- Advertisement -

Áfram skal gengið á hinni mannfjandsamlegu braut nýfrjálshyggjunnar

Eftir sátu 14 konur, í uppnámi og sorg, miður sín yfir stöðunni, fullar af áhyggjum yfir því hvernig þær eigi að finna vinnu í atvinnuleysinu.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Þið hafið kannski orð vör við fréttir undanfarið af því að uppsagnir séu hafnar hjá sveitarfélögum og stofnunum á lægst launaðasta starfsfólkinu, og auðvitað í hefðbundnum kvennastörfum, við ræstingar eða eldhússtörf. Myndin er þegar farin að skýrast; skilaboðin hafa verið send um það hvar skuli hefja eyðileggingarstarfsemina, hvar skuli fara í að gera sitt til að lengja kreppuna og gera hana dýpri. Ekki skal læra af reynslunni, ekki skal viðurkenna þá staðreynd að það mikilvægasta sem hið opinbera gerir í kreppu er að halda störfum hjá sér, skapa fleiri og vera með því mótvægið við brútalsima hins kapítalíska efnahagskerfi. Nei, áfram skal gengið á hinni mannfjandsamlegu braut nýfrjálshyggjunnar, áfram skal unnið í því að gera hlutina verri, áfram skal látið eins og tilvera annars fólks skipti ekki máli, áfram skal látið eins og hið opinbera eigi fyrst og fremst að sjá til þess að hálaunafólk geti áfram dvalið öruggt undir verndarvæng kerfisins og láglaunakonurnar eigi að vera þær fyrstu út í kuldann. Áfram skal kenna lexíuna um hvað fólgið er í því að vera láglaunakona í kvennaparadísinni Íslandi.

Sameyki, BSRB og Starfsgreinasambandið hafa ályktað um þessi mál, ég hvet ykkur til að skoða þær ályktanir. En ég ætla aðeins að „persónugera“ atburðina hér. Því að ég tel það einstaklega mikilvægt í baráttunni við kerfisbundið óréttlæti og níðingsskap að við segjum sönnu sögurnar. Þær sem kerfið og útsendarar þess vilja ekki að heyrist, en sem við vitum að verða að heyrast, bæði vegna þess að með því eigum við betra möguleika á að breyta því sem verður að breyta en ekki síst vegna þess að sjálfsvirðingin okkar knýr á um að við segjum hátt og skýrt frá því hvað það þýðir að vera láglaunamanneskja á íslenskum vinnumarkaði. Sjálfsvirðingin okkar segir að við skulum saman skila skömminni, þangað sem hún á heima.

Bæjarstjórn var samhljóma í þessari ákvörðun.

Ein af þeim 14 konum sem sagt var upp af Seltjarnarnesbæ fyrir viku er Eflingar-félagi. Ég held að allar konurnar sem misstu vinnuna á Seltjarnarnesi séu komnar yfir fimmtugt, Eflingar-konan er 59 ára og verður sextug um miðjan júní. Ég held líka að allar þessar konur hafi verið með töluvert langan starfsaldur, í það minnsta er Eflingar-konan búin að starfa hjá Seltjarnarnesbæ frá því í apríl árið 2007, í fullri vinnu við uppvask og önnur tilfallandi störf í skólamötuneytinu. Ég leyfi mér að bæta því hér við að samstarfskona mín man eftir mörgum af þessum konum sem nú eru án atvinnu frá því að hennar börn gengu í skólana á Seltjarnarnesi, þar sem þau borðuðu matinn sem konurnar höfðu eldað í matsölunum sem þær héldu hreinum og fínum. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að þær hafi líka séð um matseld fyrir bæjarstjórnarskrifstofurnar.

Á fundi sem var haldinn 22. maí til að tilkynna um uppsagnirnar og starfskona Eflingar var viðstödd til að vera félaga okkar innan handar og vera til vitnis um það sem var að gerast komu m.a. eftirfarandi upplýsingar fram: Bæjarstjórn Seltjarnarness fór í stjórnsýsluúttekt og fékk utanaðkomandi aðila til að koma með tillögur að því sem betur mætti fara í rekstri bæjarins. Ein þeirra var að leggja niður mötuneytið í þeirri mynd sem það var í og bjóða rekstur þess út. Því að eins og sviðstjóri fjármálasviðs bæjarins sagði er „er töluverð hagræðing fólgin í því að bjóða matargerðina út“. Bæjarstjórn var samhljóma í þessari ákvörðun. Sviðstjóri fjármálasviðs Seltjarnarnesbæjar sagði líka að það fyrirtæki sem tekur við rekstri mötuneytisins, Skólamatur, hafi ekki tekið illa í að ráða þær sem misstu vinnuna. En hann vissi þó ekkert um það og það hefði ekki verið rætt sérstaklega að þær ættu forgang til þess að fá þau störf sem þarna „væru sköpuð“. Þær yrðu þá að sækja um það sjálfar. Hann tók fram að Seltjarnarnesbær ætti engin laus störf handa þeim.

Það sem verðum að treysta á er samstaða okkar og baráttuvilji.

Að þessum upplýsingafundi loknum fór sviðstjóri fjármálasviðs úti í daginn og hélt áfram að vinna vinnuna sína. Ánægður með árangurinn og dugnaðinn við að „skapa störf“ fyrir einkafyrirtæki á kostnað kven-vinnuaflsins. Eftir sátu 14 konur, í uppnámi og sorg, miður sín yfir stöðunni, fullar af áhyggjum yfir því hvernig þær eigi að finna vinnu í atvinnuleysinu, hver vilji kaupa af þeim vinnuaflið þeirra, á útsöluverði, í upphafi kreppunnar. Tár féllu, en svo héldu þær líka út í daginn, með vitneskjuna í farteskinu um að „Við erum öll í þessu saman“ er bara innantómur frasi þegar allt kemur til alls.

Ég ætla ekki að segja hér að ég vonist til þess að Seltjarnarnesbær sjái að sér, fatti hvað þetta er ógeðslegt, skilji að þetta er efnahagslegt ofbeldi sem verið er að fremja á þessum konum. Af því að ég veit að það er ekki hægt að treysta á vonina hér. Það sem verðum að treysta á er samstaða okkar og baráttuvilji, að við stöndum sameinuð í að fordæma grimmd dulbúna sem fjárhagslega skynsemi, að við látum alla vita hver afstaða okkar er og að við munum halda mikið og stórt opinbert bókhald um þau sem fara í svona aðgerðir.

En ég segi þó: Ég krefst þess að Steltjarnarnesbær dragi uppsagnirnar til baka og biðjist afsökunar á þeim, og bjóði þeim 14 konum sem misstu vinnuna aftur til starfa fyrir bæinn. Samstundis.

Þar sem hún verður enn þá 59 ára þegar uppsögnin tekur gildi.

Að lokum: Eflingar-konan sem missti þarna vinnuna sína í stórkostlegu fjöldaatvinnuleysi verður sextug um miðjan júní. Þar sem hún verður enn þá 59 ára þegar uppsögnin tekur gildi þann 1. júní er uppsagnarfresturinn fjórir mánuðir en ekki fimm. Þannig að þarna sparaði Seltjarnarnesbær sér smávegis í viðbót. Alltaf að græða; kannski getur bærinn notað aurinn til að bjóða nokkrum stjórnendum út að borða í þakklætisskyni fyrir vel unnin hagræðingarstörf. Eða kannski sett hann í að kaupa flottari blómvönd og betra freyðivín næst þegar bærinn veitir Jafnréttisviðurkenningu þá sem veitt eru einu sinni á hverju kjörtímabili til „einstaklings, stofnunar eða fyrirtækis í bæjarfélaginu sem mest hefur unnið að framgangi jafnréttisáætlunarinnar og/eða sýnt jafnréttismálum sérstakan alhug í verki“.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: