- Advertisement -

Baráttan er gegn verðráðandi fákeppnisfyrirtækjum

Marinó G. Njálsson skrifar:

Hvar eru raddir þessara aðila, þegar almennt launafólk og lífeyrisþegar þurfa stuðning í baráttu sinni við fákeppnisaðilana? Hvers vegna eru fyrstu viðbrögðin að bera blak af sjálfum sér og ráðast á umræðuna, en ekki gagnrýna sökudólgana og styðja við umræðuna?

Ítrekað gerist það, að fyrirtæki í þessu samfélagi brjóta illa á neytendum með alls konar samráði eða óútskýrðum hækkunum á verði vöru og þjónustu. Sé fjallað um þetta, þá stíga að jafnaði fram aðilar, sem einnig eru í atvinnurekstri, og gagnrýna að verið sé að gagnrýna spillinguna. Nú eða þegja þunnu hljóði til að vekja ekki athygli á sér.

Þetta gerðist í eftirmála hrunsins, þegar Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýndu bankana fyrir framgöngu þeirra og sérstaklega hvað varðaði hina ólöglegu gengistryggingu lánanna. Einnig gerðist þetta þegar verðsamráð olíufélaganna kom upp, þegar verðráðandi fyrirtækjasamsteypur hafa keyrt upp vöruverð og þar með verðbólgu, þegar Seðlabankanum hefur mistekist að halda stöðugleika og mörg fleiri dæmi mætti taka.

Ég held að lítið fari á milli mála, að barátta Hagsmunasamtaka heimilanna vegna gengistryggðu lánanna hafi komið mjög mörgum fyrirtækjum til góða. Samt man ég ekki eftir nema einu fyrirtæki sem veitti HH styrk/viðurkenningu fyrir baráttu samtakanna. Við vorum svo sem ekkert að biðja um það, en það var vissulega hjákátlegt, þegar ein samtök fyrirtækja réðu til sín sem framkvæmdarstjóra mann sem í sínu fyrra starfi hafði veist að HH fyrir baráttuna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvenær ætla lítil, millistór og raunar alveg þokkalega stór fyrirtæki að uppgötva, að baráttu neytenda er ekki beint gegn þeim, heldur verðráðandi, fákeppnisfyrirtækjum sem hafa tökin og völdin á Íslandi. Í hvert sinn sem neytendur vilja að réttur þeirra sé virtur, þá ætti það að nýtast litlum, meðalstórum og alveg þokkalega stórum fyrirtækjum líka. Fyrirtækjunum, sem ekki eru verðráðandi á markaði og þurfa að kyngja eða sitja undir ákvörðunum stóru aðilanna, að ég tali nú ekki um bankana. Það eru síðan þessi fyrirtæki, hverra verð á vöru og þjónustu mælist lítið sem ekkert í vísitölu neysluverðs, sem sitja uppi með kostnaðinn af hærra vöruverði, bæði í aðföngum sínum og launakostnaði.

Hvar eru raddir þessara aðila, þegar almennt launafólk og lífeyrisþegar þurfa stuðning í baráttu sinni við fákeppnisaðilana? Hvers vegna eru fyrstu viðbrögðin að bera blak af sjálfum sér og ráðast á umræðuna, en ekki gagnrýna sökudólgana og styðja við umræðuna? Hvers vegna taka þessi fyrirtæki ekki undir með gagnrýnisröddunum? Við sem stöndum í þessum skrifum, vitum alveg að þáttur minni fyrirtækjanna er lítill og kostnaður þeirra mikill. Við vitum að þau eru alveg jafn mikið fórnarlömb og launafólkið og lífeyrisþegarnir. Standið því með okkur!

Greinina birti Marinó á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: