- Advertisement -

Aðgerðir ríkisstjórnar kosti sveitarfélögin 21 milljarð?

Steingrímur J. Sigfússon spurði Bjarna Benediktsson um kostnað sveitarfélaga vegna skuldaleiðréttinganna og hvort aðgerða sé að vænta vegna tekjumissis þeirra.

„Nú er ljóst að sveitarfélögin í landinu verða fyrir mjög umtalsverðu tekjutapi. Samkvæmt greinargerð frá ráðuneyti ráðherrans sjálfs sem efnahags- og viðskiptanefnd bað um getur samanlagt tekjutap sveitarfélaganna á næstu þremur árum í töpuðum útsvarstekjum, beinlínis á meðan séreignarsparnaðaraðgerðinni stendur, og tapaðar framtíðartekjur úr séreignarsparnaðarkerfinu miðað við áætlaða 3,5% ávöxtun orðið allt að 21 milljarðar kr. miðað við eina af þremur sviðsmyndum sem þar er dregin upp. Við skulum ætla að vísu að það séu ytri mörk þess sem þetta getur kostað sveitarfélögin.

Nú hefur meiri hlutinn bætt um betur og hækkað fjárhæðarmörkin úr 500 þúsund í 750 þúsund hjá hjónum og samsköttuðum aðilum sem er ávísun á umtalsvert meira tekjutap, bæði ríkis og sveitarfélaga. Þá má ætla að dekksta sviðsmyndin hjá sveitarfélögunum sé komin í hátt á þriðja tug milljarða í tapaðar útsvarstekjur á næstu þremur árum og til frambúðar.“

Steingrímur vildi vita meira: „Hvernig hefur samskiptum um þetta verið háttað? Er ætlunin að gera sérstakt samkomulag innan stofnana sem fjalla um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, Jónsmessunefnd og annars staðar, þar sem sveitarfélögunum verða að einhverju leyti bætt þetta tekjutap? Eða er það afstaða ríkisstjórnarinnar að sveitarfélögin eigi að bera tekjutapið óbætt?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Svarið við spurningunni er að það hafa engar ákvarðanir verið teknar og það eru engin sérstök áform uppi um að gera samkomulag af þeim toga sem hæstvirtur þingmaður spyr um.“ „…það hafa engar ákvarðanir verið teknar um að grípa til sérstakra ráðstafana í þágu sveitarfélaganna. Þau hafa aftur á móti notið góðs af ýmsum aðgerðum eins og til dæmis snemmbúinni útgreiðslu séreignarsparnaðar, hafa fengið gríðarlega háar skatttekjur til sín mun fyrr en ella hefði orðið vegna þess að þingið hefur ítrekað opnað fyrir heimild til að taka út séreignarsparnað. Það hefur komið þeim mjög til góða að undanförnu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: