- Advertisement -

Aðeins 3,6 prósenta árangur á Alþingi

Mestur fjöldi þingmála stjórnarandstæðinga er hrein og klár atvinnubótavinna.

Enn og aftur og aftur enn afgreiddi Alþingi lagafrumvörp í hendingskasti. Einstaka þingmenn vöruðu við. Sögð mál vanreifuð. Ekki var tími til að kalla gesti fyrir þingnefndir. Þingfundir teygðust og toguðust. Allt samkvæmt hefðinni. Jólafríið beið þingmanna. Þingið lét slag standa. Þingmenn eru komnir í jólafrí til 20. janúar 2020.

Lengst af vetri voru nefndir þingsins verkefnalausar. Engin mál bárust frá ríkisstjórninni. Ég starfaði sem þingfréttamaður fyrir nærri 30 árum. Þá var þetta svona og er svona enn. Aftur og aftur heita þingmenn og ráðherrar að taka sig á. Það hefur aldrei tekist.

En hvað gera þingmenn meðan ráðherrarnir sofa á málunum? Þeir duglegustu í stjórnarandstöðunni finna sér eitthvað til dundurs. Þingmenn meirihlutans slaka á. Gera ekkert eða sem minnst. Það er þeirra háttur. Sama hverjir þingmennirnir eru.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sönnuðu enn og aftur hversu traust samtrygging stjórnmálamanna er þegar á reynir.

Þingmennir sem þurfa að hafa eitthvað fyrir stafni sátu ekki aðgerðarlausir eins og ráðherrarnir gerðu. Þeir lögðu fram lagafrumvarp og þingsályktunartillögur og auðvitað fyrirspurnir sem ráðherrarnir svara eftir dúk og disk. Þó þingsköpin leyfi það ekki. Það er hefð að vanvirða þingið.

Duglegu stjórnarandstæðingarnir lögðu víst fram 93 frumvörp og 99 tillögur. Það hefur Mogginn alla vega eftir hinum skapstygga forseta þingsins, Steingrími J. Sigfússyni. Af öllum þessum málum þingmannanna samþykkti Alþingi tvö frumvörp af þeim 93 sem þeir sömdu og lögðu fram. Fimm af 99 tillögum voru samþykktar. Af 192 málum stjórnarandstæðinga samþykkti þingið sjö mál. Það er rétt um 3,6 prósent málanna.

Þetta er hreint galið. Mestur fjöldi þingmála stjórnarandstæðinga er hrein og klár atvinnubótavinna. Og ekki nóg með það. Stundum grípa þingmenn til þess ráðs að óska eftir umræðu um einstaka mál. Oft af ástæðulausu. Nema þá til þess eins að æfa framsögu í þingsal.

Utanríkisráðherra ákvað að verja tugum milljóna til fyrirframs vonlausrar skýrslu Björns Bjarnasonar um EES samstarfið. Vitað var frá upphafi að skýrslan yrði andvana fædd. Samt gátu þingmenn úr öllum áttum fundað um skýrsluna daglangt. Flestir þeirra, ef ekki allir, notuðu fyrsta stigs lýsingarorð til að mæra Björn og dauðu skýrsluna. Sönnuðu enn og aftur hversu traust samtrygging stjórnmálamanna er þegar á reynir.

Innan ekki langs tíma mun svo koma í ljós hvort þingið hafi vandað sig nóg. Hvort lögin sem voru samþykkt, hvert af öðru, í hendingskasti á síðustu starfsdögum fyrir jól, séu nógu góð eða hvort þingið þurfi að redda þeim eftir á. Það hefur svo sannanlega gerst. Og gerist aftur og aftur. Þannig er nú það.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: