjálfur. Maðurinn þarf að næra andann í sér og tilfinningarnar og það þarf að vera jafnvægi á milli tilfinningahluta lífsins og þess að hafa ofan í sig og á. Þess vegna sagði Kristur “Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.” Það er í raun alveg sama hugmynd.”

Daði segist reyna að beina fólki inn á þá braut að huga að sínum innri manni. “Það er stóra hugmyndin á bak við listina hjá mér.”

Hann segir það þó ekki alltaf hafa verið svo: „Þegar maður er ungur, þá er þetta allt miklu óljósara, maður hefur hugboð um eitthvað og gerir eitthvað, fer í skóla og reynir að þroska sig. Svo þegar maður er eldri og sér þetta úr meiri fjarlægð þá fer maður að sjá í þessu meira munstur og samhengi. Áður vann ég bæði með dekkri og ljósari hliðar lífsins en nú einbeitir ég mér bara að því jákvæða.”

Ég hef orð á því að mér finnist verkin hans hafa breyst og þróast mikið í gegnum tíðina þótt höfundaeinkenni hans séu sterk. Elstu verkin sem ég man eftir voru hrá og kraftmikil en nú séu vinnubrögð hans önnur.

“Já, það er þessi hefð hjá okkur í sambandi við listirnar, þessi samræðu átakahefð. Þegar ég byrjaði var ég innan um menn sem voru alltaf að vinna í fínum ljósmyndum með örlitlum, fínum textum og það var bara ekki málið fyrir mér og þá þurfti maður að gera einhverja mjög mikla uppreisn gegn því. Og það er alveg eins í dag, það eru mjög agressífir hlutir í gangi í listinni í dag og hafa verið, kannski alveg síðan nýja málverkið koma fram og þá eru það viðbrögðin hjá mér núna að gera hluti sem eru mjúkir og fínir. Það vekur þó allt öðruvísi viðbrögð en hitt. Það er eins og allt í menningunni og auglýsingunum og samfélaginu þurfi að toppa það sem kom á undan. En svo eru margir að gera tilraunir með því að snúa frá þessu og ég er einn af þeim.”

Daði gerir grín að því að þegar hann hafi verið ungur hefði hann sagt að þegar hann yrði orðinn fimmtugur gæti hann farið að mála landslag. Þeim þótti það ekki parfínt þá. Þótt það hafi verið grín hafi það á vissan hátt ræst. “Maður er að taka inn ný element, það er miklu hnitmiðaðri litur hjá mér og meiri geta. Þegar maður kemst í meira jafnvægi sjálfur þá gengur manni betur að koma á meira jafnvægi í myndirnar líka.”

Daði segir að þegar hann var að vinna þessar fyrstu myndir sínar þá hafi honum fundist hann mjög góður í því sem hann var að gera þá. Þá hefði hann þó sennilega verið lélegur í því sem hann er að gera núna. “Ég er ekki lengur að bregðast við því sem er að gerast í listaheiminum eða menningunni, miklu frekar því sem er að gerast í heiminum öllum og innra með mér. Ég reyni að ná tengingu í gegnum hugleiðslu og mála án hugsunar. Ég byggi samt auðvitað á reynslunni, með liti og tækni og allt þetta, ég kann þetta en ég reyni að vinna þetta ekki á vitrænum grunni.”

“Tilraunirnar breytast, smám saman verður maður markvissari í vinnunni hjá sér. Sérstaklega í framsetningunni en að mála myndina er í raun alltaf jafnerfitt. Sumar myndir ganga vel og fljótt fyrir sér en aðrar er lengur að fæðast.”

Hann segir að nú sé meiri fjölbreytni leyfð og ungt fólk sé mun opnara fyrir fleiri stefnum og straumum í listinni en fólk var fyrir 20 árum. “Menningin hefur oftast verið þannig að það er bara eitt í gangi í einu.” Daði segist meðvitað hafa reynt að vinna gegn þeim hugmyndum að listamenn þurfi að skilgreina sig eða afmarka of mikið. Hann segist alltaf hafa reynt að staðsetja sig sem listamann á fleiri en einu sviði. “Það er eitthvað framlag í þessu hjá mér, ég hef alltaf reynt að selja myndir en svo sýna t.d. á Nýlistasafninu líka. Ég hef gefið skít í að þurfa að vera annað hvort. Það var líka hluti af nýja málverkinu, við kölluðum það þverframmúrstefnu,” segir Daði og hlær. “En þessi tolerans er kominn núna.”

Daði segir að listamenn séu samfélaginu nauðsynlegt tæki því þeir hafi leyfi til að vera fyrir utan rammann. “Þeir geta haft rosalega mikil áhrif, bara með því að taka þátt. Maður heyrir það í umræðunni, og það var byrjað fyrir gróðærið, að það ætti ekki að gera lítið úr þeim rökum að fólki finnist eitthvað þótt það geti ekki rökstutt það – náttúran hefur gildi í sjálfu sér. Gljúfur sem eru fleiri kílómetrar að lengd, þau hafa gildi þótt enginn eigi leið þar um. Það sama gildir um marga listamenn sem enginn er að skoða, þeir hafa líka gildi þótt enginn viti af þeim eða gefi þeim gaum.”

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: