- Advertisement -

Kominn tími til að almenningur móti samfélagið

„Því miður ná sérhagsmunir hinna fjársterku ætíð að trompa almannahag. Það er staðan sem við, almenningur á Íslandi, búum við.“

Staða neytenda á Íslandi er ekki sterk. Því miður ná sérhagsmunir hinna fjársterku ætíð að trompa almannahag. Það er staðan sem við, almenningur á Íslandi, búum við. Valdahlutföll á öllum mörkuðum eru ójöfn. Réttur neytenda er veikur og rödd þeirra veik, nær ekki eyrum stjórnvalda. Þetta ójafnvægi getur af sér óheilbrigða markaði og óheilbrigður markaður getur af sér fákeppni og okur; hátt vöruverð, allt of háa vexti og allt of háa húsaleigu. Án öflugrar hagsmunagæslu eru neytendur varnarlausir á óheilbrigðum markaði. Það má treysta því að fyrirtæki, bankar og leigusalar munu ganga eins langt og þau komast í samskiptum sínum við neytendur, muni ganga eins langt og við leyfum. Ef við viljum ekki að fyrirtækin valti yfir okkur neytendur, verðum við að rísa upp, sameinast og nota samtakamáttinn til að verja hagsmuni okkar. Fyrsta skrefið er endurreisn Neytendasamtakanna.

Við eigum að viðurkenna að Neytendasamtökin á Íslandi eru of veik. Það er hluti af batanum að horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Þrátt fyrr öflugt starfsfólk eru samtökin á Íslandi miklum mun veikari en sambærileg samtök í nágrannalöndum okkar. Neytendasamtökunum hefur skort fjármagn og styrk til að aga markaðinn með líkum hætti og neytendasamtök í nágrannalöndunum hafa gert. Neytendasamtökin hafa þurft að troða marvaðann til að halda samtökunum á floti. Á meðan er andstæðingurinn vel skipulagður og fjársterkur, hefur sterka rödd sem nær eyrum stjórnvalda. Stjórnvöld starfa í umboði almennings og ættu því að sjá sóma sinn í því að tryggja öfluga starfsemi óháðra almannasamtaka sem standa vörð um hagsmuni neytenda. En það er ekki nóg að gera kröfur á stjórnvöld. Til að efla Neytendasamtökin þarf að stórfjölga félagsfólki og byggja með því virk og öflug almannasamtök. Aðeins með virkri þátttöku félaga innan öflugra almannasamtaka, mun okkur takast að stöðva okur á markaði og óheiðarleika fyrirtækja. Sameinuð getum við allt, sundruð munum við engu fá áorka.

Sterk og öflug Neytendasamtök eru forsenda þess að almenningur geti haft áhrif á markaðinn. Sterk og öflug Neytendasamtök eru forsenda þess að okkur takist að aðlaga löggjöf að hagsmunum neytenda og tryggja að framkvæmdavaldið framfylgi þeim lögum. Sterk og öflug Neytendasamtök eru forsenda þess að neytendur geti agað fyrirtæki með beinskeyttum aðgerðum gegn okri og brotum gegn neytendum. Stjórnvöldum ber að þjóna hagsmunum almennings og þeim ber því að tryggja Neytendasamtökunum fjármagn til að halda úti öflugri starfsemi. Þeir fjármunir munu skila sér í lægra verði og aukinni neytendavernd, munu skila sér margfalt til baka til almennings. Það er mikilvægt að Neytendasamtökin setji fram kröfur með þessum hætti. Þeir veiku þjónustusamningar sem samtökin hafa gert við ríkisvaldið í raun dregið afl úr samtökunum Í reynd hefur félagsfólk Neytendasamtakanna greitt niður þjónustu sem ríkið kaupir. Í stað þess að sjúga afl úr samtökunum eiga stjórnvöld að gera Neytendasamtökunum kleift að móta markaði að þörfum almennings. Öflug Neytendasamtök eru frumskilyrði þess að markaðir hér þroskist.

Þegar við höfum viðurkennum að Neytendasamtökin eru of veik ber okkur að hefja strax umræðu um stöðu neytenda á Íslandi og hvernig Neytendasamtökin geti orðið að sem mestu gagni. Verður það best gert í samvinnu við verkalýðshreyfinguna? Verður það best gert með samstarfi við önnur neytendasamtök; samtök leigjenda, skuldara, bifreiðareigenda og svo framvegis? Verður það best gert með því að byggja upp deildir innan samtaka fyrir fólk sem vill berjast gegn yfirburðastöðu eigenda tryggingarfélaganna, fólki sem vill berjast gegn eiturefnum í mat og öðrum afleiðingum iðnvæðingar matarins, fólki sem vill berjast fyrir rétti skuldara, barna eða ungmenna? Verður það best gert með því að byggja upp landsamtök með neytendafélögum í hverju landshluta? Þurfum við að endurskoða innra starf samtakanna, virkja betur afl lýðræðis og og opna samtökin fyrir yngra fólki eða innflytjendum?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við kunnum ekki svör við öllum þessum spurningum. Reynslan sýnir að það er ekki heillavænlegt fyrir almannasamtök að kjósa fólk til forystu sem vill vera allt í senn; samtökin sjálf, stefnan og styrkurinn. Við bjóðum okkur fram til starfa fyrir Neytendasamtökin vegna þess að við viljum finna styrkinn sem býr meðal félaga Neytendasamtakanna og byggja upp öflug almannasamtök. Þegar okkur tekst að styrkja Neytendasamtökin mun samstaða okkar tryggja árangurinn.

Það er kominn tími til að almenningur móti samfélagið eftir sínum hagsmunum og væntingum. Það er kominn tími til að neytendur rísi upp. Við biðjum um umboð félagsfólks í Neytendasamtökunum til að leiða baráttu neytenda næstu ára.

Rán Reynisdóttir, frambjóðandi til formanns Neytendasamtakanna

Ásta Gréta Hafberg, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

Daníel Örn Arnarsson, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

Einar Bergmundur, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

Erna Hlín Einarsdóttir, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

Friðrik Boði Ólafsson, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

Guðrún Þórsdóttir, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

Halla Gunnarsdóttir, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

Margrét Pétursdóttir, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

Pálína Sjöfn Þórarinsdóttir, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

Sigurður H. Einarsson, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

Védís Guðjónsdóttir, frambjóðandi til stjórnar Neytendasamtakanna

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: