- Advertisement -

Bjarni fær tífalt hærri jólabónus en öryrki

Gunnar Smári skrifar:

Reikna má með að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fái eins og aðrir þingmenn um 185 þús. kr. í jólabónus þetta árið. Eftir skatta gera þetta rúmar 99 þús. kr. sem Bjarni getur notað yfir jólin.

Öryrkjar fá 45 þús. kr. í jólabónus. Öryrki sem hefur auk greiðslna frá Tryggingastofnun 100 þús. kr. á mánuði út úr sínum lífeyrissjóð fær vanalega 288.167 kr. útborgaðar. Þegar 45 þús. kr. jólabónus bætist ofan á hækka greiðslurnar upp í 298.060 kr. eða um 9.893 kr. meira en vanalega.

Bjarni fjármálaráðherra hefur komið því svo fyrir að þegar öryrkinn fær 45 þús. kr. jólbónus græðir ríkissjóður rúmar 35 þúsund krónur en öryrkinn minna en 10 þús. kr. Öryrkinn heldur eftir 22% af sínum litla bónus á meðan Bjarni sjálfur heldur eftir 54% af sínum veglega bónus.

Bjarni fær því meira en tífalt hærri jólabónus en öryrkinn. Á þingi í dag sagði Bjarni að þetta væri gert til að vernda þau sem hefðu minnst umleikis í samfélaginu.

Í venjulegum mánuði fær Bjarni útborgað um 1.149.384 kr. (3,99 sinnum það sem öryrkinn í dæminu hér að ofan fær vanalega. En í desember fær Bjarni 1.244.862 kr. úrborgaðar (4,18 sinnum það sem öryrkinn fær). Í veröld Bjarna er það svo að hin efnameiri eiga betra skilið alla daga, líka á jólunum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: