- Advertisement -

Bjarni afhjúpar eigin grimmd

Ég vona af öllu hjarta að engir nema forhertustu grimmdarseggirnir taki undir með honum.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Fjármálaráðherra ræðst á Öryrkjabandalagið og segja hárbeitt ádeilu-myndband bandalagsins „misheppnað“. Hann gerir lítið úr neyð fólks og þykist ekki skilja boðskapinn sem er þó svo einfaldur: Örorkubætur eru nú miklu lægri en lágmarkslaun sem þó eru, eins og öll þau sem unnið hafa fyrir þeim geta vitnað um, svo lág að erfitt er að komast af á þeim. Manneskja sem þarf að komast af á örorkubótum er í mikilli hættu, hafi hún ekki einhvern sem hleypur undir bagga með henni, á að lifa í fátækt. Enda er það svo að fjöldi öryrkja þarf að leita á náðir hjálparsamtaka til að fá mat, aðstoð til að kaupa nauðsynleg lyf, til að fá fatnað og til að fá aðstoð við að útvega jólagjafir handa fjölskyldum sínum. Þetta kemur fram í því sem næst hvert skipti er rætt er við fulltrúa Hjálparstofnunar kirkjunnar eða Fjölskylduhjálparinnar.

Þetta reynir fjármálaráðherra að breiða yfir með því að afvegaleiða umræðuna og tala um fjölgun fólks sem ekki getur unnið. Hann reynir að skapa stemmningu þar sem við förum að velta því fyrir okkur hversu mikil „örorkubyrði“ er á Íslandi og hvað það er mikill kostnaður sem fylgir henni fyrir ríkissjóð. Hann stundar „dog whistling“; segir hlutina ekki hreint út en þau sem vilja skilja boðskapinn: Margt fólk er ekkert öryrkjar í alvöru. Þau eyðileggja fyrir þeim sem vinna og líka fyrir þeim sem eru alvöru öryrkjar, „þeim sem aldrei fengu tækifæri í lífinu eða urðu fyrir áföllum“ eins og fjármálaráðherra orðar það. Það er fólkið sem raunverulega á betra skilið en hefur það slæmt af því að fjölgun hinna er svo mikil og þessvegna enginn peningur eftir.

Hversu langur tími myndi líða þangað til að ekki væri lengur hægt að nýta mig til vinnu og ég yrði byrði á Bjarna og hinum ríku mönnunum á Íslandi?

Fyrir þremur árum síðan lenti ég í alvarlegu slysi. Ég brotnaði illa og mér var púslað saman með plötu og ótal skrúfum. Ég er með 10% varanlega örorku eftir þetta slys. Það er ekki mikið en mér er samt eiginlega alltaf illt. Þegar það er mikið að gera hjá mér og ég er undir miklu álagi verður mér mjög illt. Ég tek verkjatöflur á eiginlega hverjum degi. Ég fer til sjúkraþjálfara. Ég hef verið að lesa mér til um hvaða áhrif það hefur að lifa með krónískum sársauka af því mér finnst það hafa breytt mér töluvert mikið. Krónískur sársauki getur til dæmis haft mikil áhrif á svefn og ég er í fyrsta skipti á ævinni að glíma við svefnvandamál núna, þrátt fyrir að svona langt sé liðið frá því að ég slasaðist og ég hafi náð eins góðum bata og hægt er. Ég þarf að sætta mig við verki sem lífs-ferðafélaga .

Ég veit að það væri útilokað fyrir mig að höndla fulla vinnu í leikskóla. Hvað þá að ég gæti verið í 100% vinnu í leikskóla og einnig í hlutastarfi, eins og ég gerði áður en ég tók við sem formaður Eflingar. Líkaminn á mér gæti aldrei ráðið við allt það mikla álag sem fylgir því að starfa með börnum. Samt er ég með svona litla örorku, bara 10%. En ég veit líka að vegna þess að ég er aðeins með grunnskólapróf þá hef ég úr mjög fábrotnum starfs-möguleikum að moða. Ég er dæmd til að dvelja á útsölumarkaði samræmdrar láglaunastefnu. Þau störf sem mér standa til boða eru illa launuð og flest þeirra reyna mikið á líkamann. Störf í umönnun, störf við þrif, störf í verslun, störf í matvælaframleiðslu, störf í veitingageiranum. Og hvernig yrði það að geta ekki verið í fullu starfi? Það myndi aldrei ganga vegna fjárhagslegra ástæðna. Svo að ég myndi keyra sjálfa mig áfram í fullu starfi. Vera „ofur-verkakona“, ofur-arðrænd kona sem bítur á jaxlinn og heldur áfram að selja aðgang að vinnuaflinu sínu til að geta séð fyrir sér og sínum. Upplifa meiri sársauka og taka fleiri verkjalyf. Sofa verr. Hafa áhyggjur af fjárhagnum og til viðbótar áhyggjur af eigin heilsu. Hversu lengi gæti ég þraukað svona? Og hversu langur tími myndi líða þangað til að 10% örorkan mín breyttist í 20, 30, 40, 50% örorku? 100% örorku? Hversu langur tími myndi líða þangað til að ekki væri lengur hægt að nýta mig til vinnu og ég yrði byrði á Bjarna og hinum ríku mönnunum á Íslandi?

Það er staðreynd að verkakonur fara að missa heilsuna um fimmtugt. Þær þurfa ekkert að lenda í slysi eða verða fyrir „áfalli“ til þess að það gerist. Erfiðisvinnan eyðileggur líkamann og fjárhagsáhyggjurnar skemma sálina. Þær koma til Virk og sumar er hægt að „endurhæfa“ en aðrar ekki. Þær verða öryrkjar. Og hvað bíður þeirra sem endurhæfast og snúa til baka á vinnumarkað? Jú, nákvæmlega sama ástand og gerði þær veikar til að byrja með.

Það er líka staðreynd að verkakonur lifa skemur á Íslandi en konur með háskólamenntun. Og þessi munur hefur aukist á síðustu árum. Áfallið sem þær verða fyrir er fyrst og fremst það að hér er ekki farið um þær mjúkum höndum, þvert á móti, þær fá ekkert upp í hendurnar og ekkert ókeypis. Og þegar líkaminn gefur sig bíður þeirra fátækt og skömmin sem er þröngvað upp á þær fyrir að vera ekki lengur vinnuafl, þrátt fyrir að þær hafi sannarlega svitnað fyrir íslenskt samfélag.

Þessi hópur kvenna tilheyrir þeim.

Hann getur kynnt undir andúð á þeim sem ekki geta unnið.

Fjármálaráðherra getur afvegaleitt umræður og gert lítið úr baráttu fólks sem þjáist. Hann getur kynnt undir andúð á þeim sem ekki geta unnið. En hann getur ekki rætt málið af alvöru. Vegna þess að þá þarf hann að viðurkenna að stéttaskipting og misskipting eru rót vandans, ásamt andúð á þeim sem ekki uppfylla grimmilegar kröfur nýfrjálshyggjunnar um hvað er í boði fyrir mannfólk: Annað hvort ertu sigurvegari eða tapari. Og ef þú ert tapari ertu byrði á sigurvegaranum, til ama, átt að skammast þín. Færð ekki boð í kökuboð.

Fjármálaráðherra afhjúpar grimmd sína með því að þykjast ekki skilja hvað ÖBÍ er að segja. Það er til skammar. Ég vona af öllu hjarta að engir nema forhertustu grimmdarseggirnir taki undir með honum. Og ég vona að við fáum sem fyrst manneskju í fjármálaráðuneytið sem getur sett sig í spor annars fólks. Þá er hægt að byrja að vinna í því að uppræta þá skömm sem níðingsskapur gagnvart fólki með skerta starfsgetu sannarlega er. Þá er hægt að byrja á því að skipta hér kökunni með þeim hætti að engin manneskja þurfi að líða skort, sama hver hún er og hvað hún getur eða getur ekki gert.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: