- Advertisement -

Að setja sjálfan sig í spennitreyju

Stórútgerðin gerir upp á Verðlagsstofuverði sem er alla jafna tugum prósenta lægra en fæst fyrir fiskinn á frjálsum markaði.

Sjávarútvegsráðherra rekur glerharða stefnu gegn nýliðun og með samþjöppun í sjávarútvegi. Afleiðingarnar birtast m.a. í því að 413 skip fengu úthlutað kvóta í ár, en fjöldin var 540 í fyrra.

Samþjöppunin er ekki tilviljun heldur bein afleiðing ójafnrar samkeppnisstöðu, þar sem fyrirtæki sem reka vinnslu samhliða útgerð fá sjálf að endurvigta aflann með afar hagkvæmum hætti inn í sínar vinnslur.  Stórútgerðin gerir upp á Verðlagsstofuverði sem er alla jafna tugum prósenta lægra en fæst fyrir fiskinn á frjálsum markaði, sem leiðir af sér lægri launakostnað og hafnargjöld.

Á sama tíma framfylgir sjávarútvegsráðherra ekki skýrum ákvæðum laga um stjórn fiskveiða sem eiga að koma í veg fyrir þá samþjöppun í greininni.  Í stað þess að þeir sem hafa gerst brotlegir, séu látnir sæta þvingunarúrræðum, er rætt um að gefa viðkomandi rúman aðlögunartíma og jafnvel að sveigja reglur að þörfum einstakra fjölskyldna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ráðherra lokaði á veiðar og þjóðarbúið varð af drjúgum tekjum.

Á kjörtímabilinu hefur ráðherra tínt inn í gjafakvótakerfið nýjar fisktegundir sbr. hlýrann og makrílinn og gerði ósvífna atlögu að því að koma grásleppunni í kvóta.  Það var gert á forsendum galinnar veiðiráðgjafar Hafró, sem byggir á togararalli botnfiska, en grásleppan er að mestu uppsjávarfiskur.  Það var strax ljóst að ráðgjöfin byggði á röngum útreikningum og stangaðist bæði á við niðurstöður netaralls og afla á sókanareiningu. Helstu sérfræðingar sem höfðu lagt stund á grásleppurannsóknir bentu á fyrrgreinda þætti en allt kom fyrir ekki, ráðherra lokaði á veiðar og þjóðarbúið varð af drjúgum tekjum.

Reyndar er það svo að ráðgjöf Hafró er alls ekki að ganga upp á öðrum stofnum s.s. þorskinum, bæði út frá upphaflegum markmiðum um 500 þúsund tonna jafnstöðuafla og augljóslega ekki þeim forsendum sem unnið er út frá.  Engu að síður þá komast ráðamenn enn upp með að rétt sé að fylgja ráðgjöfinni í blindni í stað þess að taka upp gagnrýna umræðu um líffræðilegar forsendur þeirrar stefnu sem ekki er að ganga upp.

Ráðherra skar niður veiðiheimildir til strandveiða frá fyrra ári, en bætti síðan í á miðju sumri um nokkur hundruð tonnum, sem náðu ekki að vega upp þá skerðingu sem hann stóð sjálfur fyrir. Í vörn ráðherra fyrir aðför sinni að strandveiðum, þá setur hann sjálfan sig í spennitreyju og sagðist ekki hafa getað aukið aflaheimildir þar sem hann hafi ekki fundið heimildir inn í einhverjum 5,3% potti. 

Klikkaður málflutningur.

Í sjálfu sér er þessi málflutningur klikkaður út frá þeirri forsendu að ráðherra hafði leyft öðrum útgerðarflokkum mun meiri tilfærslu á milli ára, hann er sér í lagi ómerkilegur út frá því að lög um stjórn fiskveiða þ.e. 3. gr. heimilar ráðherra innan hvers fiskveiðiárs að auka eða minnka veiðiheimildir.

Ekki er mjög langt síðan að Sjálfstæðisflokkurinn átti formann sem boðaði 30.000 tonna aukningu á þorskafla þegar rétta þurfti flokkinn af í kosningabaráttunni árið 2003, en nú finnast ekki nokkur tonn í nokkrar trillur, í miðjum heimsfaraldri.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: