- Advertisement -

BB og BVG á Alþingi: Delluspurning sem verðskuldar ekki svar

Alþingi Til harðra orðaskipta kom milli Björns Vals Gíslasonar, varaformanns Vinstri grænna, og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Alþingi, um veiðigjöld.

Björn Valur hóf umræðuna og sagði þá að að við upphaf síðasta kjörtímabils hafi verið myndaður starfshópur til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og leggja fram tillögur til breytinga á þeim, sem hvað mest sátt mætti nást um. „Þetta var fjölmennur hópur, skipaður fulltrúum allra þingflokka sem þá sátu á þingi, fulltrúum stéttarfélaga, sjómanna og landverkafólks, útgerðarmanna, atvinnurekenda og sveitarfélaga svo einhverjir séu til taldir.“

Björn Valur sagði síðan að árinu 2012 fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 hafi verið sett lög á um veiðigjöld sem höfðu það að markmiði að veiðigjöldin tækju mið af afkomu sjávarútvegsins. „Það fiskveiðiár voru veiðigjöldin 12,8 milljarðar. Þau hafa síðan lækkað jafnt og þétt frá því þau voru fyrst sett á, þ.e. fiskveiðiárið 2012/2013. Samtals nemur lækkunin um 9 milljörðum kr., þ.e. sem veiðigjöld hafa lækkað á yfirstandandi kjörtímabili. Það er ekki vegna þess að það gangi illa í sjávarútveginum, það gengur býsna vel í sjávarútveginum, reyndar aldrei gengið betur, sem betur fer, heldur vegna þess að þetta eru pólitískar ákvarðanir.“

„Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra núna þegar svo er komið að veiðigjöld nema um 7,5 milljörðum kr., sem eru tíundi hluti af arðseminni í greininni, hvort honum finnist það eðlileg og sanngjörn skipting á arðsemi af sjávarauðlindinni að einn tíundi renni til ríkisins, eiganda auðlindarinnar, en nítíu prósent verði eftir hjá greininni sjálfri,“ sagði Björn Valur Gíslason.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hærri veiðigjöld nú en áður

„Þetta var alveg dæmigerð ræða fyrir hugsunarhátt vinstri manna gagnvart atvinnulífinu, þ.e. að skammta sér einhverja tiltekna fjárhagslega stærð úr einhverri ákveðinni atvinnugrein,“ svaraði Bjarni Benediktson.

„Staðreyndin er sú að þessi ríkisstjórn mun á kjörtímabilinu taka tugi milljarða í veiðigjöld sem er langt, langt umfram það sem vinstri stjórnin gerði á sínu kjörtímabili, langt umfram það. Það er auðvitað ekki nóg. Útvegurinn mun líka skila tugum milljarða í tekjuskatta og launatengda skatta. Það er auðvitað heldur ekki nóg. Sjávarútvegurinn er eina greinin á Íslandi og eina sjávarútvegsgreinin í heiminum sem skilar sköttum af því tagi og í þeim mæli sem gert er á Íslandi. Það er auðvitað ekki heldur nóg.“

Mikill kurr og frammíköll voru í þingsalnum, en Bjarni hélt áfram:

„Menn hafa hér verið að keppast við að finna leiðir til þess að vega frekar að greininni sem mun á endanum ekki leiða til annars en að menn muni fjárfesta minna, arðurinn mun minnka og skattstofninn sem menn halda að sé bara einhver gefin stærð mun hverfa.. Þannig mun þetta verða. Niðurstaðan er sú hjá þessari ríkisstjórn að stilla gjöldunum þannig fram að þau séu sanngjarnari. Við erum að fá til okkar milljarðatugi umfram það sem vinstri stjórnin tók, en álagningin er sanngjarnari. Það er góð niðurstaða fyrir sjávarútveginn og fyrir þjóðina.“

 Hvað er hægt að gera við níu milljarða?

„Spurningin var mjög einföld og eðlileg. Ég bið hæstvirtan. ráðherra að hlusta aftur. Finnst honum það eðlileg skipting á arðsemi sjávarútvegsins að ein króna af hverjum tíu renni til ríkisins, en níu verði eftir hjá greininni? Ég skal gefa honum svarmöguleika: a) já, b) nei, til að auðvelda honum svarið. Hitt er rangt hjá hæstvirtur ráðherra, að halda því fram að ég hafi sagt að 12,8 milljarðar á fyrsta fiskveiðiárinu væri einhver eðlileg tala. Það var fyrsta talan. Veiðigjöld væru hærri í dag ef við hefðum fylgt þeim.“

Þegar hér var komið var nokkur æsingur í þingsal og forseti barði í bjölluna. „Það er óþarfi að berja í bjölluna mín vegna, herra forseti, ég ræð alveg við þá einn,“ sagði Björn Valur og hélt áfram: „Veiðigjöld í dag væru mun hærri tala ef hægri stjórnin hefði ekki farið að hræra í lögunum og skera niður gjöldin. Hvað er hægt að gera við níu milljarða? Það er ríflega eitt prósent lækkun á tryggingagjaldi sem dæmi, það er ríflega eitt prósent lækkun á tryggingagjaldinu sem hæstvirtur fjármálaráðherra kvartar hér yfir að geti ekki lækkað vegna þess að sé ekki svigrúm til þess. Það má gera ýmislegt fyrir 9 milljarða.“

Ætla að hækka veiðigjöld um tíu milljarða

„Ég ætla ekki að svara þessari spurningu vegna þess að fullyrðingin er röng. Það er ekki þannig að ein af hverjum tíu krónum fari í vasa þeirra sem gera út. Þetta er bara rangt. Þetta er bara delluspurning sem verðskuldar ekki svar,“ sagði Bjarni Benediktsson.

„Hins vegar er það líka rangt að hér hafi verið lögð á 12,7 milljarða veiðigjöld á árinu 2012. Það sem var innheimt í veiðigjöld árið 2012 eru 9,7 milljarðar. Það skeikar ekki nema 3 milljörðum. Það eru ekkert nema rangfærslur að það sem innheimt var árið eftir séu 3 milljörðum minna vegna þess að árið eftir voru innheimtir 9,2 milljarðar. Það sem hv. þingmaður hefur flaskað á að gera hér er að taka tillit til alls konar afslátta sem eru í kerfinu og leiða til þess að innheimt eru mun lægri.  Svona er þetta.“

Frammíköllin jukust og forseti varð ítrekað að biðja þingmenn um að róa sig.

„Það er bara ágætt að það komi fram að þeir sem tala fyrir þennan málstað þeir ætla að hækka veiðigjöldin um 10 milljarða.“

„Þetta er þannig að þeir sem héldu að vinstri stjórnin ætlaði ekki að standa við að hækka veiðigjöld í 20 milljarða þurfa ekki lengur að efast vegna þess að hér er það boðað að  veiðigjöld yrðu hækkuð um 10 milljarða ef þessir menn fengju að ráða og þeir sem hækkuðu  tryggingagjaldið stanslaust á síðasta kjörtímabili en lækkuðu það ekki eru nú farnir að tala um að þeir mundu hafa lækkað það.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: