- Advertisement -

„Ástandið er auðvitað ekki alslæmt“

Sigurjón Magnús Egilsson:

Við höfum hæstu vextina, mestu verðbólguna, lakasta kaupmáttinn og áfram er eflaust hægt að telja. Já, og lökustu ríkisstjórnina í okkar heimshluta.

„Þá má ekki gleyma skattfrjálsri ráðstöfun séreignarsparnaðar í gegnum úrræði sem við þekkjum, fyrsta íbúð, sem styttir verulega þann tíma sem tekur að spara fyrir íbúð hjá þeim sem nýta úrræðið, ekki síst hjá tekjulágum,“ þetta er bdein tilvitnun í núverandi fjármála- og efnahagsráðherra Íslands, Þórdísi K.R. Gylfadóttur.

Hún var að tala um áhrif hárra vaxta fyrir heimilin. Það er með hreinum ólíkindum að manneskja, sem sinnir þessu embætti, skuli halda að það sé fátækasta og tekjulægsta fólkið í landinu, sem eigi séreignarsparnaðinn. Það eru hin ríkustu sem eiga meginþorra séreignarsparnaðarins. Ekki fólk sem þarf að sæta lagi hvern einasta mánuð til að eiga fyrir mat út mánuðinn.

„Ég hef að sjálfsögðu samúð með fólki sem hefur nýlega tekið fasteignalán en býr við allt annað vaxtaumhverfi nú, sem er óviðunandi staða. Verðmæti eigna þessa fólks hefur þó hækkað, oft verulega, á undanförnum mánuðum,“ sagði ráðherrann og sýnir enn og aftur að ráðherrum er lífsins ómögulegt að skilja vanda fólks. Hafi verð íbúða hækkað er það ekki neitt sem gagnast fólki í því ástandi sem efnahagsstjórnin hefur hellt yfir fólk.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Skoðum betur:

„Kaupmáttur, einkum þeirra verst settu hefur vaxið og síðan haldist.“

„Þess vegna er það enn frekar óviðunandi staða hjá fólki sem á ekki eigin fasteign en hefur verið að safna fyrir henni. Sá sparnaður hefur brunnið upp í verðbólgu, einkum með hratt hækkandi fasteignaverði, og þröskuldurinn fyrir þessa einstaklinga inn á fasteignamarkað hefur hækkað allt of mikið. Ástandið er auðvitað ekki alslæmt af því að verðbólgan er sem fyrr segir vegna mikillar eftirspurnar, sem leiðir af sterkri fjárhagsstöðu heimila og góðu atvinnuástandi þar sem atvinnuleysi hefur verið lágt og kaupmáttur, einkum þeirra verst settu, hefur vaxið og síðan haldist.“

Þórdís K.R. Gylfadóttir talar út og í. „Ástandið er auðvitað ekki alslæmt,“ segir hún. Hvar í heiminum býr þessi kona? Við höfum hæstu vextina, mestu verðbólguna, lakasta kaupmáttinn og áfram er eflaust hægt að telja. Já, og lökustu ríkisstjórnina í okkar heimshluta.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: