- Advertisement -

Stóru fákeppnisfyrirtækin sýni ábyrgð

Marinó G. Njálsson skrifar:

Hættið því að hamast í launþegahreyfingunum og kallið eftir því að stór fákeppnisfyrirtækin á markaði sýni ábyrgð.

Finnur Oddsson forstjóri Haga.

Ég var um daginn aðeins að narta í hælana á forstjóra Haga, þar sem hann sagði matvöruverð ekki hátt á Íslandi sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. ASÍ hefur birt verðkönnun, sem framkvæmd var í síðustu viku. Í ljós kemur að matarkarfa ASÍ hækkaði um 12,3% í Bónus á 46 vikum (frá 17. október 2022) sem jafngildir 13,9% árshækkun og um 16,0% í Hagkaup, sem jafngildir 18,1% á ársgrunni. Kostnaður þeirra vegna launakostnaðar almennra starfsmanna þessara fyrirtækja hækkaði um líklega 1,5% á sama tíma. Sé þetta borið saman við hækkun launavísitölu síðustu 12 mánaða, sem var (ef ég man rétt) um 11,5%, þá er hækkun matarkörfunnar hjá Hagkaup 57,4% meiri en hækkun launavísitölunnar. Það er nokkuð vel af sér vikið hjá fyrirtæki sem er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóðanna.

Hjá samkeppninni, sem Bónus og Hagkaup vilja miða sig við, þá hækkað matarkarfan um 6,5% (7,3% á ársgrunni) hjá Fjarðarkaupum, 8,0% (9,0% á ársgrunni) hjá Heimkaupum, 10,1% (11,4% á ársgrunni) og 10,6% (12,0% á ársgrunni) hjá Nettó. Þrjú þeirra héldu sér undir hækkun launavísitölunnar og það fjórða rétt fyrir ofan. Vissulega er Bónus enn með ódýrustu matarkörfuna, en þess verður ekki lengi að bíða, að græðgi stjórnenda og eigenda Haga verður til þess að Bónus verði þriðja lægst.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans er krónan á svipuðu róli núna og í október í fyrra, þannig að ekki er veiking krónunnar að toga upp vöruverð. Nei, staðreyndin er, eins og oft áður, þá gengur einstaklega illa hjá matvöruverslunarkeðjunum að sleppa takinu af verðhækkunum og þær hanga á þeim eins og hundur á roði.

Skilaboð til Seðlabankans. Þarna finnið þið ástæðu þess, að illa hefur gengið að ná verðbólgunni niður. Lækkunartakkinn er greinilega bilaður hjá matvörukeðjunum og þær hamast á hækkunartakkanum í þeim misskilningi að virkni hans breytist. 1,5% hækkun vegna launakostnaðar nær ekki einu sinni að vera 1/10 af hækkun matarkörfunnar. Hættið því að hamast í launþegahreyfingunum og kallið eftir því að stór fákeppnisfyrirtækin á markaði sýni ábyrgð.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: