- Advertisement -

Af hverju þarf ég að borga húsið mitt mörgum sinnum?

„Hversu lengi ætlum við að vera Bjartur í Sumarhúsum?“

Guðbrandur Einarsson.

„Af hverju er ég að greiða þrefalt hærri vexti en vinur minn í Svíþjóð? Af hverju er svona dýrt að lifa á Íslandi? Þessa dagana er verið að reyna að blekkja okkur með því við séum í svo góðri stöðu af því að hér sé svo mikill hagvöxtur. En er þessi hagvöxtur sjálfbær? Hagvöxtur sem drifinn er áfram af viðskiptahalla er sjaldnast af hinu góða,“ sagði Guðbrandur Einarsson Viðreisn.

„Við erum þessa dagana að upplifa mikla verðbólgu, þá mestu á öldinni, og ein af ástæðum verðbólgunnar er þessi viðskiptahalli. Það hefur þau áhrif að krónan gefur eftir. Þá verða innfluttar vörur dýrari sem bætir við þá verðbólgu sem fyrir er. Sú verðbólga sem við erum að glíma við núna hefur að mestu leyti orðið til vegna tilbúinnar spennu hér innan lands, t.d. á húsnæðismarkaði, en það kann að vera að breytast með fallandi gengi krónunnar. Þessi verðbólga hefur mikil og neikvæð áhrif á stöðu heimilanna í landinu sem sjá lánin sín stökkbreytast með ófyrirséðum afleiðingum en verðbólga er líka vond fyrir ríkissjóð sem eyðir hátt í 100 milljörðum í vexti,“ sagði Guðbrandur.

„Ísland er á toppnum þegar horft er til vaxtakostnaðar sem hlutfalls af landsframleiðslu. Við greiðum t.d. hærri vexti en Grikkland. Það er sá kostnaður sem við þurfum að greiða fyrir það eitt að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil. Verðbólga í öðrum evrulöndum er nú komin í 8,5%, eftir að hún fór hæst í 10,6%, en hér er verðbólga enn að aukast, er nú aftur komin í 9,9% og ekki útlit fyrir að hún sé að lækka. Hversu lengi ætlum við að vera Bjartur í Sumarhúsum?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: