- Advertisement -

Alllt meðhöndluð sem annars flokks manneskjur

Við erum hér líka, huldufólkssögur úr nútímanum VIII: Georg:

Texti og myndir: Alda Lóa:

Hann fálmar sig í gegnum íbúðina, rofinn virkar ekki, ljóslaust, ísskápurinn lyktar og síminn dauður. Ljóshaf borgarinnar breiðir úr sér fyrir utan, upplýstir gluggar og götur. Í landinu með alla orkuna, afgangs- og aukaorkuna er skrúfað fyrir orkusprænuna sem liggur inn í blokkaríbúðina hans. „Það er vægast sagt absúrd tilfinning að vera rafmagnslaus í nútíma samfélagi“ segir Georg.

„Ég var bráðgerður sem barn, alltaf spyrjandi og talandi, ég vildi fá svör, þannig man ég eftir mér. En ég fæ alltaf sting í hjartað þegar ég sé tætta móður með barn i eftirdragi sem er fátæklega klætt, þannig man ég líka eftir mér. Það hjálpar ekki strákalák að vera innan um ofbeldið sem fylgir alkóhólisma, þessi partý og ofbeldið sem því fylgir, andlegt, kynferðislegt og líkamlegt. Ég gat haldið fortíðinni niðri þangað til að ég var 45 ára og síðan kom þetta allt upp á yfirborðið“ segir Georg sem veiktist fyrir sjö árum og datt af vagninum. „Ég er með jafnbrautarlest inn í hausnum, kvíðaröskun, geðhvarfasýki og með þessu er ég að kljást við alkóhólisma, sem er algengur fylgifiskur með minni greiningu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eftir langa starfsævi við ýmiskonar verkamannastörf og nokkur áhlaup í háskólann skráði Georg sig í Myndlistarskóla Reykjavíkur í miðjum veikindum og kláraði skólann. Hann málar stór abstrakt verk en frægasta verkið enn þá er kannski gjörningur sem hann hélt inn á Mathöllinni á Hlemmi þar sem hann bað um orðið og hélt ræðu um fátækt á Íslandi. Þarna stóð hann í fyrrverandi strætóskýli sem hafði verið umbreytt í matsölustað fyrir hina betur settu og honum og öðrum sem hafa beðið eftir strætó í tugi ára hefur verið úthýst. Innblásturinn og það sem fyllti mælin hjá Georg var útikamar sem var settur upp fyrir utan Mathöllina til þess að halda honum og öðrum frá því að nota sama klósett og gestirnir inni á Hlemmstöð. „Þau vildu ekki að við værum að nota sama klósett, fyrst settu þau upp útikamar síðan var komin talnalás á klósettið inni og þá datt mér þetta í hug að vera með gjörning.“ segir Georg. Gjörningurinn var tekin upp og fór á netið og er með tæp 58.000 áhorf.

Georg var rekin á staðnum.

Georg vann lengst af sem sendibílstjóri á eigin bíl, keyrði út og var með sína föstu kúnna, þar á meðal Mæðrastyrksnefnd. Hann var duglegur og hafði sig frammi, hann var liðlega 30 ára þegar bílstjórarnir treystu honum til þess að reka verkalýðsbaráttu og vera í forsvari fyrir AFL, félag 70 bílstjóra. Sendibílstjórar fóru í slag við leigubílstjórana sem borguðu ekki skatt ef þeir voru að keyra vörur og leigubílstjórarnir börðust við sendibílstjóranna á móti fyrir að flytja fólk án þess að borga af því. Þetta var mikið fjör segir Georg.

Georg var með marga viðskiptavini og keyrði út í 16 ár fyrir fiskbúð Hafliða líka eftir að ævintýramenn keyptu fjórar aðrar fiskbúðir og mynduðu búðarkeðjuna Fiskisaga. Georg var eini gamli starfsmaðurinn sem var eftir í Hafliða sem þekkti ferlið og í kjölfarið vann hann myrkranna á milli. Hann lét hækka við sig kaupið og lifið hátt og fékk sínu fram þangað til að hann fór að gera athugasemdir við það hvernig fiskurinn var viktaður og afgreiddur sem honum fannst grunsamlegt við og Georg var rekin á staðnum. Fiskisögukeðjan átti reyndar ekki langan líftíma eins og fjöldi annarra svipaðra samruna fyrirtækja frá árunum fyrir hrun og eftir nokkra ára rekstur var fyrirtækið lýst gjaldþrota ásamt tug annarra fyrirtækja sömu eigenda.

Sokkinn ofan í hyldýpi.

Upp úr þessu hrakar heilsu Georgs verulega. Hann fann sig ekki í bílstjórahópnum lengur „endalaust tal um bíla og mótorhjól var orðið innantómt.“ Kvíðinn jókst og honum var farið að leiðast óheyrilega að keyra. Drykkjan og vanlíðan tók yfir og hann átti erfitt með að koma sér að verki. „Ég skildi og ég reyndi allt sem ég gat til þess að komast undan því að keyra. Ég lánaði þeim sem vildu sendibílinn og einn daginn bræddi vinkona mín úr bílnum, ég var henni mjög þakklátur.“

Georg strammaði sig af inn á milli og réð sig í fasta vinnu, annars vegar í mjög góða vinnu hjá Skeljungi sem hann missti „ég datt í það og hringdi ekki inn.“ Í framhaldinu fékk hann vinnu í öskunni en hann var með vinnuvélapróf og var strax gerður að verkstjóra yfir sex körlum. Þetta var góður hópur af körlum en Georg missti þá vinnu líka og þá var hann búin að missa tvær vinnur sama árið vegna alkóhólisma sem var mikið áfall fyrir sjálfstraustið.

Þegar Georg fór á Sveitina eins og hann kallar það þá þuldi ráðgjafinn í Efstaleiti upp staðina þar sem hann gæti sótt sér frekari hjálp, það eru staðir eins og Mæðrastyrksnefnd, Samhjálp og Kirkjan… „Mér leið eins og það væri að líða yfir mig … ég missti allan mátt eins og ég væri sokkinn ofan í hyldýpi.“ rifjar Georg upp.

Georg fór að sjá samfélagið frá öðru sjónarhorni og sérstaklega hvernig niðurlægingin gróf um sig hjá fólki.
Mynd: Alda Lóa.

„Ég þekkti Mæðrastyrksnefnd frá þeim tíma sem ég var að keyra út. Samtökin voru minn viðskiptavinur og ég þekkti vel til starfseminnar. Þarna kemur flóttafólk, öryrkjar, gamalt fólk, alkóhólistar með geðsjúkdóma eins og ég. Fólkið utan samfélagsins og af mismunandi ástæðum getur ekki fótað sig innan þess. Það er rík hefð fyrir því að festast í röðinni hjá Mæðrastyrksnefnd og það versta er að það venst. Lang flestir sem fara inn á þetta koma ekki aftur út. Verst var að hitta mömmu í röðinni, að sjá aðra kynslóð í fátækt. Það var eins og að vera í Englandi, þar sem fátæktin erfist frá kynslóð til næstu kynslóðar.“

Mér fannst þetta skrýtið…

Georg fór að sjá samfélagið frá öðru sjónarhorni og sérstaklega hvernig niðurlægingin gróf um sig hjá fólki. Hann hafði ekki áttað sig á þessu nokkrum árum áður þegar hann var í fullri vinnu á góðum launum og ágæta heilsu en þá hafði hann undrað sig yfir samtali milli móður sinnar og vinkonu hennar. Vinkonan var að kvarta yfir Mæðrastyrksnefnd af því hún fékk engan ost. „Mér fannst þetta skrýtið af hverju er hún að kvarta? Á hún ekki að vera ánægð með það sem henni er gefið, þetta eru vörur sem eru ekki einu sinni útrunnar,“ rifjar Georg upp.

Annað atriði sem er honum minnisstætt er þegar hann var vitni að því í Samhjálp þegar maður trylltist af bræði þegar hann fékk pizzasósu með fiskum og frönskum. Georg tekur fram að Samhjálp beri fram mjög góðan mat en þeir áttu ekki mæjó eða tómatsósu og manninum fannst niðurlægingin holdgerast í þessari pizzusósu.

„Það sem fór að renna upp fyrir mér þegar ég var komin í þessa stöðu sjálfur að við erum alltaf meðhöndluð sem annars flokks manneskjur, við munum aldrei fá góðar vörur né það besta sem völ er á. Georg tekur sem dæmi inneignarkortið upp á 10 þúsund krónur sem hann á rétt á í Rauðakrossbúðirnar. „Það er mjög gott af því að ég get tekið út vörur í búðunum þeirra. Sérstaklega eru Rauðakrossbúðirnar í miðbænum góðar og hægt að finna bæði brúklega og fallega hluti þar. En þessu var breytt kannski hafa túristarnir sótt í búðirnar í miðbænum, allavega er búið að loka fyrir okkur og við getum aðeins notað inneignarkortið í búðinni í Mjódd sem eru miklu lélegri vörur. Þegar sjálfur Rauði Krossinn er með aðskilnaðarstefnu, þá er ekkert skrýtið að fólk tryllist á endanum yfir pizzasósunni sem þér er boðið að borða með Fish and Chips hjá Samhjálp.“

Fór oft í afvötnun

Georg var fárveikur af alkóhólisma og kvíða, þunglyndi og miklar sveiflur og náði sér aldrei upp í eðlilega líðan. Hann fór oft í afvötnun og tvær hugrænar atferlis meðferðir hjá Landsspítalanum og sótti fyrirlestra hjá borginni um uppbyggjandi líferni. „Borgin stóð sig mjög vel, ásamt fyrirlestrinum fengum við alltaf glæsilegan mat að borða,“ segir Georg.

Eftir þrjú ár á sveitinni stakk ráðgjafinn upp á því við Georg að hann færi á örorku. „Ég var svo hissa, af hverju var ég ekki settur strax á örorku? En ég fékk mjög góðan félagsráðgjafa sem kenndi mér að semja og forgangsraða. Hann kenndi mér að borga hita og rafmagn og síðan að semja við Modus, en ég var komin í skuld við Félagsbústaði sem er í mjög góðu samstarfi við Modus. Ég fékk meir að segja borgað aftur í tíman sem var glópalán en ég hafði vit á því að sækja um það og í kjölfarið gat ég borgað skuldina við Reykjavíkurborg og gefið börnum mínum aur, ég fór í Bónus og keypti allt sem mig langaði fyrir 19 þúsund krónur. En svo var veislan búin og ég átti eftir að borga skatta af þessu.

Georg fær 265 þúsund krónur í örorkubætur og borgar af því 89 þúsund í leigu á mánuði. Önnur föst gjöld eru rúmar 5 þúsund í rafmagn og 8 þúsund fyrir síma og net og lyfin sem voru síðast 19 þúsund krónur.

Georg kaupir allt í Rauðakrossbúðunum nema nærföt og sokka. Hann fór þangað á tímabili á hverjum degi að leita að íþróttaskóm en fann aldrei neitt þar til eitt skiptið voru þrjú pör á hillunni og hann keypti öll þrjú. Hann notar ekki bíl og heldur matarkostnaði niðri og borðar oftast eina heita máltíð hjá Samhjálp á dag. Það er lítið afgangs fyrir tannlækni eða annarri þjónustu sem fólk þarf á að halda til þess að halda virðingu sinni.

Honum var boðin 25 prósent vinna hjá Hlutverkasetrinu og gladdist yfir 45 þúsund krónunum sem hann fékk borguð fyrir skúringarnar eða þangað til að það rann upp fyrir honum að hann missti húsaleigubæturnar sínar. Leigan hækkaði og á endanum tapaði hann 20 þúsund krónum. „Ráðherrarnir höfðu montað sig yfir þessu svigrúmi, 100 þúsund krónur sem mátti vinna sér inn ofan á bæturnar en það var engin sem minntist á það hvernig þau ætluðu sér að ná þessu á öðrum stað og aftur inn af öryrkjunum.“ segir Georg.

Ég var lengst af í sambandi við við Heiðu Björg Hilmisdóttur þegar hún var í stjórn Strætós. Við ræddum þetta fram og aftur, en niðurstaðan var sú að það væri svo flókið að öryrkjar fengu frítt í strætó.

Strætókostnaður er 15 prósent af ráðstöfunartekjum Georgs þegar hann hefur borgað föst útgjöld sín. „Ég hef verið að berjast fyrir því að fá frítt í strætó í Reykjavík og ég var lengst af í sambandi við við Heiðu Björg Hilmisdóttur þegar hún var í stjórn Strætós. Við ræddum þetta fram og aftur, en niðurstaðan var sú að það væri svo flókið að öryrkjar fengu frítt í strætó. Það virðist ekki vera flókið á Akureyri en hérna er það Flókið! Ég botna ekki í þessu af því að ég fæ frítt í sund sem betur fer, en vatnið á Íslandi og sundið sérstaklega heldur í mér lífinu.“

„Þegar manni er still upp við vegg og engir hagsmunir eru í húfi, þá er ekki lengur neinu að tapa og ég fór í kjölfarið að vekja athygli á óréttlætinu. Þrisvar sinnum hef ég verið tekin með lögregluvaldi úr strætó þegar ég hef neitað að borga. Eitt sinni sagðist ég vera fátækur Filippseyingur og í annað sinn var ég með sólgleraugu og þóttist vera blindur og fékk vinkonu mína til þess að leiða mig inn. Lögreglan kom og ég var dregin út en hvað gat hún gert við 50 ára gamlan karl sem lagðist á gólfið í strætó, hver gerir svoleiðis á Íslandi? Löggan var hálf ráðalaus þegar ég sagði þeim að ég væri þreyttur og svangur, sem var staðreyndin.“

Ég er í dauðafæri að búa til fallegt líf.

Georg er með plan, hann ætlar að breyta heiminum og eyða fátækt með kænsku og kærleika. Upp á vegg hjá sér hengdi hann upp ljósmynd af sér þegar hann var 8 ára gamall. Myndin er tekin þegar hann var bjartsýnt og forvitið barn sem tók heiminum fagnandi, hún er frá þeim tíma áður en skömmin og eymdin tók yfir vegna félagslegra aðstæðna. Georg leitaði í kraftinn frá þessum Töfrastrák þegar hann fór með gjörning sem hann hélt á Jómfrúnni í Lækjargötu yfir alþingisfólkinu og ráðherrunum við snæðing á dönsku smörrebrauði. Hann sagði þeim af 10.000 börnum á Íslandi sem lifa við fátækt, mörg þeirra eru börn öryrkja og ekki eitt einast þeirra ætti að þurfa að lifa við skömm af hálfu samfélagsins. Georg var tekin með handafli og hent út af Jómfrúnni.

„Ég er að vona að ég verði edrú alltaf það sem eftir er. Ég hef fundið takt í líf mitt sem er taktur kærustunnar minnar og hún er frá austur Evrópu og kann að lifa spart. Ég er hrikalega skotin í henni. Ég var lengi skotin í henni úr fjarlægð en hún tók ekki eftir mér fyrr en ég klippti mig. Ég hef gefið listagyðjunni líf mitt og ætla að halda áfram að gera list sem hefur pólitískan tilgang. Ég er í dauðafæri að búa til fallegt líf, en ég má ekki drekka.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: