- Advertisement -

Til varnar íslenzku rjúpunni

Fáar lífverur á Íslandi hafa verið ofsóttar og hrelldar, meiddar og níddar til dauða í jafnmiklum mæli og rjúpan.

Ole Anton Bieltvedt skrifar:

Eins og allir vita, er rjúpan fallegur, skaðlaus og varnarlaus lítill fugl, sem auðgar og skreytir lífríkið. Rjúpan er lykiltegund í íslenzku vistkerfi og einn einkennisfugla íslenzkrar náttúru. Flestum, sem unna dýralífi, náttúru og umhverfi, mun þykja vænt um þessa litlu, fallegu og friðsælu veru, sem prýðir og gleður með fegurð sinni og líflegu korri.

Þróaðir lifnaðarhættir

Þú gætir haft áhuga á þessum

Karrinn helgar sér óðal í apríl og 2-3 vikum síðar veljast hæna og karri saman. Ef bæði lifa, bindast þau böndum alla ævi. Rjúpan er því „einkvænisdýr“.  Óðal karrans verður þeirra sameiginlega heimili svo lengi sem bæði lifa. Við eðlilegar aðstæður getur hænan orpið allt að 12 eggjum. Meðalvarp á Íslandi er þó ekki nema 7-8 ungar. Meðan ungarnir eru að vaxa úr grasi dvelur karrinn í nánd við hreiðrið og gætir hænu og unga. Báðir foreldrar afla fæðu og fóðra ungana saman.

Hörð lífsbarátta

Tal um „skynlausar skepnur“ er reyndar tal grunnhygginna manna og heimskra.

Fæðuleit er oftast einföld á sumrin, en rjúpan lifir aðallega á rjúpnalaufi, krækilyngi, bláberjalyngi, birki og grasvíði. Þegar haustar, verður lífsbarátta rjúpunnar oft hörð, einkum í harðæri og miklum snjóavetrum. Til marks um þroska og skyn rjúpna má nefna að á vetrum gera þær snjóhús saman þar sem þær dvelja yfir daginn. Í morgunsárið fara þær svo af stað í fæðisleit, sem oftast er hópvinna. Það er því langt í frá að rjúpan sé „skynlaus skepna“ frekar en neitt annað dýr. Tal um „skynlausar skepnur“ er reyndar tal grunnhygginna manna og heimskra.

Elt og ofsótt – dráp skemmtun og sport veiðimanna – hvergi griðland

Rjúpan hefur verið elt, ofsótt og drepin í gegnum tíðina, framan af af þörf í harðbýlu landi, en það er langt síðan þessi þörf var til staðar. Nú flokkast rjúpnadráp undir tómstundagaman og skemmtun, jafnvel sport. Í mínum augum er orðið „sport“ yfir að elta, ofsækja, limlesta og níða niður saklausar og varnarlausar lífverur, sem ekkert hafa sér til sakar unnið, óheyrilegt. Náttúran hefur gefið rjúpunni 3 fjaðurhami á ári til að verjast erkifjandanum, manninum, en það dugar skammt. Rjúpnaveiðimenn eru vopnaðir nýjustu sjónaukum og sjálfvirkum haglabyssum, marghlæðum, og er rjúpunni vart undankomu auðið þegar dauðasveitin, yfirleitt um 5-6.000 veiðimenn, er komin í veiðiham.

Þróun rjúpnastofnsins síðustu öld og áratugi

Á framanverðri síðustu öld, taldist rjúpnastofninn, hauststofninn,  5 milljónir fugla, þrátt fyrir allan náttúrulegan ágang, m.a. fálka, refa og sníkjudýra, þá um ár og aldir. Með stjórnlitlum ágangi og veiðum manna var svo komið árið 2002 að hauststofninn var, í fyrsta sinn, kominn niður í 300 þúsund. Þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, kona með bein í nefinu, ákvað þá að friða rjúpuna í 3 ár; árin 2003, 2004 og 2005. Árangurinn var sá, að stofn rjúpu nær tvöfaldaðist 2003 og styrktist aftur verulega 2004. Var hann það haust kominn í um 800 þúsund fugla. Hefði friðun haldizt áfram, eins og Siv hafði ákveðið, hefði stofninn eflaust styrkst aftur verulega 2005. En nýr umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, Sjálfstæðisflokki, tók við en hún virðist ekki hafa haft sama skilning á mikilvægi íslenzkrar náttúru og lífríkis, villtra dýra landsins, og Siv, því hún gaf eftir fyrir ágangi blóðþyrstra veiðimanna og leyfði veiðar aftur haustið 2005. 2020 var stofninn svo aftur kominn niður í  300 þúsund fugla, og er hann þar enn. Hefði Sivjar notið við hefði hún eflaust verið búin að friða aftur, en fyrst var Guðmundur Ingi, sem lét grimma og harðsækna veiðimenn mest vaða yfir sig, í forsvari, og svo tók Guðlaugur Þór, sjálfur alræmdur veiðimaður, við. Ekki góðs að vænta.

Nú má svo veiða lengur og meir en um langt árabil

Svei!

Þrátt fyrir þessa veiku stöðu rjúpnastofnsins síðustu 2-3 árin má nú í ár veiða lengur og meir en í fyrra og öll síðustu árin. Í fyrra mátti veiða 24 daga, en bara frá kl. 12:00 á hádegi. Jafngildir sá sóknartími því 12 heilum veiðidögum. Í ár mælir Umhverfisstofnun, þar sem Bjarni Jónasson og Steinar Rafn Beck fara með málin, auðvitað undir stjórn og á ábyrgð forstjórans, Sigrúnar Ágústsdóttur, með 25 veiðidögum, allan daginn, sem er þá helmingi meiri veiðitími en í fyrra þó að stofnstyrkur bæði árin hafi verið ámóta veikur, um 300 þúsund fuglar. Þótti Guðlaugi Þór þetta greinilega bara fínt og lagði fljótt og vel blessun sín yfir þessa tvöföldu sókn. Það hvarflar að manni hvort þeim mönnum, sem þessu stjórna, sé ekki sjálfrátt!?

Mun meiri „veiðiafföll“ en talið var – alvarlegt dýraníð

Veiðimenn kalla það „veiðiafföll“ þegar þeir skjóta á fljúgandi fugla, sem reyna að forða sér, limlesta þá og særa án þess að drepa endanlega og geta þessi blessuðu helsærðu dýr komið sér undan, til þess eins þó, að kveljast til dauða – oft úr blýeitrun – fjarri veiðimanni.  Er greinilegt, að mikill fjöldi fugla hefur verið níddur til dauða með þessum ömurlega hætti ár hvert og væri „níðdráp“ réttnefni yfir þetta athæfi. Lengi var talið að fjöldi þessara fugla væri „aðeins“ 10%, en útreikningar vísindamanna frá í sumar sýna að þessi tala er rétt minnst þreföld. Við þessar veiðar fer því fram alvarlegt og stórfellt dýraníð, sem nær til minnst 10-20 þúsund fugla.

Mál til komið að rjúpan fái grið og frið – er líka á válista

Fáar lífverur á Íslandi hafa verið ofsóttar og hrelldar, meiddar og níddar til dauða í jafnmiklum mæli og rjúpan. Það er mál til komið, að fuglinn fagri og friðsæli, sem er lykiltegund í íslenzku vistkerfi og prýðir það og skreytir, fái grið og frið. Náttúrufræðistofnun Íslands heldur úti „Válista fugla“. Á þessum lista stóð rjúpan undir fyrirsögninni „Tegundir í yfirvofandi hættu“ árið 2018. Eftir það hefur ástand rjúpnastofnsins hríðversnað, er mun lakara nú en þá. Hvernig getur stofnun, sem setur rjúpuna á þennan válista, átt þátt í því að ofsóknir gegn fuglinum séu nú tvöfaldaðar, auknar um helming, frá því, sem var í fyrra!? Svei!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: