- Advertisement -

Jóna Þórey kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

Jóna Þórey Pétursdóttir var á sambandsþingi LUF fyrr í dag kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda. 

Jóna er forseti Rannveigar – Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi og var tilnefnd fyrir hönd UJ á þingið. Hún var forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands á árunum 2019-2020 þar sem hún barðist m.a. fyrir mannúðlegra háskólasamfélagi og mótmælti ósiðlegum tanngreiningum á fylgdarlausum börnum og ungmennum á flótta í samstarfi við No Borders Iceland. Hún kom að skipulagningu jafnréttisþings forsætisráðuneytisins árið 2020 og tók þátt í pallborði á Women Political Leaders Forum. Þá sótti hún loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2019, COP25 og tók þar þátt í pallborðum til að krefjast raunverulegra aðgerða í þágu framtíðarkynslóða.

Í námi hennar við lagadeild Háskóla Íslands hefur Jóna sérhæft sig eins og hægt er í mannréttindum og skrifaði meistararitgerð sína um félagsleg réttindi. Stór hluti umfjöllunarinnar voru mannréttindi í alþjóðlegu samhengi og samþykktir og samningar af vettvangi Sameinuðu þjóðanna voru grandskoðaðir. Jóna hlaut nýlega inngöngu í Human Rights Law meistaranám í University of Edinburgh fyrir næsta skólaár og mun þar sérhæfa sig enn frekar í mannréttindalögfræði og loftslagsréttlæti eða „climate justice“.  „Ég er þeirrar skoðunar að hérlendis þurfi að hækka styrkinn í kynjagleraugunum og halda áfram baráttunni í þágu jafnréttis kynjanna því hún er langt frá því að vera búin. Í alþjóðlegu samhengi þarf Ísland að vera hvetjandi og styðja við baráttu kvenna og einstaklingum af öllum kynjum í öðrum ríkjum, á sama tíma og við segjum hlutina eins og þeir eru, það er enn langt í land. Mannréttindi, hvort sem þau eru á sviði jafnrétti kynja, loftslagsvárinnar, aðgengis að menntun, hættu sem steðjar að þeim sem þurfa að flýja heimili sín eða félagslegum og efnahagslegum réttindum, eru mér hjartans mál. Ég hlakka því til að takast á við þetta hlutverek, takk fyrir mig.“

Mynd: Kristinn Ingvarsson. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: